• Dr. Þórður Örn Kristjánsson
    Dr. Þórður Örn Kristjánsson, fuglafræðingur

Fyrstur heyrnarlausra með doktorspróf á Íslandi

22. sep. 2016 Fréttir og tilkynningar

Þórður Örn hefur mikinn áhuga á æðarkollu og atferli hennar.Hann lauk BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 2005 og hlaut meistaranafnbót frá skólanum árið 2008. Í meistaraverkefninu skoðaði hann áhrif dúntekju á hita, hegðun og varpárangur æðarfugla og var doktorrannsókn hans framhald á þeim rannsóknum. Heiti doktorsritgerðarinnar er ,,Varpvistfræði æðarfugls við Breiðafjörð” en rannsóknina vann Þórður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi undir leiðsögn Jóns Einars Jónssonar, forstöðumanns setursins. Rannsóknin fjallaði um dúntekju hér á landi og helstu niðurstöður sýna að dúntekja hefur lítil áhrif á afkomu æðarkollna hér á landi og getur því talist vistvæn.

Foreldrar hans eiga eyjaklasa á Breiðafirði ásamt fleira fólki og þar hefur hann alltaf eytt hluta af sumrinu frá því hann var krakki. Æðarkollan er afskaplega verðmæt fyrir Íslendinga og Þórður segir að líklega átti Íslendingar sig ekki á hve miklar tekjur hún skapi fyrir land og þjóð. Íslendingar eru með um 80% af allri dúnframleiðslu í heiminum og eru því stærsti dúnframleiðandi í heimi.

Dr. Þórður Örn Kristjánsson

Í verkefninu skoðaði Þórður það sem getur haft áhrif á varp æðarfugla við Breiðafjörð. Breiðafjörður er mikilvægasta búsvæði æðarfuglsins hérlendis og dúnninn hefur verið nýttur þar frá landnámi. Niðurstaðan sem Þórður Örn færir okkur eru þau gleðileg tíðindi fyrir land og þjóð að dúntekja hér á landi virðist hafa lítil áhrif á afkomu æðarkollna í mjög þéttu varpi og getur því talist vistvæn. 

Ein stærsta niðurstaða verkefnisins er að aðalfæða breiðfirskra æðarfugla er alls ekki sú sama og annarra æðarfugla, hvorki hér á Íslandi né annars staðar í heiminum. Fuglinn étur mest af flekkunökkva, lindýrum sem eru skyld kuðungum og samlokum. Sú niðurstaða kom mjög á óvart en oftast er það kræklingur sem er aðalfæða æðarfugla.

Tekið af Morgunblaðinu