Kolbrún Völkudóttir syngur í Eurovision

29. apr. 2016

Kolbrún Völkudóttir er meðal átta táknmálstúlkenda sem munu sjá um að túlka Eurovision keppnina sem fram fer í næsta mánuði. Þetta er þriðja árið sem táknmálssöngvarar flytja lögin í keppninni á aukarás Sænska ríkisútvarpsins, SVT. Svíar hafa einnig túlkað forkeppni sína, og útsendingu frá aðalkeppninni, nokkrum sinnum.

Sign language Euriovision 2016

Það var auglýst eftir heyrnarlausum performer og ákvað ég að slá til og senda umsókn,“ segir Kolbrún. Allir umsækjendurnir hafi þurft að þýða sama textann, taka upp á video og senda inn. „Mér skilst að um það bil 50 umsækjendur sóttu um og komust 11 áfram eftir videóið.  Ég og hin 10 sem komust áfram hittust í Stokkhólmi í Workshop. Þetta var fólk frá Svíþjóð, Danmörk, Þýskaland, Rússland, Litháan og fleiri löndum. Eftir workshopið komust átta áfram sem munu koma til með að þýða og syngja lögin á táknmáli.

Kolbrún segir erfitt að segja hvað einkenni góðan táknmálssöngvara. Þetta sé ákveðið listform. „Ég tel að það sé mikilvægt að geta komið textanum í laginu vel frá sér.  Í því felst að túlka textann og koma táknmálinu frá sér með réttum ryþma sem getur verið mikil áskorun fyrir okkur sem erum heyrnalaus. Það er mikilvægt að söngvarinn hafi mikla útgeislun, þetta er eiginlega einhver tilfinning og túlkun.  Þetta er bara svipað og með söng heyrandi fólks.  Sumir syngja guðdómlega meðan aðrir geta ekkert sungið og allt þar á milli.“  

Sum lög erfiðari í flutningi en önnur

Táknmálssöngvararnir þýða texta laganna með hefðbundnum táknum en bæta einnig við annars konar tjáningu, eins og hreyfingum, svipum og jafnvel danssporum. Þannig geta þeir gefið lögunum aukna dýpt og komið tilfinningu og stemningu þeirra betur til skila til þeirra sem ekki geta heyrt þau. „Sum lög er mjög erfitt að syngja á táknmáli. Sumir textar eru flóknir eða óskiljanlegir,“ segir Kolbrún og bætir við að þar sé helst lélegum textum um að kenna. 

„Við erum að syngja lögin en ekki að þýða þau eins og túlkar gera. Táknmálstúlkun er talmál og táknmálssöngur er söngur.  Til dæmis er hægt að rappa eða syngja óperu á táknmáli,“ segir Kolbrún. 

Flytur lög frá sjö löndum

Undanfarin tvö ár hefur Samskiptamiðstöð heyrnalausra og heyrnaskertra gert myndbönd með túlkun á íslensku framlögunum til Eurovision. Kolbrún túlkaði lagið Unbroken á síðasta ári og þótti hún gera það einkar vel. Í ár táknmálssyngur hún sjö af lögunum í keppninni. „Ég flyt íslenska lagið og lög frá Finnlandi, Noregi, Albaníu, Tékklandi, Serbíu og Slóvaníu.“  

Táknmálsútsendingin verður aðgengileg víða um heim, bæði í sjónvarpi og á netinu. „Þetta er þriðja árið sem Eurovision lögin eru sungin á táknmáli.  Það er mikil þróun í þessu og söngurinn er allaf að verða betri.  Í ár er lögð áhersla á að sungið sé á alþjóðlegu táknmáli.  En táknmál er einstakt fyrir hvert land annars.“

Unbroken eftir Maria Olafs Kolbrún er reynslumikil í bransanum. „Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á táknmálssöng, er búin að vera með í Jólasöngvum Langholtskirkju sex sinnum og tvisvar sinnum með í Jólasprotum Hörpu og syng aftur þar næstu jól. Svo er ég líka að syngja í ýmsum verkefnum en mér þykir alltaf vænst um jólatónleikana.“

Tekin af ruv.is