• Fræðsla

Málstofa um íslenskt

  • 8.4.2019, 18:30 - 20:30, Félag heyrnarlausra

Video Íslenskt táknmál (ÍTM) er mál sem er í stöðugri endursköpun. Upphaf málsamfélags þess má rekja til loka 19. aldar og síðan þá hefur málið tekið miklum og örum breytingum. Rof hefur orðið á milli málstiga, ekki síst vegna þeirra málhugmyndafræði sem málið hrærist í. Breytingar á íslenska táknmálinu eru síst minni í samtímanum en þær verða vegna áhrifa frá móðurtáknmáli erlendra málhafa eða aðfluttra döff. Hér verður fjallað um tilurð íslenska táknmálsins, áhrifavalda málsamfélagsins, breytileika og einkamállýskur. Þá verður rætt um málhugmyndafræði, viðhorf og málafstöðu sem af þeirri hugmyndafræði leiða.

Valgerður Stefánsdóttir: Um uppruna og þróun íslenska táknmálsins.

Hvert er upphaf íslenska táknmálsins á Íslandi? Erindið byggir á viðtölum við döff málhafa, sem birta óvenjulega og kraftmikla sögu. Saga íslenska táknmálsins verður sögð og fjallað um áhrifavalda í þróun þess. Íslenskt táknmál er ungt mál. Uppruna þess má rekja til loka 19. aldar þegar fyrsti skóli fyrir heyrnarlausa var stofnaður. Á öllum tímum hefur hugmyndafræði og afstaða skólayfirvalda til íslensks táknmáls haft mikil áhrif á þróun þess og afdrifarík áhrif á líf fólksins sem talar það. Hér er sagt frá ótrúlegri þrautsegju, opnum huga, sköpunarkrafti og samstöðu döff fólks sem skapar íslenskt táknmál og döff menningu í stöðugri baráttu við hugmyndafræði þeirra sem ráða.

Rannveig Sverrisdóttir: Gott mál, rétt mál, mitt mál: Mállýskur og mælikvarðar í íslensku táknmáli.

Erfitt er að setja mælikvarða á gæði málnotkunar og hæfni málhafa, ekki síst í táknmálum þar sem málstaðallinn er oft óljós. Í rannsóknum á bandaríska táknmálinu er nær eingöngu stuðst við dóma og málsýni frá þeim sem lært hafa táknmálið frá foreldrum sínum. Rannsakendur annarra táknmála hafa bent á að þetta geti reynst ógerningur í mörgum minni táknmálssamfélögum en einnig að þetta sýni ekki rétta mynd af málinu, taki þurfi mið af breidd samfélagsins. Í örmálsamfélagi íslenska táknmálsins er breytileiki talsverður og skýringa er oft að leita í félagslegum þáttum og þá ekki síst kynslóðamun. Ýmislegt bendir þó til þess að í mörgum tilvikum sé erfitt að tengja breytileikann ákveðnum félagslegum þáttum og væri jafnvel réttara að tala um einkamállýskur í einhverjum tilvikum. Hér verður rætt um mælikvarða á „gott“ eða „rétt“ mál, málhafa, breytileika og einkamállýskur í íslenska táknmálinu.

Nedelina Ivanova: Áhrif tvítyngis málhafa á þróun íslenska táknmálsins.

Hlutfall döff barna sem eiga tvö táknmál að móðurmáli og eru af erlendum uppruna er 75% barna á aldrinum 1-9 ára á Íslandi. 25% barna eiga heyrandi íslenska foreldra og alast upp við íslenskt radd- og táknmál. Börnin af erlendum uppruna eru öll fædd á Íslandi og alast upp við tvö táknmál, móðurtáknmál foreldra sinna og ÍTM sem börnin læra í leik- og grunnskóla. Í ljósi þess að börn af erlendum uppruna eru 75% af börnunum á aldrinum 1-9 ára er afar mikilvægt að fylgjast með breytingum sem ÍTM verður fyrir vegna áhrifa frá öðrum táknmálum þar sem börn af erlendum uppruna móta ÍTM en ekki öfugt.
Í erindinu verður greint frá því hvernig tvítyngd börn af erlendum uppruna mynda tákn í ÍTM á grundvelli niðurstaðna á prófinu Hvað er á myndinni. Prófið er hluti af stærri rannsókn til sex ára sem hófst í janúar 2018.