Siðareglur

Hlutverk siðareglna er að veita þeim sem koma að starfi Félags heyrnarlausra almennar leiðbeiningar og vera þeim hvatning. 

Þær eru hluti af þeim anda sem á að vera ríkjandi í félaginu og þurfa að njóta almenns stuðnings meðal félagsmanna. Þær eru ekki tæmandi, heldur leiðbeinandi og hvetjandi. Aðhaldið felst í almennu viðhorfi til boðskapar reglnanna. Þær þarf að kynna öllum hlutaðeigandi. 

Hlutverk siðareglna er mismunandi, allt frá því að vera leiðbeinandi yfir í það að hafa refsiákvæði. 

Hluti af starfsemi Félags heyrnarlausra felst í barna og unglingastarfi. Því er mikilvægt að reglur varðandi kynferðisbrot og forvarnir gegn þeim séu skýrar og að þær gæti ávallt hagsmuna barna og unglinga eða hugsanlegra þolenda. 

 1. Starfsfólki, stjórnarmönnum og áhugafólki sem starfar hjá eða fyrir Félag heyrnarlausra er skylt að fræðast um aðgerðir varðandi forvarnir, misnotkun og ofbeldi. 
 2. Allir sem starfa í nafni eða í þágu félagsins skrifi undir yfirlýsingu að þeir hafi kynnt sér ogfari eftir lögum og reglum sem Félag heyrnarlausra setur fram hverju sinni. Þeir þurfa að afhenda sakavottorð til framkvæmdastjóra og/eða formanns Félags heyrnarlausra eða gefa leyfi til að nálgast það. 
 3. Þeir sem hafa verið kærðir fyrir kynferðisbrot skuli ekki vinna innan félagsins, í nafni eða þágu félagsins þó þeir hafi verið sýknaðir af sakargiftum. 
 4. Hafi stjórn félagsins borist rökstuddan grun um að einstaklingur hafi sýnt óeðilega kynferðislega háttsemi gagnvart félagsmönnum eða öðrum skal hann ekki starfa innan félagsins, í nafni eða í þágu félagsins þó svo að sekt sé ekki sönnuð. 
 5. Starfsfólk eða stjórnarmenn skulu aldrei taka að sér akstur barna eða unglinga í nafni eða þágu félagsins, nema með skriflegu leyfi foreldra/forráðamanna. 
 6. Berist starfsmanni eða stjórnarmanni rökstuddur grunur, tilkynning eða vísbending um kynferðisbrot, lögbrot eða eignarspjöll, þá skal hann tilkynna það samkvæmt eðli málsins. 

Stjórnarmenn / Starfsmenn/ áhugafólk sem starfa í Félagi heyrnarlausra eða í þágu þess skulu:  

 1. Standa vörð um anda og gildi félagsins og leggja sitt af mörkum til að hvort tveggja lifi áfram meðal félagsmanna. 
 2. Koma fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, kynþætti, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, fötlun, og kynhneigð. 
 3. Hafa lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri. 
 4. Taka alvarlega þá ábyrgð sem þeir hafa gagnvart félagsmönnum og hagsmunamálum félagsins. 
 5. Aldrei notfæra sér stöðu sína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins. 
 6. Hafa hagsmuni félagsins og félagsmanna í huga í stjórnarstarfi og ákvarðanatökum. 
 7. Fylgja lögum Félags heyrnarlausra. 

Félagsmenn skulu: 

 1. Ávallt sýna öðrum virðingu, jafnt í meðbyr sem mótbyr. 
 2. Bera virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra óháð kyni, kynþætti, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, fötlun og kynhneigð. 
 3. Samþykkja aldrei eða sýna ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.