• Valgerður Stefánsdóttir
    Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Án táknmáls er ekkert líf

Höfundur: Valgerður Stefánsdóttir

29. mar. 2011

Íslenskt táknmál er notað í daglegum samræðum Íslendinga sem kalla sig döff og tilheyra döff menningu. Táknmál myndar grunninn undir menninguna en hún geymir siði, venjur, ljóð og listir sem túlka döff lífssýn, sameiginlega sögu og reynslu. Örfá ár eru síðan þjónusta táknmálstúlka gerði þátttöku döff Íslendinga mögulega í íslensku samfélagi. Örfá ár eru einnig síðan farið var að líta á íslenskt táknmál sem tungumál en í áratugi var döff Íslendingum bannað að nota það. 

Bannið við notkun íslensks táknmáls er kennt við „óralisma“ en það er stefna eða hugmyndafræði sem fylgt var í kennslu döff barna fram yfir 1980. Foreldrar og kennarar barna, sem voru heyrnarlaus, kunnu ekki málið sem börnin töluðu og annað fólk sem umgekkst döff fólk kunni sjaldnast táknmál. Í skólanum var reynt að kenna nemendunum raddmálið íslensku með því að láta þau lesa af vörum og tala í stað þess að styrkja þeirra eigin mál, málið sem þeir gátu hindrunarlaust tjáð sig á sín á milli. Talaðferðin bar hins vegar ekki árangur þar sem það er ómögulegt fyrir einstakling, sem fæddur er heyrnarlaus, að læra íslensku nema í gegnum sitt eigið mál eða íslenska táknmálið. 

Viðurkenning íslenska táknmálsins hefur um árabil verið eitt helsta baráttumál Félags heyrnarlausra.

Það er alvarlegur glæpur að taka tungumál frá manneskju og döff fólk í dag lítur á kennslustefnu óralismans sem stórkostleg mistök og alvarlegt afbrot gagnvart sér. Tove Skutnabb-Kangas er heimsfrægur fræðimaður á sviði tvítyngis, menntunar minnihlutahópa, málréttinda og málstefnu. Hún hefur mikið fjallað um málbann eða það sem hún kallar málútrýmingu (e. linguistic genocide) og einnig tungumál sem ganga af öðrum málum dauðum (e. killer languages). Skutnabb-Kangas líkir táknmálsbanni óralismans einmitt við málútrýmingu og hefur einnig bent á að heyrnarlaus börn, sem eru í þeirri stöðu í skóla að kennari þeirra kann ekki táknmálið, sæti andlegum pyntingum. Táknmálsbann getur verið bæði beint og óbeint að mati Skutnabb-Kangas. Dæmi um óbeint bann er þegar heyrnarlaus börn fá ekki að eiga samskipti í táknmálsumhverfi. Börnum er ekki nóg að mega tala táknmál sín á milli, kennarar þeirra og forráðamenn verða að tala mál þeirra. Það er heldur ekki nóg fyrir börnin að kennari þeirra tali táknmál. Þau verða einnig að fá að eiga samskipti við önnur börn á táknmáli. Ef svo er ekki ógnar raddmálið færni barnanna í táknmáli og fær hlutverk „útrýmingarmáls“ (e. killer language) gagnvart táknmálinu. 

Tungumál okkar er samofið persónuleika okkar. Það gerir okkur kleift að sýna hver við erum og skilja hvernig aðrir sjá okkur. Það er því líka forsenda heilbrigðs sjálfskilnings. Þegar mál manneskju er ekki viðurkennt verður hún útilokuð frá eðlilegum samskiptum við aðra. Hún getur jafnvel virst ósýnileg öðru fólki. Við slíkar aðstæður er sjálfræði og sjálfsvirðing manneskjunnar í hættu. Með því er alvarlega vegið að lífsgæðum og mannréttindum hennar. 

Þegar íslenska táknmálið var bannað var sá möguleiki tekinn frá döff fólki að eiga samræður við aðra, að geta tekið þátt í samfélagi við aðra sem notuðu raddmál, gera sér grein fyrir eigin verðmæti, fá þekkingu, hafa áhrif, axla ábyrgð og berjast fyrir réttindum sínum. Bannið leiddi til mjög takmarkaðra lífsgæða, lágrar félagslegrar stöðu og kúgunar döff fólks. Hagsmunabarátta döff fólks er barátta fyrir táknmáli og baráttan fer líka fram í gegnum táknmál. Sú staðreynd veldur því að döff hagsmunabarátta er miklu skemmra á veg komin en barátta þeirra minnihlutahópa sem geta útskýrt mál sitt á íslensku. Með þetta í huga og að táknmálið og persóna döff fólks er samfléttað er auðveldara að skilja hve alvarleg íhlutun í líf döff táknmálsbannið var. Döff samstarfskona mín lýsti því að án táknmáls væri ekkert líf. 

Á undanförnum áratugum hefur táknmál fengið aukna viðurkenningu. Á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er nú unnið að rannsóknum, kennslu táknmáls og miðlað táknmálstúlkaþjónustu. Í sjónvarpi eru táknmálsfréttir og boðið er upp á táknmálskennslu í sumum skólum. Í Háskóla Íslands er kennd táknmálsfræði og túlkun til BA-prófs og þar er unnið að rannsóknum á íslensku táknmáli. Þrátt fyrir aukna viðurkenningu finna döff einstaklingar ennþá fyrir áhrifum óralismans. Málið nýtur ekki sömu virðingar og íslenska. Döff fólk upplifir persónulega valdbeitingu í gegnum undirokun táknmálsins og að gildismat þess og menning sé ekki viðurkennd. Flestir döff einstaklingar þekkja þá kúgun sem því fylgir að fá ekki að tjá sig á eigin tungumáli og að ekki sé litið á tungumál þeirra sem raunverulegt mál. 

Viðurkenning íslenska táknmálsins hefur um árabil verið eitt helsta baráttumál Félags heyrnarlausra. Í viðurkenningu á táknmáli felst ekki einungis að viðurkenna málið heldur er viðurkenningin lykill að lífsgæðum, samfélagsþátttöku og jöfnuði döff fólki til handa. Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Með samþykkt þess frumvarps yrði í fyrsta skipti viðurkenndur réttur döff Íslendinga til að eiga samskipti á táknmáli og mannréttindi og mannfrelsi döff til jafns við aðra. 

Höfundur er forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.  
Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2011.