Dagur íslenska táknmálsins

Undirtitill

28. feb. 2014

Degi íslenska táknmálsins var fagnað þann 11.febrúar víðs vegar, er þetta í annað sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur. Víðs vegar var að finna viðburði, Málþing á vegum Rannsóknarstofu í táknmálsfræðum og Málnefndar um íslenskt táknmál í Þjóðminjasafninu sem bar heitið ,,Tveir heimar mætast“ þar sem fjallað var um ávinning samfélagsins af táknmáli og Döff menningarheimi. Dagskrá málþingsins var fjölbreytt og þar á meðal fengu gestir þann heiður að hlusta á fyrirlestur Dr. Dirksen Bauman sem er prófessor við Galluadet háskóla í Washington þar sem hann fjallaði um hvað græða má af Döff og þeirra menningarheimi ásamt því að skoða hvað heyrandi eru að missa af.  Hjá Félagi heyrnarlausra um kvöldið var fyrirlestur um læsi og lestur Döff barna. Janne Boyle Niemalë kom í heimsókn frá Danmörku, hún starfar í dag sem formaður landssamtaka heyrnarlausra í Danmörku DDL og er menntuð í málvísindum. Mastersverkefnið hennar fjallaði um læsi og ritun meðal barna með heyrn. Hún er móðir tveggja Döff dætra, og notaði reynslu sína sem foreldri um hvernig má stuðla að betri lestri, ritun og stöfun hjá Döff börnum. Dagurinn var mjög áhugaverður og fróðlegur, klárt er að mikill ávinningur er að tilheyra menningarheimi Döff og táknmálinu. Mikilvægt er að leika sér með táknmálið fyrir börn, grínast með táknin, leika sér með að stafa orðin á táknmáli og þess háttar. Leikskólinn Sólborg og Hlíðaskóli héldu líka upp á dag íslenska táknmálsins og fregnir bárust af fleiri stöðum sem kynntu sér daginn með því að skoða vefinn www.signwiki.is og fengu nemendur og kennarar tækifæri til að kynna sér hitt tungumálið sem er viðurkennt hér á landi.