Hvað er döff?

Á Íslandi er orðið döff notað um heyrnarlaust fólk sem talar táknmál. Að vera döff er að tilheyra samfélagi heyrnarlausra og líta á táknmál sem sitt fyrsta mál. Samsömun og sjálfsmynd eru mikilvægir þættir í þessu samhengi. Að vera döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi.

Einkenni heyrnarskerðingar hjá barni

Ef vandamál koma upp í sambandi við tjáskipti við barn eða ef málið þroskast ekki eðlilega þarf fyrst og fremst að ganga úr skugga um hvort um heyrnskerðingu sé að ræða. Ákveðin atriði í hegðun barns geta bent til heyrnarskerðingar:

  • Skapbræði.
  • Skert einbeiting, órói
  • Barnið einangrar sig.
  • Barnið þreytist fljótt t.d. af að hlusta á sögur.
  • Máltöku seinkar, barnið bætir ekki við nýjum orðum og talar barnalega eða óskýrt.
  • Barnið er sinnulaust, fylgir ekki einföldum fyrirmælum.
  • Skilningur á hugtökum er minni en hjá jafnöldrum.
  • Barnið bregst lítið við háum tónum
  • Barnið hækkar gjarnan í útvarpi og sjónvarpi.

Um máluppeldi barna sem eru döff

Þegar barn fæðist eiga foreldrar og uppalendur mikið og flókið verk fyrir höndum. Máluppeldið er eitt þessara verka og ef til vill það sem við leiðum hugann sjaldnast að. Máltakan virðist gerast alveg af sjálfri sér. Sumir telja að máltaka barns hefjist þegar í móðurkviði. Barnið skynjar umhverfishljóð fyrir fæðingu og rannsóknir sýna að það gerir greinarmun á rödd móður sinnar og annarra strax eftir fæðingu. Fljótlega fer barnið að tileinka sér hljóð, tónfall og áherslur úr umhverfinu. Það gerir þetta áður en það fer að mynda orð. Þessi undirbúningur að máltökunni er afskaplega mikilvægur fyrir það sem á eftir kemur, máltökuna sjálfa. Barnið er „baðað“ í máli. Það hlustar á foreldra sína tala saman, það heyrir í útvarpi og sjónvarpi og síðast en ekki síst er talað við barnið um það sem fyrir augu ber. Við notum öll ákveðnar aðferðir til að örva málþroska lítils barns. Við drögum seiminn, endurtökum í sífellu, beitum ýktu tónfalli til að undirstrika það sem mestu máli skiptir í setningunni, styttum setningar, bendum og spyrjum. Það hefur enginn beinlínis kennt okkur þetta. Hæfileikinn til að færa mál frá einni kynslóð til annarrar er okkur áskapaður. Ómeðvitað kennum við börnum okkar að tala eins og við. Málörvunin getur að vísu verið markvissari. Við getum einsett okkur að lesa meira fyrir börnin, tala meira við þau og syngja með þeim. En grunnþekkingin er samt sem áður til staðar. Foreldrar „kunna“ að beita máluppeldi.

Meira um döff

Döff barn þarf málörvun rétt eins og önnur börn. Frjótt og öflugt málumhverfi er forsenda málþroskans sem gerir barninu síðan kleift að mynda tilfinningatengsl, gera sér grein fyrir merkingu hugtaka, læra félagslegar reglur, skiptast á reynslu og þekkingu við aðra og verða þar með virkur og hæfur einstaklingur í mannlegu samfélagi. Barn sem heyrir ekki nýtur ekki málörvunar af röddum og öðrum hljóðum í umhverfinu. Táknmál er móðurmál þeirra sem eru döff. Það er frjótt og lifandi mál með flókna málfræði og mikinn sköpunarmátt. Til að barn sem heyrir ekki fái sömu möguleika til þroska og heyrandi barn er nauðsynlegt að það alist upp í táknmálsumhverfi. Með táknmálsumhverfi er átt við að alltaf þegar barnið er nálægt er talað táknmál eða a.m.k. sé bendingum og stöku táknum beitt hafi fólk ekki vald á táknmáli.

Barn sem er döff hefur í raun annað móðurmál en foreldrar þess. Heimilið verður tvítyngt og allur samskiptaveruleiki þess breytist. Máluppeldið verður ekki lengur ómeðvitað heldur meðvitað. Foreldrarnir þurfa að hugsa markvisst um hvað felst í máluppeldi.

Þegar barn er ómálga hjölum við gjarnan við það, böbblum og bullum, grettum okkur og geiflum. Við erum „týnd“ og birtumst aftur, missum sama hlutinn aftur og aftur og segjum „datt“. Reynið að flytja þessa hegðun yfir á táknmál. Hjal er ekkert annað en hljóðaleikur. Við beitum málhljóðun um skipulega og röðum þeim í ýmsar runur eins og „babababa“ og „gúgúgúgú“. Í táknmálinu gerum við eins. Táknmálið samanstendur af handahreyfingum, svipbrigðum og ýmsu látbragði. Þess vegna getum við „hjalað“ við táknmál. lsbarn með því að beita svipbrigðum, brosa, gapa, lyfta augabrúnum og láta þær síga á víxl. Við látum fingurna „spila“ í lausu lofti, hreyfum hendurnar taktfast sitt á hvað, endurtökum í sífellu stuttar setningar á táknmáli: „?MAMMA HVAR?“ eða „SJÁÐU DÚKKA.“ Með tímanum förum við að lesa fyrir barnið með því að segja því sögur á táknmáli upp úr bókinni, skoðum myndir og spjöllum. Öll þessi málörvun beinist að barninu sjálfu en það er ekki síður mikilvægt að barnið fái aðgang að umræðuefni fullorðna fólksins. Það þarf að sjá umræðurnar um matargerðina, bilaða bílinn, endurbætur á íbúðinni, jólagjafainnkaupin og svo mætti lengi telja. Barnið þarf að hafa aðgang að svona umræðum áður en það öðlast skilning á þeim. Ef döff barn er „baðað“ í máli eins og heyrandi barn öðlast það ríkt og frjótt mál og verður í framtíðinni hæfara til að læra önnur mál og þar með opnast þeim möguleiki á meiri menntun en ella. Mikilvægast er þó líklega það tilfinningalega öryggi sem barnið finnur þegar það hefur greiðan aðgang að lífi fjölskyldunnar og byggir upp tilfinningatengsl sem eru hverju barni nauðsynleg til þroska og menntunar.

Fjölskylda táknmálsbarns á umfangsmikið verkefni fyrir höndum. Heimili, þar sem „ástkæra ylhýra málið“ dugði til alls er nú orðið að tvítyngdu tjáskiptatorgi. Mestu máli skiptir þó að með því að búa barninu táknmálsumhverfi á heimilinu og markvisst máluppeldi á táknmáli er verið að leggja grunn að menntun og þroska einstaklings sem opnar honum sem flesta möguleika í framtíðinni. Fjölskyldan lærir nýtt mál og eykur þar með reynslusína. Heimilið verður miðstöð málnotkunar, öflugra tjáskipta og first og fremst öruggur staður þar sem barnið finnur að borin er virðing fyrir því eins og öðrum á heimilinu.