Táknmálstúlkun

Hér finnur þú upplýsingar um táknmálstúlkaþjónustu og hverjir greiða fyrir þjónustu þegar pantaðir eru táknmálstúlkar á þjónustumiðstöðvum, fyrir ýmis viðtöl, í skólum eða fyrir heilbrigðisþjónustu. 

Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðuneytið greiðir fyrir túlkun hjá sérfræðingum sem heyra undir það. Heilbrigðisstofnanir panta sjálfar túlkun fyrir skjólstæðinga sína.

Sýslumannsembætti

Sýslumannsembætti greiða fyrir táknmálstúlkun í samskiptum við stjórnvöld samkvæmt stjórnsýslulögum. Í bréfi dómsmálaráðherra Þorsteins Pálssonar frá 16. nóvember 1998 gefur hann fyrirmæli til allra sýslumanna um að heyrnarlausir einstaklingar skuli eiga kost á að fá túlkaþjónustu vegna meðferðar mála sem þeir eru aðilar að.  

Háskóli Íslands

Háskóli Íslands pantar og greiðir fyrir táknmálstúlkun í það nám sem heyrnarlausir nemendur sækja.

Ríkisútvarpið

Ríkisútvarpið pantar og greiðir fyrir túlkun á fram boðskynningu sem er í beinni útsendingu kvöldið fyrir kjördag. Þessi háttur hefur verið hafður á eftir úrskurð Hæstaréttar í dómsmáli sem Félag heyrnarlausra ásamt Berglindi Stefánsdóttur höfðaði gegn Ríkisútvarpinu (151/1999).

Lög um réttindi sjúklinga nr. 74 frá 1997

Samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga nr. 74 frá 1997 er kveðið á um rétt sjúklings til upplýsinga um heilsufar og meðferð. Þar er sérstaklega tekið fram  að sjúklingi sem notar táknmál skuli tryggð túlkun á táknmáli til að fá þessar upplýsingar. Viðkomandi heilbrigðisstofnun pantar túlkunina og greiðir fyrir hana 

Menntamálaráðuneytið

Menntamálaráðuneytið greiðir fyrir túlkun í ríkisreknum framhaldsskólum í samræmi við áætlun sem gerð er í upphafi annar (sjá 19. grein laga um framhaldsskóla 80/1996).

Túlkun í grunnskólum

Túlkun í grunnskólum hefur verið greidd af því sveitarfélagi sem barnið tilheyrir, samkvæmt lögum um grunnskóla frá 1995 nr. 66.

Félagsmálaráðuneyti

Undanfarin ár hefur túlkaþjónustan fengið 2-3.000.000 greiddar í gegnum félagsmálaráðuneyti til almennrar túlkunar samkvæmt reglum sem voru gefnar út 1. mars 1995, til bráðabirgða af þáverandi félagsmálaráðherra Rannveigu Guðmundsdóttur.

Réttur til táknmálstúlkunar

Réttur til táknmálstúlkunar samkvæmt reglum þessum skal taka til eftirfarandi tilvika og aðstæðna: 

  1. Vegna samskipta við allar opinberar stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þannig skulu heyrnarlausir fá þjónustu t.d. vegna heimsókna á heilsugæslustöðvar, til heimilislækna, á göngudeildir spítala, vegna viðskipta við félagsmálastofnanir, vinnumiðlanir og vegna foreldrafunda í skólum. 
  2. Vegna viðskipta við sjálfstætt starfandi sérfræðinga, svo sem sálfræðinga, geðlækna, félagsráðgjafa, lögmenn, fasteignasala eða aðra þá sem fengið hafa starfsleyfi frá opinberum aðilum. 
  3. Heimilt er í undantekningartilvikum að greiða kostnað við túlkun vegna  annarra tilvika og ástæðna en að ofan greinir, enda þyki sýnt að það varði hagsmuni hins heyrnarlausa verulega. 
  4. Heimilt er að greiða kostnað vegna upplýsingamiðlunar og kynningar á opinberri þjónustu í formi kynningarfunda og/eða myndbanda.

Túlkaþjónustan hefur leitað eftir styrkjum á hverju ári til að fjármagna túlkun fyrir heyrnarlausa í öðrum en ofangreindum tilvikum.

Kirkjutúlkun

Túlkun við kirkjulegar athafnir vegna fjölskyldu eða náinna vina hins heyrnarlausa og safnaðarstarfs. Mikil aukning hefur verið á þessu sviði síðustu ár. Heyrnarlausir eru í síauknum mæli farnir að vera viðstaddir skírnir, fermingar, brúðkaup og jarðarfarir skyldmenna sinna og auk þess hefur þátttaka í fjölskyldunámskeiðum, mömmumorgnum og bæ nastundum aukist. Biskupstofa hefur lagt fram 75-100.000 undanfarin ár til þessa verkefnis.

Sveitarfélög

Undanfarin ár hefur túlkaþjónustan sótt um styrki til sveitarfélaganna á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Nokkur sveitarfélög hafa styrkt þjónustuna með  framlögum að upphæð frá 50-100.000 en Reykjavíkurborg hefur lagt fram 400-600.000 á hverju ári. Þessir styrkir hafa verið nýttir til túlkunar við tómstundar- og menningarstarf heyrnarlausra íbúa hvers sveitarfélags. Sem dæmi má nefna hafa þessir styrkir verið nýttir í að túlka tómstundanámskeið,  menningarstarfsemi ýmiss konar, einnig til þátttöku í veislum og samkomum.

Reikningar

Opinberar stofnanir, sveitarfélög, skólar, félagasamtök og fyrirtæki greiða fyrir þá túlkaþjónustu sem pöntuð er. Um er að ræða til dæmis viðtöl við félagsráðgjafa, starfsmannafundi, deildarfundi, foreldrafundi og margt fleira.