Föstudagspistill framkvæmdastjóra

Undirtitill

30. jan. 2015

Góðan dag kæru félagsmenn.

Þegar nóg er að gera í vinnunni þá er gaman. Þannig er það búið að vera síðustu vikur og mánuði og starfsfólk okkar hér í FH eru allir með sín verkefni á hreinu og góðan verkefnalista til að vinna með og skýr markmið hvert skuli haldið í starfsemi og þjónustu félagsins fram að sumarfríi, en þá tekur við undirbúningur fyrir haustverkefnin. Eins og þið vitið þá er Hafdís Gísladóttir hér í verkefni í samstarfi við Heiðdísi og stjórn varðandi hagsmuna- og réttindamál og dælast bréfin út úr lögfræðiskrifstofunni auk þess sem þær funda með stofnunum og félögum til að tryggja döff réttindi og aukið aðgengi að íslensku samfélagi. Þá hef ég fengið í hendur stefnumótunarskýrslu stjórnar, fékk hana að vísu fyrir þó nokkru síðan til að setja hana í kynningarhæft form sem lagt verður fram á félagsmannafundi fljótlega eftir allt afmælisstússið. Táknmál og döff verður aðalþema símaskrárinnar 2015 og er búið að finna efni  í hana í samstarfi við SHH. Undirbúningur við smíði nýrrar heimasíðu er í vinnslu en þessi heimasíða sem við höfum býður upp  á mjög litla möguleika og allar breytingar kosta stórfé þannig að ákveðið hefur verið að fara í smíði nýrrar síðu. Við erum að skoða fjárfestingu í nýtt upptökustúdíó sem á að bæta og auka táknmálsviðmót í nýrri heimasíðu. Þá er búið að kaupa ný borð og stóla fyrir salinn sem mun taka 120 manns í sæti auk þess að búið er að setja upp nýjan og sérhannaðan ljósabúnað fyrir sviðið þannig að táknmál og túlkun sést mjög vel allsstaðar frá. Happdrættið fer að hefjast og verður stíft söluprógramm hjá félaginu fram til mánaðarmóta maí/júní og er allt að smella í skipulaginu þar. Döffblaðið sem er afmælisblað félagsins er óvenjustórt eða 48 síður og hefur Gunnar Snær ritstjóri blaðsins unnið hörðum höndum að gera blaðið klárt. Ég hlakka mikið til að fletta því. Afmælishátíðin er í fullum undirbúningi og verða í boði dagsskrárliðir í 4 daga eða frá 11. febrúar sem hefst með dagsskrá í Tjarnarbíó í tilefni dags íslenska táknmálsins og endar með galaveislu í sal FH en þar hefur farið fremst í flokki Hanna Lára Ólafsdóttir sem hefur unnið mikið starf í undirbúningi hátíðarinnar sem verður glæsilegt með erlendum döff skemmtikrafti sem veislustjóra. Þökkum við Hönnu Láru dugnað og elju í undirbúningi hátíðarinnar. Mér finnst stjórnin aðeins of feimin að upplýsa öll þau mál sem félagið er með í vinnslu en allavega get ég fullyrt að þið eigið flott félag með flottri stjórn og starfsfólki sem er að vinna hellings vinnu á bak við tjöldin... en mikilvægast er að það skilar sér til hagsbóta fyrir döff.

Góða helgi!