KALLAÐ EFTIR FYRIRLESTRI: ALÞJÓÐADAGUR TÁKNMÁLA 2014

Undirtitill

7. ágú. 2014

Kallað eftir fyrirlestri: Alþjóðadagur táknmála 2014   Rannsóknastofa í táknmálsfræðum, í samvinnu við Málnefnd um íslenskt táknmál, Félag heyrnarlausra og Íslenska málfræðifélagið, mun standa fyrir opnum fyrirlestri í tilefni af alþjóðadegi táknmála í september 2014. Kallað er eftir útdráttum að slíkum fyrirlestri og mun stjórn Rannsóknastofu í táknmálsfræðum velja eitt erindi til flutnings.   Allir þeir sem vinna við rannsóknir eða kennslu á íslensku táknmáli eða öðrum táknmálum eru hvattir til að senda inn tillögur. Efni fyrirlestrarins skal vera um táknmál, íslenskt eða erlent og fjalla um eitthvað af eftirfarandi: Nýlegar rannsóknir á táknmálum, eðli þeirra, stöðu eða þróun. Þróunarverkefni eða nýjungar í kennslu um eða á táknmáli. Efnið skal sýna dýpri skilning eða bæta við nýrri þekkingu um táknmál, íslenskt eða erlent. Útdrættir skulu vera að hámarki 300 orð og skal senda á netfangið malnefnd@mit.is fyrir 20. ágúst næstkomandi. Stjórn Rannsóknastofu í táknmálsfræðum mun fjalla um tillögurnar og svara ekki seinna en viku síðar.   Rannsóknastofa í táknmálsfræðum er starfrækt við Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún byggist á samstarfi Málvísindastofnunar og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra og starfar innan vébanda Málvísindastofnunar.