• Lífskjarasamningurinn

Lífskjarasamningurinn

11. apr. 2019

Video Aðilar vinnumarkaðarins og sex launþegasamtaka, verslunar-, skrifstofu- og verkafólks hafa undirritað nýjan kjarasamning til þriggja ára og tekur gildi nú 1. apríl. Samningurinn er mjög víðtækur og var unnin með ríkisstjórninni til að tryggja sem mestan stöðugleika og kjarabata. Í framhaldinu munu ríki og sveitarfélög semja við BSRB og fleiri samtök en þar má búast við að reynt verði meira að semja um styttingu vinnuviku í stað beinna launahækkana.

17 þúsund krónu hækkun verður á öll mánaðarlaun frá 1. apríl 2019. Lægstu laun hækka mest og er um að ræða 30% hækkun á lægsta taxta. Þá verður aukið vinnustaðalýðræði með möguleika á verulegri styttingu vinnutímans sem ASÍ segir vera mestu breytingar í hálfa öld.

Almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf

1. apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
1. apríl 2020 18.000 kr.
1. janúar 2021 15.750 kr.
1. janúar 2022 17.250 kr.

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

1. apríl 2019 317.000 kr. á mánuði
1. apríl 2020 335.000 kr.
1. janúar 2021 351.000 kr.
1. janúar 2022 368.000 kr

Desemberuppót (var 89.000 kr. 2018)

2019 92.000 kr.
2020 94.000 kr.
2021 96.000 kr.
2022 98.000 kr.

Forsendur kjarasamninganna eru eftirfarandi

Kaupmáttur launa hafi aukist á samningstímabilinu skv. launavísitölu Hagstofu Íslands.
Vextir lækki verulega fram að endurskoðun samnings í september 2020 og haldist lágir út samningstímann.
Stjórnvöld standi við gefin fyrirheit skv. yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninganna.
Forsendur kjarasamninga verða metnar í september 2020 og september 2021. Forsendunefnd verður skipuð þremur fulltrúum frá hvorum samningsaðila.

Ríkisstjórnin kynnti yfirlýsingu sína vegna lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og þátttöku ríkisins í samningnum til að tryggja stöðugleika. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að um sé að ræða 42 aðgerðir og að heildarumfang á samningstímabilinu sé 80 milljarðar.