• Umsókn um styrki

Menntunarsjóður Félags heyrnarlausra hlaut styrk

26. ágú. 2019

Ég heiti Ólafur Thoroddsen og er fæddur í Reykjavík 11. ágúst 1959. Móðir mín Aðalbjörg Guðbrandsdóttir var frá Heydalsá í Strandasýslu og faðir minn Ólafur Thoroddsen var frá Vatnsdal í Patreksfirði. Ég ólst upp í Reykjavík en var mikið í sveit á Ströndum hjá ættingjum móður minnar fram á unglingsár. Ég er kvæntur Jónínu Sigurgeirsdóttur hjúkrunarfræðingi og við eigum fjögur börn, Evu sem er stjúpdóttir mín hún er listakona og býr í Öræfum ásamt manni sínum Peter Ålander, Sigurgeir sem er ævintýra- og fjallaleiðsögumaður í Öræfum, Ólaf Jón sem er rafmagnsverkfræðingur og er í sambúð með Ragnhildi Kristjönu Ásbjörnsdóttur Thorlacius og Guðmund Ágúst sem er í flugnámi og er í sambúð með Hafdísi Rós Jóhannsdóttur.

Ég lærði á píanó í nokkur ár; hef ætíð haft mikinn áhuga á tónlist og góðu hljóði yfirleitt og finnst mjög gaman að fara á klassíska tónleika af öllum gerðum. Þannig þróaðist það að ég lærði rafeindavirkjun til að geta líka grúskað í tækjum og þá aðallega hljómtækjum. Ég vann síðan sem tæknimaður í tæp þrjátíu ár hjá Ríkisútvarpinu og gat þannig fléttað saman vinnu og áhugamál. Nú er ég umsjónarmaður í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og það er gaman að segja frá því að hljóðvistin er til fyrirmyndar í skólanum, ekkert bergmál eða glymjandi.

Sem tæknimaður hlustar maður kannski öðruvísi á tónlist og hljóð, en fyrir nokkru síðan áttaði mig á að ég var byrjaður að tapa heyrn á hæstu tíðnum – kannski eitthvað sem venjulegur hlustandi hefði ekki tekið eftir, en mér finnst þetta skipta máli þar sem ég vil geta hlustað vel. Ég er hinsvegar þakklátur fyrir þá heyrn sem ég hef ennþá og þarf ekki að nota heyrnartæki.

Íþróttir hafa verið stundaðar í fjölskyldunni og við höfum spilað badminton í mörg ár og ég er stoltur af drengjunum mínum í þeim árangri sem þeir hafa náð, bæði í badmintoni (Ólafur Jón og Guðmundur Ágúst) og í frjálsum íþróttum (Sigurgeir og Guðmundur Ágúst). Guðmundur Ágúst er í dag fljótastur Mosfellinga og þó víðar væri leitað í 60m, 100m, 200m og 400m hlaupi. Allir hafa þeir náð árangri sem er betri en ég náði og ég mér líður ákaflega vel með það. Sigurgeir og Guðmundur Ágúst hafa báðir hlotið titilinn Íþróttamaður Aftureldingar og verið tilnefndir til Íþróttamanns Mosfellsbæjar og árið 2017 var Guðmundur Ágúst valinn Íþróttakarl Mosfellsbæjar. Við Jónína höfum því eytt ófáum stundum á badminton- og frjálsíþróttamótum í gegn um tíðina, sem okkur finnst mjög skemmtilegt, enda teljum við mikilvægt að sýna börnunum að við styðjum þau alla leið.

Ýmis tónskáld sem samið hafa stórkostlega tónlist misstu heyrnina, frægastur er auðvitað Beethoven en þeir voru fleiri svo sem hinn tékkneski Bedrich Smetana og Gabriel Fauré sem var franskur. Þeir gátu þrátt fyrir heyrnarleysi samið tónlist sem er ótrúlega blæbrigðarík og engan gæti grunað að tónskáldið heyrði ekki neitt. En ég má til með að nefna verk eftir John Cage sem hann kallar einfaldlega 4:33. Þetta verk er fyrir hvaða hljóðfæri, söngrödd eða hljómsveit sem er og er skrifað út í heild sinni á nótum. Verkið „hljómar“ sem ein löng þögn í 4 mínútur og 33 sekúndur.

Mér finnst magnað hvað eyrað er stórkostlegt tæki og legg áherslu á mikilvægi þess að passa vel upp á heyrnina. Von mín er að peningarnir sem afmælisgestir mínir lögðu til, geti komið að gagni fyrir þau sem þurfa á því að halda og hef því lagt 312.000 krónur inn á reikning Menntasjóðs Félags heyrnarlausra.

Með góðri kveðju!

Ólafur Thoroddsen