Samskiptamiðstöð auglýsir

26. okt. 2015

Leiklistarnámskeið


Leiklistarnámskeið fyrir táknmálstalandi börn á aldrinum 6-16 ára 3. nóvember 2015 - 11. febrúar 2016
Samskiptamiðstöð býður upp á leiklistarnámskeið fyrir táknmálstalandi börn í húsakynnum Samskiptamiðstöðvar, Grensásvegi 9, 3. hæð. 
Námskeiðið hefst þriðjudaginn 3. nóvember og kennt verður tvisvar í viku, á þriðjudögum kl. 16:30-17:30 og laugardögum kl. 10:30-11:30. 
Námskeiðinu lýkur með leiksýningu barnanna í Tjarnarbíói á degi íslenska táknmálsins fimmtudaginn 11. febrúar 2016.
Kennari námskeiðsins er Jan Fiurášek. Jan er með BA próf í sviðslistum með áherslu á kennslu skapandi leiklistar fyrir döff frá Janáček tón- og sviðslistaháskólanum (JAMU) í Brno í Tékklandi. Hann hefur auk þess talsverða reynslu af leiklist og leikstjórn, bæði hérlendis og erlendis. Táknmálstalandi börn þekkja hann eflaust best í hlutverki Kötu köngulóar í þáttunum um Tinnu táknmálsálf, sem sýndir voru á RÚV. Honum til aðstoðar verður Sigríður Vala Jóhannsdóttir, samskiptafræðingur á táknmálssviði Samskiptamiðstöðvar.
Í námskeiðinu verður farið yfir grunnþætti í leiklist, s.s. líkamsbeitingu, samvinnu og tengsl hugmynda og framkvæmdar. Markmið námskeiðsins er að kenna táknmálstalandi börnum listsköpun í gegnum íslenskt táknmál og skapa þeim tækifæri til að vinna með eigið mál og menningu.
Kennsla fer fram á íslensku táknmáli.
Námskeiðið er í boði Samskiptamiðstöðvar og er þvíbörnunum að kostnaðarlausu.
Til þess að skrá barn á námskeiðið skal senda nafn og kennitölu barns og nafn, símanúmer og netfang forsjáraðila til Kristínar Lenu Þorvaldsdóttur, verkefnastjóra á táknmálssviði Samskiptamiðstöðvar á netfangið kria@shh.is , fyrir 29. október nk.