Starfsmanni Félags heyrnarlausra sagt upp

14. jún. 2016 Fréttir og tilkynningar

Starfsmanni Félags heyrnarlausra sagt upp

Félag heyrnarlausra hefur sagt markaðs- og fjáröflunarstjóra félagsins upp og hefur uppsögnin þegar tekið gildi. Innanhúsrannsókn, sem lögmaður Félags heyrnarlausra stýrði, hefur leitt í ljós alvarlegan trúnaðarbrest við félagið sem kallaði á tafarlausa uppsögn. Misbrestur hefur orðið á því hvernig fyrrum starfsmaðurinn stóð að uppgjöri á tekjum vegna sölu happdrættismiða, gagnvart sölufólki.

Félag heyrnarlausra mun gera ráðstafanir til að rétta hlut þeirra sem hlunnfarnir hafa verið í viðskiptum við fyrrum starfsmanninn. Þrátt fyrir að félaginu beri ekki lagaleg skylda til þess, telur það siðferðilega skyldu sína að tryggja hlut þeirra sem hafa komið að sölu happdrættismiða þess.

Ljóst er að innra eftirlit Félags heyrnarlausra með sölumálum hefur brugðist. Þetta mál gefur því tilefni til að setja skriflegar verklagsreglur um samskipti félagsins við sölufólk og tryggja að uppgjör gagnvart því fari fram á réttan hátt.

Félag heyrnarlausra reiðir sig á stuðning almennings við að vinna að málefnum heyrnarlausra og er happdrættissala helsta tekjulind þess. Félag heyrnarlausra harmar gjörðir starfsmannsins og vonar að þær hafi ekki kastað rýrð á starfsemi félagsins sem er svo mikilvæg öllum heyrnarlausum.