Táknmál í daglegu umhverfi

22. sep. 2020

Táknmál í daglegu umhverfi

Íslenskt táknmál tryggir þeim sem reiða sig á það til tjáningar og samskipta fulla þátttöku í íslensku samfélagi! Til að tryggja þeim þann möguleika á að taka fullan þátt í íslensku samfélagi þarf að byrja snemma á tvítyngdu málumhverfi og menntun fyrir döff börn. Mikilvægt er að gefa þeim aðgengi að íslensku táknmáli og ritmáli, fá að læra og leika í táknmálsumhverfi og aðgengi að móðurmálsfyrirmyndum.  Veita þarf döff börnum aðgengi að námi sem hámarkar námslega getu þeirra og að þau fái menntun hjá kennurum sem hafa fulla færni á íslensku táknmáli. Lykilatriðið er að styrkja og efla leik-og námsumhverfi döff barna sem gerir þeim kleift að vera virkir í samfélaginu. Þetta á ekki eingöngu við í skólaumhverfi heldur þarf að styðja við táknmálsumhverfi í nærumhverfi barnanna eins og á heimili þeirra. Þess vegna er afar mikilvægt að ríkisstjórn og sveitarfélög tryggi fjölskyldum döff barna táknmálskennslu í gegnum alla skólagöngu barnanna. Öflug snemmtæk íhlutun frá fyrstu hendi er mátturinn til að þróa og efla félags- og vitræna þroska döff barna.

Táknmál í daglegu umhverfi gæti verið meðal annars á heimilinu, í skóla, í íþrótta- og tómstundastarfi, í heilbrigðisþjónustu, í félags- og velferðarþjónustu, í kvöldfréttum, í menningu eins og söng- og leiklist og margt fleira. 

táknmálsumhverfi