Yfirlýsing frá stjórn Félags heyrnarlausra

26. maí 2016

Yfirlýsing frá stjórn Félags heyrnarlausra

 

Stjórn Félags heyrnarlausra óskar eftir að koma á framfæri eftirfarandi yfirlýsingu. 

Síðastliðinn mánudag kom starfsmaður félagsins, sem gegnir starfi fjáröflunarstjóra, á fund framkvæmdastjóra félagsins og tjáði honum að lögreglan væri að rannsaka mál sem tengdist honum. Að sögn starfsmannsins hafði lögreglan spurst fyrir um dvöl erlendra gesta hjá starfsmanninum. Þegar í stað var ákvörðun tekin um að senda viðkomandi starfsmann í leyfi á meðan málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Viðbrögð stjórnar félagsins munu síðan ráðast af því hver niðurstaða rannsóknar lögreglu verður. Stjórn félagsins treystir lögreglu til að vinna að rannsókn málsins og mun gera allt sem hægt er til aðstoða lögreglu við þá rannsókn þannig að málið upplýsist sem fyrst.

Í áratugi hefur starf Félags heyrnarlausra verið byggt á frjálsum framlögum og fjáröflun t.d. happdrættissölu. Allir sölumenn félagsins fá að lágmarki greidd sölulaun sem nema 25% af seldum miðum. Komi til aukakostnaðar t.d. gistikostnaðar vegna söluferða úti á land hefur félagið jafnframt greitt þann kostnað. Um erlenda heyrnarlausa einstaklinga sem dvelja tímabundið á Íslandi og óska eftir að selja happdrætti fyrir félagið gilda sömu reglur og innlendir væru.

Stjórn Félags heyrnarlausra harmar það mál sem fjallað er um í fjölmiðlum í dag og lítur það mjög alvarlegum augum.  Ef brotið er á rétti heyrnarlauss fólks hefur félagið veitt öllum þeim sem til þess hafa leitað aðstoð og leiðbeint þeim um rétt sinn.