Hvernig á að hafa samskipti við döff fólk?

Hefur þú velt fyrir þér hvernig á að hafa góð samskipti við döff fólk? 

Pexels-photo-57825

Sumir heyra ekkert og nota íslenskt táknmál til þess að tjá sig og skilja aðra. Aðrir eru með kuðungsígræðslu eða heyrnartæki. Gott er að hafa í huga slík hjálpartæki gera einstaklingum ekki kleift að heyra jafnvel og heyrandi. Margir heyrandi verða óöryggir þegar kemur að samskiptum og hér koma nokkur atriði sem geta nýst öllum. 

Náðu athygli áður en þú byrjar að tala

Áður en þú byrjar að tala við manneskju skaltu ná athyglinni með því að mynda augnsamband. Döff þurfa að hafa beint augnsamband til að geta haft samskipti við aðra, notað varalestur eða íslenskt táknmál. Það er ekki til siðs að pota í fólk en til að ná athygli getur þú: 

  • veifað hóflega
  • snert manneskjuna létt
  • bankað í borð
  • stappað fæti í gólf
  • bankað létt í öxlina 

Ef einstaklingurinn tekur ekki eftir þér veifandi, þá skaltu ekki ýkja hreyfingar eða hoppa. Slíkt gefur frekar til kynna að þér sért að gera grín að honum. Gakktu frekar í áttina að viðkomandi og veifaðu létt. 

Myndaðu augnsamband

Þú  gerir þér líklega ekki grein fyrir hversu mikið af samtalinu fer fram í gegnum augu og svipbrigði. Ekki vera með sólgleraugu því annars áttar viðmælandinn sig ekki á því að verið sé að tala við hann. Reyndu að nota svipbrigði til áhersluauka (bros, ranghvolfa augunum eða lyfta augnbrúnum). 

Ekki fara út fyrir sjónsvið hins döff

Það auðveldar manneskjunni að eiga samskipti við þig ef hún sér allar hreyfingar og svipbrigði.

  • Reyndu að vera í augnhæð við manneskjuna.
  • Vertu aðeins fjær heldur en þú ert vanur þegar þú talar við fólk.
  • Ekki líta undan. Margir heyrandi gleyma sér og líta í aðrar áttir. Þá er erfitt fyrir hinn döff að fylgjast með munnhreyfingum. 

Notaðu venjulega talrödd

Talaðu bara eins og þú talar venjulega, ekki hvísla eða öskra því það hjálpar ekki. Ekki gera ráð fyrir að allir geta lesið af vörum því að hver og einn einstaklingur er ólíkur. Sumir geta lesið af vörum en aðrir ekki.

  • Ef þú ert með mikið yfirskegg getur verið erfiðara fyrir einstaklinginn að skilja þig.
  • Ekki vera með tyggjó eða annað nálægt munni eða í honum. Eins skaltu varast að setja hendurnar fyrir munninn.
  • Talaðu skýrt og hægar því það getur verið erfitt að lesa af vörum.
  • Hafðu aldrei pípu eða sígarettu í munninum á meðan þú talar. 

Hópspjall

Það er erfitt fyrir döff að fylgjast með umræðum í hópspjalli án táknmáls. Þá er mikilvægt að gefa skýrt til kynna hvert aðalumræðuefnið er. Jafnvel bestu varalesarar skilja aðeins 35% af því sem sagt er og þurfa að geta í eyðurnar.

Notaðu handahreyfingar

Notaðu bendingar eða haltu á hlutum sem þú ert að tala um og tryggðu að manneskjan horfi aftur á andlitið á þér áður en þú byrjar að tala. Þú getur líka notað látbragð til að túlka orð þín. Notaðu fingurna til að sýna tölustafi.

Vertu kurteis

Auðvitað gildir almenn kurteisi í samskiptum við döff fólk eins og aðra en hér eru nokkur atriði sem er vert að huga að:

  • Ef einhver truflun á sér stað sem hinn döff tekur ekki eftir, svo sem sími sem hringir eða dyrabjalla sem glymur, útskýrðu þá af hverju þú þarft að stíga frá.
  • Ekki hætta snarlega samskiptunum eins og að segja „skiptir engu“ þegar þú áttar þig á að manneskjan er döff. Þú myndir án efa ekki segja svona við heyrandi heldur.
  • Ekki sýna pirring þegar þú þarft að endurtaka þig.
  • Sýndu almenna kurteisi og virðingu og þá ertu í góðum málum.

Talaðu íslensku

Döff fólk elst upp í tvítyngisumhverfi með íslensku táknmáli og íslensku. Margir hafa fallið í þá gryfju að byrja að tala ensku þegar uppgötvast að viðmælandinn talar ekki íslensku. 

Skrifaðu niður á blað

Oftast er blað og penni eða snjallsímar hin fullkomnu verkfæri ef þú kannt ekki táknmál en þarft og vilt hafa samskipti. Þú getur skrifað það sem þú vilt koma á framfæri og sýnt viðmælandanum. Smáskilaboð í símum eru einnig notuð mikið til samskipta.

Lærðu táknmál

Áskjósanlegasti kosturinn til samskipta við döff fólk sem kýs að nota táknmál er alltaf íslenskt táknmál. Íslenskt táknmál er fullgilt mál, með eigin málfræði og orðaforða rétt eins önnur tungumál.  Táknmál eru mismunandi milli landa enda lifandi mál sem þróast og breytast. Táknmál eru fremur svæðisbundin og fylgja ekki endilega raddmáli hvers lands.