• Elsa G. Björnsdóttir
    Elsa G. Björnsdóttir

Opið bréf til menntamálaráðherra

Höfundur: Elsa G. Björnsdóttir

16. okt. 2014 Greinasafn

Kæri Illugi menntamálaráðherra,

Það kostar mig sem betur fer ekki tíu þúsund krónur að skrifa þér nokkur orð eins og einn klukkutími hjá táknmálstúlki kostar ef ég ákvæði að hringja í þig núna.

Í gær var gefið í skyn að þér fyndist það eiga að forgangsraða úr félagslega sjóðnum sem er nýttur í að borga táknmálstúlkun fyrir heyrnarlausa í daglegu lífi. Aðstoðarmaður þinn lét þau orð falla við fréttamann sem síðan lét þetta flakka í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld.

Heyrnarlausir hér á Íslandi eða döff eins og við kjósum að kalla okkur notum þennan sjóð til að geta verið virkir þjóðfélagsþegnar hér á landi. Í stuttu máli er þessi sjóður nýttur til að eiga samskipti þannig að öðrum finnist við ekki vera byrði.

Vinnuveitendur okkar eiga ekki að þurfa að hugsa þá hugsun: „æi betra að ráða einhvern ódýrari í rekstri.“ Foreldrafélögum á ekki að finnast verra að hafa döff foreldri í samstarfi. Íþróttafélögum á ekki að finnast döff ómögulegir í félagið sitt. Húsfélögum á ekki að bera skylda til að borga túlk á húsfundi. Þjálfurum, kennurum á námskeiðum og öllum öðrum sem við döff umgöngumst á ekki að finnast við vera til trafala.

Virkt döff fólk sem stundar vinnu á almennum markaði þarf að sækja námskeið á sínum vinnustað. Sumir í skyndhjálp á meðan aðrir sem vinna á hættulegum vinnustað þurfa á öryggisnámskeið. Sum námskeiðin hjá sumum vinnuveitendum eru bara á haustin. Sumir vinnustaðir eru með starfsþróunarnámskeið svo þeim sem missa af öllum þessum námskeiðum er í raun mismunað.

Þér finnst kannski sniðugt að forgangsraða þeim peningum sem veitt er í þennan tiltekna sjóð einu sinni á ári. Mér finnst það hins vegar ekkert sniðugt. Ég ætla að nefna örfá dæmi í viðbót við vinnumarkaðinn svona ef þú skyldir vilja lesa aðeins lengra, kæri Illugi.

Á gamla heyrnarlausa fólkið sem býr á elliheimili ekki lengur að eiga rétt á því að það komi túlkur tvisvar í viku til þeirra til að túlka fréttir? Er það kannski ekki mikilvægt? Á þetta gamla fólk sem búið er að lifa við skerðingu á samskiptum nánast alla sína ævi að sætta sig við að síðustu ævidagana fái það ekki heldur neins konar tengingu við landið sem þau gáfu allt sitt, þrátt fyrir gríðarlega einangrun og mismunun á öllum sviðum?

Eiga döff íbúar í fjölbýlishúsum að vera þvingaðir til þess að sinna ekki lögbundnum skyldum með því að geta ekki tekið þátt í starfsemi húsfélagsins? Er það bara í lagi? Engum finnst hvort eð er gaman á húsfundum? Eiga þeir húseigendur sem hafa lekt þak bara að hafa það áfram?

Er alveg eðlilegt að loka fyrir símatúlkun í gegnum skype sem notuð er til að hringja og panta og afpanta tíma hjá læknum, í foreldraviðtöl, við lögfræðinga og allt milli himins og jarðar af því einhvers staðar þarf að skera niður?

Hver í ósköpunum á að ákveða hver fær túlk og hver ekki? Hvað telur þú mikilvægt í þessari forgangsröðun? Eða er þér kannski alveg sama? Svo lengi sem þú þarft ekki að veita meiri pening í þennan sjóð?

Ég er nokkuð viss um að forgangsröðun kallar á að skoða þurfi hvort ekki sé verið að brjóta lög og mismuna fólki eftir því hvort tungumálið það talar, en í 13. gr. laga númer 61/2011 um íslenska tungu og íslenskt táknmál stendur meðal annars um skyldur ríkis og sveitarfélaga:

Íslenskt táknmál er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna á milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.

Samskipti eru grundvöllur þess að fólk geti sinnt skyldu sinni í samfélaginu hvort sem það er foreldrar, íþróttamenn, vinnandi fólk eða eitthvað annað.

Kæri Illugi, getur þú tjáð þig um þetta mál aðeins nánar? Ég vil trúa því að aðstoðarmaður þinn hafi verið að ruglast þegar hann sagði þetta í gær. Ég vil ekki trúa því að þú haldir að samskipti séu forréttindi þeirra sem heyra.

Greinin birtist í Kvennablaðinu 16. október 2014