• Hvað er að frétta hjá Félagi heyrnarlausra?

Hvað er að frétta hjá Félagi heyrnarlausra?

11. sep. 2018

video
Félagið hefur átt fundi með lögfræðingum vegna kæru á úrskurði vegna þjónustu fyrir döff eldri borgara og er búið að senda kæru, við bíðum nú niðurstaðna í samvinnu við lögfræðistofuna. Félagið hefur látið lögfræðinga fá öll efnisgögn vegna umsóknar og úrskurðar á myndsímaþjónustu, hafa lögfræðingar komið með tillögu í samvinnu við okkur sem við munum upplýsa ykkur þegar að því kemur og ásamt þessu eru fleiri mál í vinnslu vegna réttinda.

Félagið sendi tvö bréf á félags- og jafnréttismálaráðherra vegna túlkunnar í atvinnulífi og verður fundur vegna þess í vikunni.

Í vor sendi félagið bréf til Mennta-og menningarmálaráðherra ásamt skóla- og frístundasvið Reykjavíkur vegna umfjöllunnar um nemendur sem reiða sig á ÍTM sem fengu ekki skólavist á þeirra forsendum. Bréf hefur borist frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu að til stendur að hefja úttekt og í úttektinni verður lögð áhersla á að skoða móðurmálskennslu og aðgengi að námsefni til þess náms, námsmat í íslensku táknmáli og öðru námi, félagslegt umhverfi barnanna í skólanum og möguleikar þeirra til að nýta táknmál til tjáskipta ásamt skoðun á önnur skyldu nám. Félagið mun fylgja því eftir að úttektin verði framkvæmd af aðilum með þekkingu á ÍTM og menningu döff. 

Félagið hefur átt í samstarfi við 112 að þróa app og er stefnan tekin að kynna það á degi döff í lok september.

ÖBÍ hefur sett saman hóp sem mun vinna saman að því að gera sína skuggaskýrslu, félagið á fulltrúa í því og mikilvægt að við komum okkar sjónarmiðum fram. Verður þessi skýrsla kynnt 2019 í Genf.

Félagið hefur tekið þátt í Snorri Döff, munu tveir fulltrúar fara fyrstu ferð á slóðir vesturfara í Norður Ameríku og kynna sér döff skóla, döff hagsmunasamtök og fleira. Opinn félagsfundur verður í nóvember þar sem verkefnið verður kynnt og stefnan er að bjóða tveim fulltrúum að fara á þessar slóðir 2020.

DAC2019, undirbúningsvinna vegna ráðstefnunnar DAC 2019 er í fullu gangi enda styttist óðum í ráðstefnuna sem verður dagana 10-13.maí 2019. Ráðstefnan er vettvangur fyrir fólk í háskólasamfélaginu til að miðla og skiptast á þekkingu, taka þátt í vinnustofum og mynda tenglsanet. 

Í stefnu FH er varðar framtíðina munum við vinna að bættum hagsmunum og aðgengi döff er snúa að heilbrigðismálum. Í framhaldi af þeirri vinnu mun HR kynna niðurstöður geðheilbrigðikönnunar sem gerð var meðal döff í fyrravetur. Að auki stefna fulltrúar starfsfólks og formaður til Norðurlandanna að kynna sér starfsemi þjónustukjarna fyrir döff í Noregi, Signo og CFD í Danmörku.

Þá hefur félagið fylgst með tillögum íbúðalánasjóðs sem hvetja til þess að hagsmunafélög skoði rekstur og utanumhald leiguíbúða fyrir sína félagsmenn skv reglum sem hagsmunasamtökum er sett við rekstur slíkra íbúða.