Hvað er táknmál?

Táknmál byggist á táknum og ákveðnar málfræðireglur gilda um það hvernig þeim skuli raðað saman.

Táknmál er talað af fólki víða um heim. Það er mál þeirra sem ekkert eða illa heyra og geta því ekki haft samskipti með hljóðum. Táknmál verður til meðal döff, alls staðar þar sem döff fólk er saman komið. Það er manninum í blóð borið að eiga samskipti, tjá hugsanir sínar, reynslu og væntingar. Sú goðsögn að táknmál sé mál sem hafi verið búið til á ekki við rök að styðjast. Táknmál er sjálfsprottiðsem verður til vegna þeirrar þarfar mannsins að tjá sig og eiga samskipti við aðra. Það er hægt að grínast, tjá tilfinningar og tala um hvað sem er á táknmáli. Táknmál þróast og breytast á milli kynslóða, til er unglingamál, barnamál o.s.frv. Málfræði táknmála og reglur hafa verið rannsakaðar af málvísindamönnum á sama hátt og önnur mál.

Táknmál er ekki alþjóðlegt

Algengasta spurning þeirra sem ekki kunna táknmál er hvort táknmál sé ekki alþjóðlegt. Þegar svarið er nei verður næsta spurning gjarnan: Af hverju ekki? Væri það ekki miklu auðveldara? Vissulega væri auðveldara ef táknmál væri alþjóðlegt, þá þyrftu málnotendur ekki að hafa áhyggjur af landamærum og þjóðerni, allir gætu talað saman. En það væri líka miklu auðveldara ef í heiminum væri bara eitt alþjóðlegt raddmál, ekki satt? Þá þyrfti hvorki að eyða tíma né peningum í tungumálakennslu, það þyrfti ekki túlka og allir alls staðar í heiminum gætu talað saman án misskilnings. En þetta er bara ekki svona. Og það er einmitt eðli mála sem gerir það að verkum að þetta væri aldrei mögulegt. Lítum bara í eigin barm. Fyrir ekki svo mörgum árum töluðum við Íslendingar og allar aðrar Norðurlandaþjóðir (nema Finnar) sama tungumálið, norrænu. Í dag tölum við a.m.k. 5 ólík tungumál fyrir utan allar mállýskurnar sem eru til. Táknmál eru alveg eins og raddmál, þau þróast og breytast í takt við tíma og aðstæður. Gestuno er alþjóðleg táknkerfi sem búið var til líkt og Esperanto. Þessi mál eiga það sameiginlegt að vera tilbúin mál sem ekki hafa náð þeim tilgangi sem þeim var ætlaður í upphafi, að vera alþjóðlegt samskiptatæki. Ein ástæðan er sú að mál þarf að lifa og þróast í samfélagi, mennirnir skapa málið ómeðvitað og það er hluti af menningu þeirra. Að sjálfsögðu eru mörg táknmál lík innbyrðis alveg eins og raddmál en önnur táknmál eru það ólík að það þarf að túlka á milli þeirra. Þar sem táknmál er numið með sjóninni er það miklu leikrænna en raddmál og látbragð hjálpar oft fólki sem talar ólík táknmál að skilja hvert annað. Vegna mállegrar einangrunar heyrnarlausra eru þeir færari en flestir að aðlagast erfiðum aðstæðum hvað varðar mál, að skilja og gera sig skiljanlega.

Táknmál er ekki íslenska með táknum

Önnur goðsögn um táknmál er að þau séu raddmál töluð með höndum, t.d. að íslenska táknmálið sé táknuð íslenska, hafi sömu orðaröð, beygingar o.s.frv. Það er heldur ekki rétt. Táknmál hafa eigin formgerð og málfræði sem eru ólíkar í raddmálum. Í táknmáli finnum við ekki beygingarendingar, greini og föll á sama hátt og í raddmálum. Táknmál hafa annars konar málfræði sem er engu minna áhugaverð og mikilvæg en málfræði raddmála. Auðvitað hefur íslenska áhrif á íslenska táknmálið og reyndar táknmálið á íslenskuna en bara hjá miklu minni hópi. Það gerist á sama hátt og t.d. enska hefur stundum áhrif á íslensku. Mál sem eru í mikilli snertingu hvort við annað eiga það til að blandast. Algengt er, þegar heyrandi fólk lærir táknmál, að það noti að minnsta kosti í upphafi orðaröð úr móðurmáli sínu. Þá er talað um táknað raddmál eða táknaða íslensku hér á landi, tákn og svipbrigði eru frá táknmáli en málfræðin, til dæmis orðaröðin er frá íslensku. Í augum táknmálstalandi fólks er þetta málform órökrétt og erfitt að skilja enda eru reglur táknmálsins ekki virtar.

Einnig þekkist að nota íslensku með stuðningstáknum. Þá er töluð íslenska en tákn notuð til stuðnings í þeim tilgangi að gera döff einstaklingur mögulegt að fylgjast með. Þrátt fyrri góðan vilja er þessi aðferð er illskiljanleg fyrir þá sem ekki heyra. Táknanotkunin verður tilviljanakennd og ófullkomin. Tákn og orð geta janfvel haft andstæða merkingu og öll svipbrigði og réttar munnhreyfingar, sem eru hluti af málfræði táknmálsins, vantar svo eithvað sé nefnt. 

Enn annar tjáningarmáti er tákn með tali. Tákn með tali er mest notað í samskiptum við heyrandi fólk sem á við mál- og talörðugleika að stríða. Þetta er töluð íslenska með íslenskri málfræði en lykilorð hverrar setningar eru táknuð. Markmiðið með notkun táknanna er að styrkja skilninginn og örva málþróunina.

Tekin af Signwiki.is