Spurt og svarað

Hér getur þú fundið svör við algengum spurningum um íslenskt táknmál. Ekki hika við að hafa samband við okkur með fyrirspurnir. 

Hvenær var íslenskt táknmál viðurkennt á Íslandi?

Þann 7. júní 2011 var íslenskt táknmál viðurkennt á Alþingi sem fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra.

Eru til lög um íslenskt táknmál á Íslandi?

Já, lög nr. 61/2011 má finna um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls á heimasíðu Alþingis. 

Er táknmál alþjóðlegt?

Nei. Margir halda að táknmál sé alþjóðlegt en svo er ekki. Hvert land hefur sitt eigið táknmál sem þróast og breytist rétt eins og talmál.  Það er jafnvel munur á mállýskum innan landa. Döff frá mismunandi löndum geta skilið hvern annan nokkuð vel þar sem margt er áþekkt með málunum. Til dæmis eru svipuð tákn fyrir marga áþreifanlega hluti eins og bíl og hús. Í sumum löndum eru jafnvel tvö táknmál eins og t.d. í Finnlandi. Þar er bæði finnskt og finnskt-sænskt táknmál.

Döff fólk er vant að eiga í samskiptum við fólk sem talar ekki sama mál og það. Þegar döff fólk hittir annað döff fólk sem talar annað táknmál verða samskipti ekki erfið. Það er m.a. vegna þess að táknmál eru sjónræn mál en einnig vegna þess að döff fólk leggur sig alla jafna fram um að skilja viðmælanda sinn. Þá er menning döff einnig mikilvægur þáttur í því að döff fólk getur átt í samskiptum hvert við annað.

Hvernig er íslenskt táknmál uppbyggt?

Í stuttu máli er íslenskt táknmál tungumál. Það er sjálf sprottið mál með eigin málfræði og uppbygging þess er að mestu óháð íslensku.  Tákn eru myndræn, þ.e. vísbending um raunverulegt útlit og bíll og borð, en það eru líka handahófskennd tákn, þ.e. tákn sem hafa engin sýnileg tengsl við þann hlut þau standa fyrir.

Táknum í íslenska táknmálinu fylgja munnhreyfingar. Sumar þeirra líkjast orðum úr íslensku en aðrar ekki. Dæmi um slíka munnhreyfingu er með sögninni „að vera" - „bidd". Táknið er að öllum líkindum fengið að láni úr dönsku táknmáli og hefur síðan þróast í íslensku táknmáli (ÍTM). Í íslenska táknmálinu eru einnig allmörg tákn sem hafa víðtæka merkingu, þau eru í daglegu lífi kölluð döff tákn. Þessi tákn eru stök tákn í ÍTM en þegar þau eru þýdd á íslensku mynda þau heilar setningar. Margt í málfræði íslenska táknmálsins birtist í andliti þess sem talar. Svipbrigði eru því gríðarlega mikilvægur hluti íslenska táknmálsins.

Nánari upplýsingar má nálgast á táknmálsnámskeiðum hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra eða á SignWiki.

Er íslenskt táknmál með sömu málfræði og íslenska?

Nei. Íslenskt táknmál er sjálfstætt tungumál með eigin málfræði. Íslenskt táknmál á það sameiginlegt með táknmálum annarra landa að standa sjálfstætt með eigin uppbyggingu og málfræði.

Íslenskt táknmál er sjálfsprottið mál með eigin málfræði en eins og önnur mál hefur íslenska táknmálið orðið fyrir áhrifum frá nágrannamáli sínu, íslensku. Áhrif íslensku á málfræði íslenska táknmálsins eru mismikil meðal málhafa. Málfræði íslenska táknmálsins á einnig margt sameiginlegt með málfræði annarra táknmála.

Er munur á íslensku táknmál og tákn með tali?

Íslenskt táknmál (ÍTM) er fullgilt tungumál með eigin málfræði og setningafræði.

Tákn með tali (TMT) er tjáskiptaaðferð sem upphaflega var þróuð fyrir nemendur með mál- og þroskaröskun. Aðferðin byggist á einföldum hreyfitáknum sem notuð eru á markvissan hátt til stuðnings töluðu máli. Áhersla er lögð á að tákna lykilorð hverrar setningar. TMT nýtist fólki á öllum aldri sem hefur tal- og málörðugleika af öðrum orsökum en vegna heyrnarleysis.

Hvernig læra döff börn íslenskt táknmál?

Ef döff börn eiga döff foreldra er máltaka þeirra eins og heyrandi barna, þ.e. döff börn læra íslenskt táknmál eins og heyrandi börn læra íslensku. Ef heyrandi foreldrar eignast döff barn geta foreldrar strax átt í sjónrænum samskiptum við barnið sitt. T.d. með því að nota stök tákn og látbragð. Síðan geta foreldrar lært íslenskt táknmál og þannig stuðlað að árangursríkri máltöku barnsins. Þannig kynnist barnið menningarheimi döff og getur þá síðar á lífsleiðinni nýtt sér þjónustu táknmálstúlka. Það er mikilvægt að barnið sé í táknmálsumhverfin til að þróast málþroska á sama hátt og heyrandi barn. 

Í hvaða aldri byrjar barn að nota íslenskt táknmál?

Hægt er að tala táknmál við barnið strax eftir fæðingu. Barnið byrjar að babbla á táknmáli nokkurra mánaða og getur síðan farið að mynda tákn. 

Er til tákn fyrir hvert orð í íslensku?

Já og nei. Það er hægt að segja allt á íslensku táknmáli en það eru kannski ekki til tákn fyrir hvert orð í íslensku. Ástæðan er sú að málin eru ólík að uppbyggingu. Hægt er að skoða fjölmörg tákn inn á SignWiki síðunni og bætast þar við fleiri tákn með tímanum.

Hvernig verða ný tákn til og hvernig fá þau fastan sess í málinu?

Heyrnarlausir mynda ný tákn sem eru byggð á nýjum fyrirbærum í samfélaginu. Táknið öðlast fastan sess þegar það er notað oft. Táknin eru þá byggð upp á sama hátt og önnur sem til eru fyrir í málinu. 

Til hvers er fingrastafróf?

Fingrastafrófið er notað til að stafa orð úr raddmáli, t.d. sérnöfn eins og staðarheiti eða götunöfn. Þá nota döff það til að stafa nafn sitt. Fólk sem kann ekki táknmál getur notað fingrastafrófið til að hafa samskipti við döff á einfaldan hátt. Stafrófið er þá notað til að stafa einföld orð eða setningar. Þú skalt ekki hika við að nota fingrastafrófið en annars að tala rólega og skýrt, skrifa, teikna eða benda. 

Get ég haft samskipti við döff fólk með því að nota bara íslenskt fingrastafróf?

Nei, það er ekki ráðlagt. Það væri það svipað og að eiga samskipti við heyrandi og stafa öll orðin í samtalinu sem sé illskiljanlegt. Það getur þó dugað ef þú kannt ekki táknmál en verður að koma skilaboðum áleiðis í tímaþröng.

Hvar get ég lært íslenskt táknmál?

Það eru nokkrir staðir sem þú getur lært íslenskt táknmál:

  • Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra býður upp á táknmálsnámskeið fyrir einstaklinga, hópa og foreldra sem eignast döff börn.
  • Menntaskólinn við Hamrahlíð og Kvennaskólinn bjóða upp á táknmálsnámskeið í vali fyrir framhaldsskólanema. 
  • Háskóli Íslands býður upp á táknmálsfræði fyrir þá sem vilja læra táknmál eða táknmálstúlkun.
  • SignWiki er aðgangur að íslenskri táknmálsorðabók, kennsluefni, æfingum og fræðsluefni.

Hvað tekur langan tíma að læra íslenskt táknmál?

Það tekur ekki lengri eða skemmri tíma að læra íslenskt táknmál en önnur tungumál. Það geta allir lært það en færni fólks fer eftir þeirri tungumálahæfni sem býr í hverri manneskju. Það getur tekur skamman tíma að læra að tjá einfaldar setningar. 

Hafa foreldrar döff barna rétt á að fá táknmálsnámskeið?

Já. Samskiptamiðstöð stendur fyrir reglulegum táknmálsnámskeiðum sem eru opin fjölskyldum og öðrum aðstandendum döff barna. Einnig býðst fjölskyldum úti á landi að fá námskeið og ráðgjöf í heimabæ, eftir samkomulagi við stofnunina. Allar nánari upplýsingar eru veittar á Samskiptamiðstöð eða í síma 562 7702.