Menntunarsjóður

Skipulagsskrá fyrir menntunarsjóð félags heyrnarlausra nr. 257/1999.

1. gr. 
Sjóðurinn heitir Menntunarsjóður Félags heyrnarlausra. Hann er stofnaður af Félagi heyrnarlausra með fjárframlagi Menntamálaráðuneytis að upphæð kr. 200.000 ásamt framlagi ýmissa fyrirtækja að upphæð kr. 425.000. 

2. gr. 
Stofnfé sjóðsins er kr. 625.000. Stofnfé má ekki skerða, og fyrstu fimm árin skal helmingur vaxta og verðbóta lagður við höfuðstólinn. Að auki tekur sjóðurinn við framlögum; gjöfum og áheitum til eflingar starfsemi hans.  

3. gr.   
Tilgangur sjóðsins er að stuðla að menntun heyrnarlausra, daufblindra og heyrnarskertra, formlegrar og óformlegrar og einnig starfsþjálfunar. Úthlutun úr sjóðnum skal vera tvisvar á ári, 1. apríl og 1. október. Stjórn sjóðsins ber að auglýsa umsóknarfrest um styrki í síðasta lagi einum mánuði fyrir auglýsta úthlutun og skulu umsóknir hafa borist sjóðsstjórn fyrir 1. apríl og 1. október. Skilyrði fyrir styrkveitingu úr sjóðnum er að viðkomandi sé fullgildur félagsmaður í Félagi heyrnarlausra. 

4. gr. 
Stjórn sjóðsins skipa þrír menn. Einn þeirra skal tilnefndur til tveggja ára í senn af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Tveir stjórnarmanna skulu kosnir til tveggja ára í senn á aðalfundi Félags heyrnarlausra og skulu þeir vera fullgildir félagsmenn í Félagi heyrnarlausra. Stjórnin tekur allar ákvarðanir varðandi styrki og ráðstöfun tekna. 

5. gr.   
Félag heyrnarlausra annast varðveislu sjóðsins, reikningshald og löggilta endurskoðun á reikningum sjóðsins. 

6. gr.  
Skipulagsskrá þessari verður ekki breytt nema a. m.k. tveir stjórnarmenn samþykki breytinguna. 

7. gr. 
Verði sjóðurinn lagður niður skulu eignir hans renna til svipaðrar starfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar sjóðsins. 

8. gr. 
Leita skal staðfestingar dómsmálaráðuneytisins á skipulagsskrá þessari. Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988. 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 7. apríl 1999.

F. h. r.

Björn Friðfinnsson.

___________________

Fanney Óskarsdóttir.  

Umsókn um styrk úr Menntunarsjóði