Children of Deaf Adults

Hefur þú velt fyrir þér hvað CODA börn eru?

CODA er skammstöfun fyrir Children Of Deaf Adults, þ.e.a.s börn heyrnarlausra foreldra. Rannsóknir hafa sýnt að 85% - 90% barna sem fæðast heyrnarlausum foreldrum eru heyrandi og er það mjög hátt hlutfall. CODA börn búa við sérstakar aðstæður þar sem þau tilheyra samfélagi og menningu heyrnarlausra þó svo þau heyri (Children of Deaf Adults Inc, 2012b). Þegar skoða á málþroska og máltöku CODA barna ber að hafa í huga að margir utanaðkomandi þættir geta haft áhrif á máltöku þeirra og málþroska. CODA börn alast upp í tveimur ólíkum menningarheimum og þess ber að geta að íslenskt táknmál og íslenskt talmál eru mjög ólík í allri uppbyggingu og hugsun. Máltaka þessara barna er því gjörólík hefðbundnum aðstæðum annarra barna. Þegar unnið er með málþroska CODA barna er mikilvægt að hafa í huga hvaða hegðun barnsins má rekja til þess að barnið sé að skipta úr sjónrænu umhverfi yfir í hljóðrænt umhverfi (Jónína Konráðsdóttir o.fl, 2004; Valdís Jónsdóttir og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, 2009). CODA börn tilheyra samfélagi heyrandi líkt og önnur börn. Þrátt fyrir að CODA börn séu alla jafna með góða heyrn tilheyra þau einnig samfélagi heyrnarlausra. Þau læra táknmál af foreldrum sínum auk þess sem þau læra um menningu og sögu heyrnarlausra. CODA börn eiga því ekki aðeins tvö tungumál heldur alast þau upp og tilheyra tveimur ólíkum menningarheimum, líkt og önnur tvítyngd börn.  

Leikskólinn Sólborg og Félag heyrnarlausra hafa sameiginlega boðið upp á grunn- og leikskólaheimsóknir vegna CODA barna og verið með  fræðslu fyrir kennara og starfsfólk. Félagið bíður auk þess ráðgjafaviðtöl fyrir CODA ungmenni. Þau geta einnig leitað til sálfræðings félagsins og fjölskylduráðgjafa.

Félag heyrnarlausra hefur boðið CODA börnum aðgengi að neyðarsíma sem þau geta hringt í á kvöldin og um helgar.

Þá hefur félagið einnig verið í sambandi við námsráðgjafa í framhaldskólum vegna CODA ungmenna sem óskað hafa eftir aðstoð.

Sjá nánar: