Siðareglur Félags heyrnarlausra
1. gr.
Markmið
Markmiðið með siðareglum þessum er að skilgreina það viðmót í samskiptum sem fulltrúum Félags heyrnarlausra ber að virða. Með fulltrúum Félags heyrnarlausra er átt við fulltrúa í stjórn, stjórnendur, starfsfólk skrifstofu, fulltrúa í hópum og nefndum á vegum Félags heyrnarlausra, auk undirverktaka sem taka að sér hvers kyns verkefni fyrir hönd Félags heyrnarlausra sem félagið hefur stjórnunarlega ábyrgð á og koma þannig fram í nafni félagsins.
Siðareglum þessum er ætlað að auka gæði starfs, samskipta og umræðu innan félagsins. Þá er þeim ætlað að veita þeim sem koma að starfi Félags heyrnarlausra almennar leiðbeiningar og vera þeim hvatning enda eru þær hluti af þeim anda sem á að vera ríkjandi í félaginu. Siðareglurnar eru ekki tæmandi lýsing á góðum starfsháttum heldur ber að líta á þær sem leiðbeinandi og skulu fulltrúar Félags heyrnarlausra beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður.
2. gr.
Lög félagsins og reglur
Við gætum þess í störfum okkar að fylgja stefnu, lögum, reglum og samþykktum Félags heyrnarlausra. Við gætum hagsmuna félagsins og orðspors þess og setjum hagsmuni félagsins ofar sérhagsmunum.
Öllum sem starfa í nafni eða í þágu Félags heyrnarlausra ber að undirrita yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér og fari eftir lögum og reglum sem Félag heyrnarlausra setur fram hverju sinni. Þá ber þeim að afhenda framkvæmdastjóra og/eða formanni félagsins sakavottorð.
3. gr.
Ábyrgð
Við tökum alvarlega þá ábyrgð sem við berum gagnvart félagsmönnum og hagsmunamálum félagsins.
Við gegnum störfum okkar af alúð og samviskusemi, gætum kurteisi, lipurðar og réttsýni og veitum þeim sem til okkar leita aðstoð og leiðbeiningar til samræmis við eftirfarandi:
- Við sýnum hvert öðru ávallt kurteisi og virðingu í samskiptum, jafnt í meðbyr sem mótbyr.
- Við berum virðingu fyrir margbreytileika fólks og komum fram við alla sem jafningja óháð félagslegri stöðu, kynþætti, þjóðernisuppruna, fötlun í víðum skilningi, trú, lífsskoðun, aldri, útliti, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins.
- Við forðumst hvers konar mismunun í framkomu, ræðu og riti.
- Við virðum rétt hvors annars til ólíkra skoðana, leggjum áherslu á málefnalega umræðu og höfum lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri.
- Við stöndum vörð um anda og gildi Félags heyrnarlausra og leggjum okkar af mörkum til að hvorutveggja lifi áfram meðal félagsmanna.
4. gr.
Einelti, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi
Einelti, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi er ekki liðið. Fulltrúar Félags heyrnarlausra skulu hvorki samþykkja né sýna ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði. Við erum ávallt á varðbergi og okkur ber að bregðast við ef við verðum vitni að slíkri háttsemi.
Fulltrúum Félags heyrnarlausra er skylt að fræðast um aðgerðir varðandi forvarnir, misnotkun og ofbeldi.
Þeir sem hafa verið kærðir til lögreglu fyrir kynferðisbrot skulu ekki vinna innan Félags heyrnarlausra, í nafni þess eða í þágu félagsins, þó svo þeir hafi ekki verið sakfelldir með dómi.
Hafi stjórn Félags heyrnarlausra rökstuddan grun um að tiltekinn einstaklingur hafi sýnt af sér kynferðislega áreitni eða aðra ótilhlýðilega háttsemi gagnvart félagsmanni eða öðrum skal hann ekki starfa innan Félags heyrnarlausra, hvorki í nafni þess né í þágu félagsins, óháð því hvort sekt viðkomandi hafi verið sönnuð fyrir dómi.
Berist fulltrúa Félags heyrnarlausra tilkynning eða vísbending um kynferðisbrot eða önnur lögbrot, hverju nafni sem þau nefnast, ber viðkomandi að tilkynna um slíkt til lögreglu og gera framkvæmdastjóra, formanni og stjórn félagsins viðvart.
Fulltrúar Félags heyrnarlausra skulu aldrei taka að sér akstur barna eða unglinga í nafni félagsins eða í þágu þess, nema með skriflegu leyfi foreldra eða forráðamanna.
Fulltrúar Félags heyrnarlausra skulu í öllu barna- og unglingastarfi á vegum félagsins forðast þá aðstöðu að vera einir með barni eða unglingi.
5. gr.
Ráðdeild
Við virðum fjárhagsáætlanir og aðhöfumst ekkert sem felur í sér misnotkun á eignum eða fjármunum félagsins.
Við misnotum ekki stöðu okkar hjá félaginu til eigin hagsbóta á kostnað félagsins.
6. gr.
Gjafir og fríðindi
Við þiggjum ekki gjafir eða önnur fríðindi sem túlka má sem persónulega þóknun fyrir tiltekinn greiða eða ívilnun.
7. gr.
Samskipti við fjölmiðla og framkoma á opinberum vettvangi
Að jafnaði kemur formaður Félags heyrnarlausra fram fyrir hönd félagsins í fjölmiðlum nema annað sé ákveðið. Í samskiptum við fjölmiðla og á opinberum vettvangi högum við málflutningi okkar í samræmi við stefnu og hugmyndafræði Félags heyrnarlausra. Þá veitum við réttar upplýsingar, fullyrðum ekki meira en fyrirliggjandi upplýsingar gefa tilefni til og gætum trúnaðar.
8. gr.
Trúnaður
Okkur ber að gæta þagmælsku og fyllsta trúnaðar um málefni sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og trúnaður á að ríkja um eftir eðli máls eða samkvæmt lögum. Þagnar- og trúnaðarskylda helst eftir starfslok. Þagnarskylda á þó aldrei við í þeim tilvikum sem greinir um í 4. gr. reglna þessara.
9. gr.
Miðlun siðareglna og endurskoðun
Formaður og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á að kynna siðareglur Félags heyrnarlausra fyrir nýjum fulltrúum félagsins. Siðareglurnar skulu birtar á heimasíðu Félags heyrnarlausra, www.deaf.is.
Siðareglurnar skulu teknar til umræðu í stjórn eftir árlegan aðalfund og endurskoðaðar eftir þörfum.
10. gr.
Brot á reglum þessum
Gerist fulltrúi Félags heyrnarlausra brotlegur við reglur þessar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.
Þannig samþykkt í Reykjavík 23. nóvember 2021 og koma siðareglur þessar í stað eldri siðareglna félagsins.
Reykjavík, 23. nóvember 2021
Í stjórn Félags heyrnarlausra:
Heiðdís Eiríksdóttir, Hjördís Anna Haraldsdóttir, Þórður Kristjánsson, Eyrún Ólafsdóttir, Uldis Ozols