Döffsjóður
REGLUR
Styrktarsjóðs Döff
1. gr.
Heiti, varnarþing og heimili
Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Döff („sjóðurinn“). Sjóðurinn var stofnaður þann 1. júní 2022 af Félagi heyrnarlausra með fjárframlagi að fjárhæð 3.000.000 króna.
Heimili og varnarþing sjóðsins er á starfstöð Félags heyrnarlausra, Þverholti 14, Reykjavík.
2. gr.
Tilgangur
Tilgangur Styrktarsjóðs Döff er að efla þekkingu á táknmálinu og hagsmunum döff með því að styrkja þátttöku á döff menningarviðburðum, skipulögðum íþróttaviðburðum, fyrirlestrum, ráðstefnum, æskulýðsmótum, mótum aldraðra og öðrum viðburðum er efla menningu og samskipti heyrnarlausra og kunna að nýtast einstaklingum eða félaginu í starfi. Til viðbótar því veitir sjóðurinn sumarhúsastyrki.
Tilgangi sínum hyggst sjóðurinn ná með því að hafa gagnsæjar og skýrar reglur þannig að gætt sé jafnræðis umsækjenda og um leið skilvirkni og hagkvæmni í rekstri sjóðsins.
3. gr.
Fjármál
Sjóðurinn tekur við framlögum; gjöfum og áheitum.
Allur kostnaður af starfsemi Styrktarsjóðs Döff er greiddur af fjármunum hans.
Félag heyrnarlausra hefur umsjón með fjármunum sjóðsins og ávöxtun hans, annast daglega afgreiðslu og færslu bókhalds sjóðsins. Ákvörðun um úthlutun úr sjóðnum skal tekin af stjórn sjóðsins til samræmis við úthlutunarreglur.
Sjóðurinn verður endurskoðaður. Ef þjóðfélagslegar aðstæður leyfa mun Félag heyrnarlausra leggja sjóðnum til nýtt stofnfé að þremur árum liðnum, á aðalfundi félagsins í maí 2025.
4. gr.
Stjórn sjóðsins
Stjórn Styrktarsjóðs Döff er skipuð af öllum kjörnum stjórnarmönnum Félags heyrnarlausra.
Stjórn skiptir sjálf með sér verkum.
Stjórn tekur ákvarðanir um úthlutun styrkja og ráðstöfun tekna sjóðsins í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins, sbr. 5. gr.
Um hæfi stjórnarmanna til meðferðar einstakra mála fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á hverjum tíma. Reynist stjórnarmaður vanhæfur til meðferðar einstaks máls skal stjórn Félags heyrnarlausra tilnefna staðgengil hans til meðferðar málsins.
Stjórnarmenn eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu um allt sem þeir komast að í störfum sínum hjá stjórninni. Trúnaðar- og þagnarskyldan helst þó stjórnarmaður hætti í stjórninni.
Stjórnarsamþykkt er lögleg ef a.m.k. tveir stjórnarmanna greiða henni atkvæði. Sjóðstjórn ber að rökstyðja niðurstöðu sína, ef eftir því er kallað af hálfu umsækjanda. Niðurstaða stjórnar er endanleg afgreiðsla máls.
Stjórnarfundir skulu haldnir svo oft sem þurfa þykir.
Stjórn skal halda fundargerðarbók þar sem allar ákvarðanir eru tilgreindar.
5. gr.
Úthlutunarreglur
Sjóðsstjórn setur almennar úthlutunarreglur um styrkveitingar úr Styrktarsjóði Döff. Úthlutunarreglur skulu endurskoðaðar reglulega og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Úthlutunarreglur Styrktarsjóðs Döff skulu vera aðgengilegar á skrifstofu Félags heyrnarlausra og birtar á heimasíðu félagsins, www.deaf.is.
6. gr.
Um afgreiðslu umsókna og úthlutun styrkja
Sækja þarf um styrki til Styrktarsjóðs Döff á sérstöku umsóknareyðublaði sem er aðgengilegt á skrifstofu Félags heyrnarlausra og á heimasíðu félagsins, www.deaf.is.
Nauðsynleg gögn skulu fylgja umsókn. Stjórn sjóðsins getur óskað frekari gagna til upplýsinga hjá umsækjanda, telji hún þörf á því.
Úthlutun styrkja fer fram tvisvar sinnum á ári, 1. apríl og 1. október og er fyrsta úthlutun 1. október 2022. Stjórn sjóðsins ber að auglýsa umsóknarfrest um styrki 1. mars og 1. september ár hvert.
Auglýsingar skulu birtar á heimasíðu Félags heyrnarlausra, www.deaf.is, og eftir atvikum á samfélagsmiðlum hvers konar eða með öðrum sannanlegum hætti.
7. gr.
Breytingar á reglum og slit sjóðsins
Reglum þessum verður ekki breytt nema allir stjórnarmenn samþykki breytinguna.
Sjóðurinn er tímabundinn og mun að öllu óbreyttu verða lagður niður 30. maí 2025.
Liggi fyrir lögmæt ákvörðun um að leggja sjóðinn niður skal stjórn sjóðsins ákveða ráðstöfun eigna sjóðsins til Félags heyrnarlausra.
Reykjavík, 1. júní 2022
Stjórn Styrktarsjóðs Döff
Hér má finna PDF skjalið um úthlutunarreglur Döffsjóðsins.
Umsókn um styrk úr Döffsjóði hér!
Síðast uppfært: 23.03.2023