Barnið mitt er heyrnarlaust
Höfundur: Kristín Ármannsdóttir
Hvernig er að ala upp heyrnarlaust barn? Er það frábrugðið uppeldi barna með fulla heyrn? Lífsreynsla móður sem eignaðist heyrnarlausa dóttur.
Þegar ég var beðin að skrifa þessa grein fannst mér það fyrst ekkert mál. Það er lítið mál að ala upp heyrnarlaust barn og auðvelt að segja frá því. Þegar kom svo að því að fara að skrifa vandaðist málið. Hvað er það sem er sérstakt við uppeldi heyrnarlausa barnsins? Er einhver munur á því eða að ala upp heyrandi barn. Nei, ekki finnst mér það.
Öll grundvallargildi í uppeldi eru þau sömu. Öllum börnum þarf að sýna ást og umhyggju, uppfylla þarfir þeirra og forvitni, veita þeim gleði í leik og starfi, leyfa þeim að njóta styrkleika sinna og vinna með veikleikana. Kenna þeim á þessa veröld eins vel og foreldri getur. Þá skiptir engu máli hvort barnið er heyrnarlaust eða heyrandi. Að vel athuguðu máli finn ég bara eitt atriði sem ég þurfti að gera öðruvísi. Ég þurfti að eiga samskipti við dóttur mína á máli sem hún gat lært og það mál var ekki móðurmálið mitt. Hún hafði ekki forsendur til að læra mitt mál, ég varð að læra hennar! Og það gerði ég. Ekki bara ég heldur öll fjölskyldan. Foreldrar, systir, ömmur, afar, frænkur og frændur flykktust á táknmálsnámskeið því allir vildu eiga þess kost að eiga samskipti við heyrnarlausa barnið. Ég minnist þess vel hve mér fannst langur tími líða frá því að ég vissi að samskipi okkar þyrftu að fara fram á táknmáli þar til ég byrjaði að læra það. Samt var það bara ein helgi, lengsta helgi í lífi mínu því ég þráði það svo að eiga samskipti við barnið mitt á eðlilegan hátt fyrir það.
Á fyrsta fundi okkar með SHH lærði barnið mitt fyrstu táknin. Það lifnaði yfir litla andlitinu þegar hún hitti manneskju sem talaði við hana á táknmáli í fyrsta sinn. „LOKSINS, þessi kona skilur mig!“ fannst mér dóttir mín segja með svipnum. Það var aldrei neinn vafi í okkar huga að læra táknmál. Það yrði að gerast og gerast hratt. Um þetta leyti byrjaði dóttirin á leikskóla og þar hóf hún sitt formlega táknmálsnám. Henni fleygði fram, var langfyrst innan fjölskyldunnar að læra og svo fór að hún kenndi mér. En þannig á það ekki að vera, eggið á ekki að kenna hænunni, börn eiga ekki að kenna foreldrum sínum. Það var ég sem átti að vera málfyrirmyndin.
Það gat verið óskaplega sárt að horfa á litlu hendurnar á iði og andlitið sem greinilega lýsti einhverju skemmtilegu eða spennandi og hafa ekki hugmynd um hvað barnið vildi segja mér. Hún var svo langt á undan mér í táknmálsnáminu að ég hafði ekki roð við henni og það er erfitt. Erfitt fyrir okkur báðar. Allt sem ég vildi segja gat ég ekki sagt, flest það sem hún sagði skildi ég ekki. En þessi tími leið og mér fór fram, gat orðið sagt henni eitt og annað, skildi meira og meira af því sem hún vildi tjá mér og var farin að vera eins og venjuleg mamma í lífi stelpunnar minnar. Ég held að ég sé enn venjuleg mamma í lífi hennar. Hef stutt hana í gegn um allar þær hindranir sem hafa orðið á vegi hennar og glaðst með henni yfir öllum hennar sigrum og þeir eru sko margir. Hún er óskaplega heppin að vera harðdugleg og fylgin sér og veit upp á hár hvað hún vill.
Hún vildi prófa allar mögulegar íþróttir. Hún var skráð á íþróttanámskeið eins og önnur börn, eini munurinn var að við þurftum líka að panta túlk. Hún vildi fermast með öðrum börnum úr hverfinu í kirkjunni í hverfinu okkar. Það var lítið mál, nema það þurfti að panta túlk. Hún vissi nákvæmlega hvað hún vildi verða þegar hún yrði stór og fór þá leið og aftur þurfti að panta túlk. Þegar öllu er á botninn hvolft er táknmálið lykillinn, jú og viðhorfin.
Að hafa alltaf trú á því að sá heyrnarlausi geti allt og aldrei ákveða fyrirfram að eitthvað sé óframkvæmanlegt sökum heyrnarleysis. Með óbilandi trú og jákvæðu viðhorfi byggjum við upp sjálfstraust sem er öllum börnum nauðsynlegt, bæði heyrandi og heyrnarlausum. Með sjálfstrausti og sjálfsvirðingu bjarga þau sér sjálf með flesta hluti en þurfa aðstoð við aðra, bara eins og allir.
Vissulega hafa oft komið upp aðstæður þar sem eitt og annað er flóknara og erfiðara en hjá öðrum en hver lendir ekki í því? Við finnum lausnir og höfum held ég, aldrei látið heyrnarleysið breyta neinu. Eitt sinn ætlaði ég með eldri systur hennar í leikhús og við fórum saman í leikhúsið að sækja miðana. Heyrnarlausa barnið sá myndir úr verkinu á veggjum leikhússins og talaði um að hún vildi líka sjá sýninguna. Ég sagði henni að þetta væri söngleikur og væri kannski ekki gaman fyrir hana að koma með. „Af hverju má ég ekki sjá söngleik?“ spurði hún mig þá. Og því gat ég auðvitað ekki svarað. Auðvitað mátti hún sjá söngleik og það gerði hún. Heyrnarlausa barnið kom með á sýninguna og skemmti sér konunglega. Eftir þetta kom hún með á allar leiksýningar sem hún vildi.
Þarna lærði ég taka ekki ákvarðanir fyrir hana, hún er fullfær um að taka þær sjálf. Hún veit sjálf hvort og hvenær heyrnarleysið stoppar hana af. Hún tekur þátt í heyrandi samfélaginu að því marki sem hún þarf og vill. Ég tek líka þátt í samfélagi heyrnarlausra með henni og þar mætumst við á miðri leið. Þetta snýst um að sýna menningu hvors hóps um sig virðingu og umburðarlyndi. Við búum í fjölmenningarsamfélagi og þar er táknmálið eitt af tungumálunum. Það verður aldrei þannig að allir kunni öll tungumál. Hins vegar eru öll tungumál jafn mikilvæg og notendur þeirra eiga að hafa jafnan rétt. Táknmálið er heyrnarlausum og þeirra nánustu lykillinn að farsælu lífi.
Hvernig er þá að ala upp heyrnarlaust barn? Að ala upp heyrnarlaust barn er því eins og að ala upp heyrandi barn. Hafa fulla trú á því, gefa því tækifæri og styðja það í gegn um súrt og sætt eins og við hvert annað barn. Læra táknmál, helst áður en það fæðist til að hafa forskot, það er lykillinn að samskiptum það sem eftir er og með góðum samskiptum eru okkur og þeim, heyrnarlausu börnunum okkar, allir vegir færir.
Ráð til foreldra í örstuttu máli:
- það þarf að ala heyrnarlausa barnið upp eins og hvert annað barn
- gerðu þér far um að kynnast menningu heyrnarlausra
- gerðu ráð fyrir að barnið geti allt
- finndu lausnir á hindrunum sem upp koma
- leitaðu upplýsinga um heyrnarleysi
- hittu aðra foreldra sem eru eða hafa verið í sömu sporum
- hittu heyrnarlaust fólk á ýmsum aldri
- það má spyrja asnalegra spurninga
- kynntu þér rétt þinn sem foreldri
- kynntu þér rétt barnsins
- kynntu þér Félag heyrnarlausra, Heyrnarhjálp, Foreldrafélagið FSFH og e.t.v. fleiri félög
- umfram allt, lærðu táknmál.