Lög félagsins

Táknmálsútgáfa

1. kafli: Nafn og tilgangur félagsins

1. gr.
Nafn félagsins er Félag heyrnarlausra, skammstafað Fh.  Félagið starfar á landsvísu.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins er:

a) Að gæta hagsmuna heyrnarlausra og heyrnarskertra og koma fram fyrir þeirra hönd meðal annars gagnvart opinberum aðilum til dæmis í tengslum við lagasetningu og framkvæmd laga sem og í dómsmálum er snerta réttindi heyrnarlausra.

b) Að vinna að því að efla málsamfélag íslensks táknmáls, gæta hagsmuna málhafa þess og barna þeirra og koma fram fyrir þeirra hönd meðal annars gagnvart opinberum aðilum, t.d. í tengslum við lagasetningu og framkvæmd laga sem og í dómsmálum er snertra réttindi þeirra sem reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta sem og barna þeirra.

c) Að vinna að hverskonar menningar- og hagsmunamálum heyrnarlausra og heyrnarskertra og styðja þá og deildir þeirra, sem félaginu er frekast fært.  Fh er aðili að Norðurlandaráði heyrnarlausra, Öryrkjabandalagi Íslands, Alheimssamtökum heyrnarlausra og Evrópusambandi heyrnarlausra.

d) Efla starfsemi og samskipti milli deilda innan Fh og viðhalda starfsemi þeirra.

e) Að veita deildum og einstökum félagsmönnum liðsinni í baráttu fyrir afmörkuðum hagsmunamálum.

f) Að standa að fundum og ráðstefnum um málefni félagsmanna sinna og sækja slíka atburði erlendis.

Táknmálsútgáfa

2. kafli: Félagsaðild, réttindi og skyldur félagsmanna

3. gr.
Félagsmaður getur hver sá orðið sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

a) Fæðst hefur heyrnarlaus eða heyrnarskertur, misst hefur heyrn eða hefur verulega skerta heyrn, svo fremi sem heyrnarleysið eða heyrnarskerðingin stafi ekki af ellihrumleika og sem reiðir sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta. 

b) Greiðir félagsgjöld við inngöngu í félagið og síðan árlega í samræmi við ákvörðun aðalfundar ár hvert.

c) Aðrir aðilar sem náð hafa 18 ára aldri geta orðið styrktarfélagar með málfrelsi og tillögurétt á fundum en eigi atkvæðisrétt og skulu ekki eiga sæti í stjórn félagsins, hvorki sem aðalmenn eða varamenn.

4. gr.
a) Forsjáraðilar ólögráðra barns sem uppfyllir skilyrði til félagsaðildar skv. a. lið 3. greinar fara með félagsleg réttindi og skyldur barns.  Sama á við um þá félagsmenn sem sökum fjölfötlunar eða af öðrum ástæðum geta ekki sinnt félagslegum skyldum sínum eða gætt hagsmuna sinna.  Forsjáraðilar ólögráða barns eða fjölfatlaðs félagsmanns hafa ekki atkvæðisrétt á aðalfundi en geta orðið áheyrnarfulltrúar.

b) Félagsmenn undir 18 ára aldri geta ekki tekið sæti í stjórn og njóta ekki atkvæðisréttar á aðalfundum.

5. gr.
Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi ár hvert.  Félagsgjald skal vera jafnt fyrir alla sem uppfylla skilyrði félagsaðildar samkvæmt 3. grein.  Félagsmenn sem náð hafa 60 ára aldri eru undanþegnir félsgsgjaldi.

Allir sem hafa greitt félagsgjald hafa kjörgengi og kosningarétt hafi þeir náð 18 ára aldri auk þess sem þeir njóta þeirrar þjónustu sem félagið veitir.  Þeir eiga rétt til setu á aðalfundi svo fremi þeir séu skuldlausir við félagið á fundardegi.

Táknmálsútgáfa

3. kafli: Fundir

6. gr.
Fundi skal halda í félaginu þegar stjórn þykir ástæða til.  Almennan félagsfund skal stjórn boða með minnst viku fyrirvara með dagskrá á miðlum félagsins eða á annan opinberan hátt.  Boðað skal jafnframt til almenns félagsfundar ef minnst 10 fullgildir félagsmenn bera skriflega ósk til stjórnar þar að lútandi. Skulu þeir tilgreina ástæðu þess að óskað er eftir að félagsfundur verði boðaður.  Stjórn skal boða til og halda fundinn innan hálfs mánaðar frá því að ósk berst.

7. gr.
Aðalfundur félagsins hefur úrslitavald í öllum málefnum félagsins og skal hann haldinn eigi síðar en fyrir maílok ár hvert.  Stjórn félagsins skal sjá um að auglýsa aðalfund tryggilega með a.m.k. 28 daga fyrirvara.  Auglýsa skal aðalfund í Fréttabréfi heyrnarlausra, á auglýsingatöflu í húsnæði félagsins og inn á heimasíðu Fh á internetinu, nú vefslóðin www.deaf.is.

Á aðalfundi skulu lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til athugunar og samþykktar, en stjórn er skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga félagsins í lok reikningsárs.

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
a) Formaður félagsins setur fundinn
b) Kosning fundarstjóra
c) Kosning ritara
d) Endurskoðaðir reikningar fyrir síðasta almanaksár lagðir fram til samþykktar
e) Formaður les skýrslu stjórnar frá tímabili síðasta aðalfundar
f) Umræður um skýrslu stjórnar
g) Bornar upp tillögur er fyrir fundinn hafa verið lagðar
h) Kosning formanns félagsins og tveggja annarra aðalstjórnarmanna fer fram annað hvert ár. Kosning varaformanns, eins aðalstjórnarmanns og tveggja annarra varastjórnarmanna fer einnig fram annað hvert ár það ár sem fyrrgreint kjör fer ekki fram.
i) Tillögur um lagabreytingar, ef fyrir liggja
j) Ákvörðun félagsgjalds
k) Önnur mál 

8. gr.
a) Aðalfundur einn tekur ákvörðun um lagabreytingar og þarf samþykki 2/3 hluta aukins meirihluta fundarmanna til þeirra.  Sérhver félagsmaður hefur rétt til að leggja fyrir aðalfund tillögu um lagabreytingar eða aðrar tillögur er lúta að málefnum félagsins.

b) Eingöngu stjórn Fh leggur til ályktanir á aðalfundi Félags heyrnarlausra ef tilefni gefst til, félagmönnum er frjálst að koma með tillögur að ályktun sem stjórn síðar vinnur með.

c) Framboðum til stjórnar félagsins og tillögum að lagabreytingum skal skila til skrifstofu félagsins sem kemur þeim til kjörnefndar eigi síðar en 21 dögum fyrir boðaðan aðalfund. Stjórn félagsins er þó heimilt að víkja frá þessu frestsskilyrði ef sérstakar aðstæður mæla með því hvað varðar framboð til stjórnar.

d) Berist fleiri framboð til stjórnar en kjósa á um hverju sinni skal kjörnefndin undirbúa kosningu og birta lista yfir þá sem í kjöri eru.  Berist ekki nægilegur fjöldi framboða skal kjörnefndin, svo fljótt sem verða má, hlutast til um að afla þeirra fyrir aðalfund.  Kjörnefnd skal setja nánari reglur um framkvæmd kosninga og skulu þær birtar félagsmönnum.

9. gr.
Ákvarðanir aðalfundar teljast löglegar ef þær eru teknar af einföldum meirihluta.  Þó skulu ákvarðanir aðalfundar um að selja fasteignir félagsins og um meiriháttar veðsetningar á eignum félagsins háðar samþykki 2/3 atkvæðisbærra aðalfundarmanna.  Ákvörðun aðalfundar um að leggja félagið niður telst ekki lögleg nema með samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra aðalfundarmanna. 

Fundargerð aðalfundar skal birt á heimasíðu félagsins innan tveggja vikna frá lokum aðalfundar.  Þeir félagsmenn sem kunna að hafa athugasemdir við efni fundargerðar skulu koma þeim á framfæri við stjórn innan einnar viku frá birtingu fundargerðarinnar.

10. gr.
Aukaaðalfund skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða ef 20 fullgildir félagsmenn bera fram skriflega ósk til stjórnar þar af lútandi.  Boða skal til hans með sama hætti og reglulegs aðalfundar.

11. gr.
Heimilt er að stofna deildir innan Félags heyrnarlausra sem hafa umsjón með tilgreindri og afmarkaðri starfssemi innan félagsins.  Slíkar deildir hafa ekki sjálfstæða stjórnir en tilnefna skal tvo umsjónarmenn með hverri deild sem haldi utan um starfsemi hennar og geri stjórn félagsins grein fyrir henni.  Deildir hafa ekki sjálfstæðan fjárhag og er óheimilt að afla fjár á eigin vegum en Fh mun, eins og efni standa til, styðja starfssemi deildanna.  Umsjónarmenn deilda skulu fyrir 1. nóvember ár hvert leggja fram til stjórnar Fh starfsáætlun ásamt fjárhagsáætlun um áætlaða starfssemi deildar komandi ár.  Deildir skulu opnar öllum sem uppfylla skilyrði félagsaðildar samkvæmt 3. gr.

Táknmálsútgáfa

4. kafli: Stjórn

12. gr.
a) Stjórn Félags heyrnarlausra fer með málefni félagsins á milli aðalfunda.  Stjórnin framkvæmir ákvarðanir aðalfunda og félagsfunda.

b) Stjórn félagsins skal skipuð fimm félagsmönnum og tveimur til vara.  Varamenn taka sæti í stjórn í þeirri númeraröð sem þeir eru kosnir.  Stjórn félagsins skal kosin til tveggja ára í senn, þannig að fyrra árið er kjörinn varaformaður, einn aðalstjórnarmaður og fyrsti og annar varamaður.  Hitt árið er formaður og tveir aðalstjórnarmenn kosnir.  Starfsmenn félagsins geta ekki boðið sig fram til stjórnar.

c) Varamenn taka sæti aðalmanna í forföllum þeirra, fyrst sá er fleiri atkvæði hefur að baki sér.  Falli stjórnarmaður frá eða gangi úr stjórn félagsins tekur varamaður sæti hans á sama hátt og situr út kjörtímabil þess stjórnarmanns.

d) Stjórnarfundur er lögmætur hafi allir stjórnarmenn sannanlega verið boðaðir til fundarins og meirihluti þeirra viðstaddur.

e) Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum.

f) Stjórnarformaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim.

13. gr
Stjórn félagsins er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu, verði félagsmaður sannur að því að vinna gegn tilgangi og hagsmunum félagsins.  Veita ber félagsmanni andmælarétt áður en brottvikning er afráðin.  Brottvikning tekur gildi við samþykkt stjórnar.  Boða skal þó strax til almenns félagsfundar í framhaldi af slíkri stjórnarsamþykkt að beiðni a.m.k. 10 fullgildra félagsmanna.  Félagsfundur getur með einföldum meirihluta atkvæða fellt brottvikningu félagsmanns úr gildi.

14. gr.
Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra félagsins, sem sér um daglegan rekstur í samráði við stjórn.  Stjórn skal sjá um aðrar mannaráðningar í samráði við framkvæmdarstjóra og einnig skipa fulltrúa í ráð og nefndir fyrir félagið.  Við stjórnarákvarðanir ræður einfaldur meirihluti.

Framkvæmdastjóri situr stjórnarfundi, en hefur ekki atkvæðisrétt.

15. gr.
Stjórn er óheimilt að selja eða veðsetja fasteignir félagsins nema með samþykki aukins meirihluta aðalfundar.  Þó skal stjórninni heimilt að taka fyrir hönd félagsins nauðsynleg skammtímalán til dagslegs reksturs og í samræmi við tilgang félagsins og veðsetja eignir félagsins fyrir þeim.  Stjórninni skal þó aldrei vera heimilt að taka hærri lán en sem svarar 10% af hreinu eigin fé félagsins, eins og það kom fram í síðasta endurskoðaða ársreikningi.  Stjórninni er sömuleiðis óheimilt að selja eða láta af hendi aðrar eignir félagsins, hverju nafni sem þær nefnast, nema þeim verði varið í samræmi við tilgang félagsins skv. 2. gr.

16. gr.
Framkvæmdastjóri er ásamt stjórn vörsluaðili sjóða og sinnir skrifstofuhaldi sem rekstri fylgir.

17. gr.
Stjórn félagsins skipar fulltrúa í ráð og nefndir á vegum félagsins.  Stjórn félagsins getur skipulagt og kallað til sérstakt fulltrúaþing einu sinni til tvisvar á ári eða eftir því sem tilefni gefst.  Þeir sem eiga rétt til setu á fulltrúaþingi eru þeir einir sem sitja í stjórnum, ráðum og nefndum sem tengjast félaginu á einn eða annan hátt.  Fulltrúaþingið markar stefnu félagsins á hverjum tíma og er fulltrúum félagsins í stjórnum, ráðum og nefndum ætlað að fara eftir stefnu Fulltrúaþingsins á hverjum tíma og vinna markvisst að því að koma stefnumálum í framkvæmd í sínu stjórnarráði og nefndarstarfi.  Fulltrúaþingið er samvinnu- og samráðsþing félagsins.

Áður en stefnu félagsins eða markmiðum er breytt í samræmi við samþykktir fulltrúaþings ber að leggja slíkar breytingar fyrir aðalfund til samþykktar.  Taka breytingar ekki gildi fyrr en slíkt samþykki liggur fyrir.

18. gr.
Stjórn félagsins gerir áætlun um ferðakostnað erlendis.  Áætlun fyrir næsta almanaksár skal lögð fram til samþykktar í stjórn Fh í nóvember ár hvert.

19. gr.
Félagsmaður sem ferðast erlendis í þágu félagsins getur átt rétt á niðurgreiðslu ferðakostnað að hluta eða að öllu leyti. Hyggist félagsmaður nýta sér niðurgreiðslu ferðakostnaðar að einhverju eða öllu leyti ber honum að skila inn skriflegri skýrslu í síðasta lagi sex vikum eftir heimkomu.  Skýrslan skal síðan birt á heimasíðu félagsins eigi síðar en sjö vikum eftir heimkomu.   Berist skýrsla ekki innan tímamarka hefur félagsmaður fyrirgert rétti sínum til niðurgreiðslu og verður fyrirfram greiddur ferðakostnaður þá afturkræfur.

Táknmálsútgáfa

5. kafli: Lagabreytingar

20. gr.
a) Til þess að breyta lögum þessum þarf að ræða og samþykkja breytingar á aðalfundi með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

b) Þannig samþykkt í Reykjavík 23. maí 2017 og koma lög þessi í stað eldri laga félagsins.  Á aðalfundi 13. maí 2022 var samþykkt að gera breytingar á 8. gr. og bætt við áskilnaði um að félagsmaður rökstyddi breytingartillögur sínar á aðalfundi.  Auk þess var bætt við að framboðum og lagabreytingatillögum væri unnt að skila inn á íslensku táknmáli eða íslensku.