Kynning!

8. feb. 2023

Eins og flestum er kunnugt auglýsti Félag heyrnarlausra eftir tímabundnu starfi verkefnastjóra í viðamikið og fjölbreytt verkefni Döff flóttamanna á Íslandi. Verkefnið snýr að samskiptum við félög og stofnanir í málefnum flóttafólks, samskiptum við flóttafólkið sem vegvísir í virkni þess í íslensku samfélagi auk greiningarvinnu fyrir félagsmálaráðuneytið á stöðu ýmissa stofnana er sinna málefnum flóttafólks og hvar megi gera betur í málefnum Döff flóttafólks auk fleiri verkefna er snúa að málstaðnum.

3 umsóknir bárust og voru tveir aðilar teknir í viðtal. Framkvæmdastjóri og 4 af 5 stjórnarmönnum hittust á fundi og fóru vandlega yfir umsóknirnar og kynningabréfin og viðtölin við umsækjendur.

Niðurstaðan er sú að Hjördís Anna Haraldsdóttir var ráðin verkefnastjóri og hefur hún störf að hluta um komandi mánaðarmót. Hjördís hefur starfað sem verkefnastjóri meðfram kennslu í Hlíðaskóla í 12 ár og hefur dýrmæta reynslu í verkefnastjórnun líkt og starfið í málefnum flóttafólksins gerir tilkall til. Hún hefur komist að samkomulagi um leyfi fyrra starfi á meðan verkefnið sem er til 12 mánaða verður.

Til upplýsinga þá sat Hjördís eðlilega ekki þann stjórnarfund er snéri að ráðningunni og sendi Hjördís formlegt bréf til stjórnar Fh og óskaði eftir að fá að stíga til hliðar úr stjórninni sem varaformaður félagsins áður en málið var komið á borð hennar til umræðu.

Við bjóðum Hjördísi velkomna til starfa!