• Merki Félags heyrnarlausra

Yfirlýsing frá Félagi heyrnarlausra

21. mar. 2025

Yfirlýsing frá Félagi heyrnarlausra

 

Lokun endurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta. Fjármagn uppurið:

Félag heyrnarlausra vekur athygli stjórnvalda á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin að fjármögnun til endurgjaldslausrar túlkaþjónustu fyrir 1. ársfjórðung 2025 er nú uppurið, 11 dögum fyrir lok ársfjórðungsins. Afleiðingarnar eru þær að myndsímatúlkun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) verður lokuð frá og með 24. mars 2025 til og með 31. mars 2025, auk þess sem ekki verður orðið við neinum beiðnum um endurgjaldslausa túlkun í daglegu lífi á sama tímabili. Við blasir að það fjármagn sem menningar- og nýsköpunarráðuneytið veitir til þjónustunnar er í engu samræmi við þá þörf sem er á þjónustunni. Endurtekið hefur verið varað við þessari alvarlegu stöðu með ábendingum af hálfu SHH til ráðuneytisins, fyrst þann 7. febrúar sl., síðan 4. mars sl. og aftur þann 19. mars sl., án þess að nokkur viðbrögð hafi borist.

 

Túlkaþjónusta, hvort sem hún er staðtúlkun, fjartúlkun eða myndsímatúlkun, er ómissandi fyrir samfélagslega þátttöku okkar og því reiðum við okkur á að þjónustan sé til staðar þegar hennar er þörf. Staðan er því grafalvarleg og hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir okkur sem þurfum á túlkaþjónustu í daglegu lífi að halda.

 

Félag heyrnarlausra skorar á stjórnvöld að bregðast tafarlaust við og grípa til aðgerða til að tryggja fjármögnun endurgjaldslausrar túlkaþjónustu allan ársins hring og stöðva þá óvissu sem nú steðjar að heyrnarlausum einstaklingum og aðstandendum þeirra. Þess er krafist að brugðist verði við þessum vanda af ábyrgð og stjórnvöld viðurkenni þar með augljóst mikilvægi túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta einstaklinga.

 

Með von um tafarlaus viðbrögð.

 

Stjórn Félags heyrnarlausra

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir formaður

Berglind Stefánsdóttir varaformaður

Uldis Ozols meðstjórnandi

Eyrún Ólafsdóttir meðstjórnandi

Þórður Örn Kristjánsson. meðstjórnandi