Ársskýrslur 2019

Hér getur þú nálgast ársskýrslur stjórnar, starfsfólks og deildar frá árinu 2018 til 2019 ásamt ársreikninginum.

Video

Ársskýrsla stjórnar

Samstarfsverkefni, nefndarstörf og önnur verkefni:

· Málnefnd

Fulltrúi félagsins hefur setið fundi með málnefnd um ÍTM. Í vetur hafa ýmsir aðilar sem tengjast íslenska táknmálinu verið boðnir á fund með málnefndinni. T. D fundur með fulltrúum menntamálastofnuninnar þar sem meðal annars rætt um námsefni og aðgengi að ÍTM. Örfáum dögum seinna var búið að setja inn efni á vef menntamálastofnuninnar. Unnið er að skýrslu málnefndarinnar sem á að birta í byrjun júni.

· ÖBÍ

Fulltrúar Fh hafa setið aðalfund ÖBÍ, Stefnuþing ÖBÍ og formannsfundi ÖBÍ ásamt námskeiði um sáttmála fólks með fötlun í Írlandi og á Íslandi.

· Snorri Deaf

Nú er í gangi verkefni að taka á móti fyrstu Snorra Deaf þátttakendum frá Kanada í ágúst 2019. Tveir Snorra Deaf gestir koma ásamt túlki til landsins og munu kynnast menningu og sögu Íslands, fá innsýn í samfélag döff á Íslandi ásamt því að hitta ættingja sína.

· DAC2019

Stjórn Fh samþykkti afslátt fyrir félagsmenn sína til að taka þátt í DAC. Fulltrúi stjórnar sat í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnunina. Undirbúningur fyrir Deaf Academic Conference 2019 hefur verið í fullu gangi og var dagana 11.-13.maí. Gestir voru um 110 manns.

· 112 döff app

 

Félagið vann í samvinnu við 112 og Samsýn að gefa út neyðar app sem nýtist félagsmönnum og fleirum sem geta nýtt sér það.

· Stefnumótun

Stjórn félagsins samþykkti að gera nýja stefnumótun þar sem sú eldri var að fara að renna út. Vinnufundir hafa verið með stjórnarmönnum og starfsfólki ásamt þeim sem sinna stefnumótuninnni. Vinna við stefnumótunina er á lokametrum.

Réttinda- og baráttumál Fh:

Nýr lögfræðingur að nafni Karólína Finnbjörnsdóttir, hefur tekið að sér mál fyrir félagið. Samstarf hennar og stjórnar hefur verið gott. Helstu málin sem hún hefur unnið með á þessu tímabili eru fjartúlkun sem er enn í vinnslu, frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála (táknmálstúlkar o.fl.). Ánægjulegt er að taka fram að í greinagerð sem fylgdi frumvarpinu er tekið framað Félag heyrnarlausra vakti athygli á því að nauðsynlegt kynni að vera að taka til athugunar greiðslu fyrir táknmálstúlkun í samskiptum réttargæslumanna og verjenda við skjólstæðinga sína. Afstaða ráðuneytisins er sú að það mál sé annars eðlis en það sem efni frumvarpsins lýtur að og þurfi nánari athugunar við, frumvarp vegna textunar á innlendu sjónvarpsefni og því enn fylgt eftir í samstarfi við Heyrnarhjálp, þjónusta vegna liðveislu með lögheimili á þjónustustofnun og réttur til túlkaþjónustu í heilbrigðissviði fyrir utan LSH og heilsugæslu höfuðborgarsvæðisns.

· Talkennsla

Félagið hefur staðið lengi í baráttu að talkennslu fyrir döff börn sem eru ekki með KÍ, nú getum við fagnað því að boltinn er farinn að rúlla og talmeinafræðingur hefur hafið störf sem tekur að sér börn sem eru ekki með KÍ en foreldrar óska eftir aðgengi að talþjálfun hjá talmeinafræðingi.

· Bréf, greinargerð og verkefnalýsing vegna túlkunnar í atvinnulífi.

Í haust fór formaður ásamt forstöðumanni SHH á fund með félags- og jafnréttismálaráðherra til að leggja fram tillögu að verkefni vegna túlkunnar í atvinnulífi. Þessu er enn fylgt eftir.

 

 

Annað:

· DNR, EUD og WFD

Félagið hefur tekið þátt í fundum með DNR og EUD. DNR fundur var haldin á Íslandi í vetur í samstarfi við NTN (norðurlandanefnd um táknmál). Á DNR fundi haustið 2018 kom hvatning frá fulltrúum á DNR að Ísland ætti að tilnefna Hjördísi Önnu varaformann til framboðs í stjórn WFD á aðalfundi WFD sumarið 2019. Stjórn Fh samþykkti þá tillögu.

· Viðburðir

Dagur Döff var haldin með uppistandskvöldi, Gavin Lilley kom og skemmti gestum.

 

Dagur ÍTM var haldin með ýmsum viðburðum svo sem Café Lingua, málþing í HÍ og fyrirlestri hjá Þorgrími Þráinssyni.


Video

Ársskýrsla starfsfólks

Starfsemi Félags heyrnarlausra er snýr að starfsmannahaldi hefur verið lífleg og þjónustustigið hátt eins og undanfarin ár. Félagið hefur smátt og smátt verið að skoða möguleika og aðkomu að þjónustu fyrir aldraða döff og döff plús. Þjónustan félagsins er orðin færanleg með stöðunni hans Bubba þar sem hann fer og sinni döff með þarfir auk þess að halda utan um aldraðra starfið í Gerðubergi. Almenn ánægja er með hans störf og hefur félagið leigt bíl svo hann komist hraðar yfir og geti sinnt fleiri málum. Þá er starfsemi aldraðra í Gerðubergi með miklum blóma og vel mætt alla miðvikudaga. Alls eru 7 stöðugildi í FH og þar af 5 döff sem er frábært. 3 starfsmenn á vegum félagsins heimsóttu Døve center í Danmörku sem er íbúðaúrræði og vinnustaður fyrir döff+ og fengum við mjög góðar viðtökur og kynningu á starfseminni sem gefur okkur hugmyndir um hvernig við gætum séð starfsemi fyrir döff+ og aldraða hér á Íslandi.

Laila hefur sinnt atvinnumálum og ráðgjöf í samstarfi við Vinnumálastofnun með miklum myndarskap þannig að VMST hefur óskað eftir frekara samstarfi við okkur. Alls hafa verið gerðir 99 vinnusamningar sem FH hefur komið að síðan skipulögð skráning hófst með vinnusamningum. Í þjónustu við félagsmenn hafa bæði vinnumál og vinnustaðainnlit verið stór þáttur í vinnu Lailu hjá félaginu og hafa komið meiri óskir um innlit en hægt hefur verið að sinna. Erum við hjá félaginu að skoða þjónustustigið í þeim efnum. Að auki hefur atvinnufulltrúi sinnt ráðgjöf og aðstoð er varða persónuleg málefni þeirra sem þess óska og hefur verið töluverð aukning döff erlendis frá. Reynum við að sinna málum flestra þannig að aðgengi þeirra að íslenska kerfinu verði sem best og þau fái þær leiðbeiningar sem þau þurfa til að virka sem best sem einstaklingar á Íslandi.

Kvikmyndastúdíóið hefur verið notað í gerð barnaefnis, fréttatengds efnis og ýmisskonar upplýsinga til að efla og auka táknmálsviðmót á heimasíðu og fésbókarsíðu félagsins. Studíóið er vel búið tæknilega og vonandi koma upp verkefni á komandi misserum sem efla menningu, listir og hægt verði að gera táknmálið sýnilegra fyrir landi og þjóð. Fomaður félagsins hefur unnið að efnisöflun fyrir heimasíðuna. Eins hefur félagið lánað aðstöðu sína og starfsfólk fyrir Samskiptamiðstöðina er snýr að gerð námsefnis fyrir döff.

Ný verkefnastjóri var ráðin og er Guðrún Ólafsdóttir sú sem varð fyrir valinu. Guðrún hefur unnið í banka í marga áratugi og verður áhugavert að sjá hana blómstra í stöðu verkefnastjórans sem sinnir móttöku og uppgjörs á happdrætti við sölumenn félagsins, heldur utan um félagsmannatal, auk annarra tilfallandi verkefna er kunna að koma upp á vegum félagsins.

Nýr bókari tók við starfi þegar Guðfinna hætti sökum aldurs eftir áratuga langt starf. Þökkum við henni fyrir gott og farsælt samstarf. Á sama tíma var ákveðið að skipta um bókhaldskerfi þar sem hitt kerfið var orðið úrelt og var að hætta á markaði. Heitir bókhaldskerfið DK sem er mjög vinsælt kerfi á Íslandi.

Formaður félagsins sem er í 50% stöðugildi hefur unnið mjög vel að hagsmuna- og réttindamálum með nýjum lögfræðingi félagsins, Karólínu Finnbjörnsdóttur sem félagið ákvað að ráða í stað Ástráðs Haraldssonar sem hefur verið skipaður dómari og má því ekki sinna einkamálum þar af leiðandi. Lögmaður félagsins er orðin vel upplýst um málefni félagsins síðustu ár og vinnur eins og fyrr segir með formanni að reka málin sem í gangi eru, skoða mál sem hafa farið í ferli og gæti vaki með nýrri sýn nýs lögmanns verið tekin upp að nýju.

Sigga Vala var, áður en hún fór í fæðingaorlof samskiptafulltrúi og efldi samskipti döff út á við auk þess að vinna að aukinni aðkomu og virkni döff barna og ungmenna í félaginu. Mjög þarft verkefni að skoða því samfélag döff eldist hratt og mikilvægt að tryggja táknmálsumhverfið hér á okkar viðkvæmu eyju. Sigga Vala vinnur nú að DAC2019 verkefninu sem er alþjóðleg ráðstefna döff menntafólks sem fór hér fram á landi 11-13 maí og heppnaðist í alla staði mjög vel.

Rekstur félagsins var í ágætis málum á árinu. Við finnum fyrir mjög harðnandi samkeppni í fjáröflunum þar sem mun fleiri félagasamtök eru farin af stað með ýmsar landsafnanir og fjáraflanir auk þess sem samtök eins og SÁÁ og Þroskahjálp eru farin að banka upp heima hjá fólki og selja þeim varning. Þetta kallar á endurskoðun okkar á happdrættinu og hvað við þurfum að gera til að viðhalda öflugu starfi með sölufólki okkar. Mikilvægt er að sölumenn nái góðum söluárangri svo þeir hætti ekki að vilja selja happdrættismiða.

Þá eru mímörg verkefni sem félagið hefur farið í á árinu og ber þar hæst að nefna 112 appið fyrir döff sem unnið var í samstarfi við Neyðarlínuna og forritunarfyrirtækið Samsýn. Mikið bætt öryggismál í húsi. Félagið stóð einnig fyrir sumarnámskeiði fyrir coda ogdöff börn og ungmenni þar sem leiðbeinendur voru döff. Þótti það mjög vel heppnað og verður skoðað aftur í sumar að bjóða slíkt námskeið fyrir börnin okkar.

Svo vill ég enn og aftur hvetja ykkur félagsmenn til að koma með ábendingar um hvað félagið gæti gert betur eða verkefni sem félagið gæti sett á fót til að efla starfsemi, þjónustu, menningu og líf döff til hins betra.

Til þess erum við!

Ársreikningur félagsins 2018

Hér getur þú nálgast ársreikning félagsins