• Elsa G. Björnsdóttir
    Elsa G. Björnsdóttir

Gæfa eða ógæfa?

Höfundur: Elsa G. Björnsdóttir

23. sep. 2016

Dagurinn sem ég fékk heilahimnubólgu tveggja og hálfs árs og hætti að heyra, hefur mér fundist vera mín mesta gæfa í lífinu.

Þessa setningu hef ég margsagt á alla mögulega vegu í gegnum tíðina, ég hef sagt hana aftur á bak, á ská, áfram, hægt eða hratt, þó hef ég helst umorðað hana og endurtekið fyrir fólk sem trúði ekki eigin eyrum. Án allrar kaldhæðni og í fullri einlægni er ástæðan einfaldlega sú að ég tel mig sannarlega ótrúlega heppna að hafa fengið heilahimnubólgu því ég lít á það sem mitt mesta lán að hafa orðið heyrnarlaus.

Nú hvá eflaust margir lesendur og jafnvel spyrja sig og aðra hvers vegna í ósköpnum einhver geti talið það sína mestu gæfu í lífinu að verða fárveikur og hvað þá talið það gæfu að hafa misst heyrnina. Áður en ég svara því ætla ég að deila með þjóðinni sögunni góðu.  Sú saga, upphaf hennar, miðja og endir sem og fólkið í sögunni er og hefur alltaf verið mér einkar dýrmætt því algerlega ómeðvitað, óafvitandi skópu þau og þessar aðstæður þær mikilvægu kringumstæður sem ég trúi að hafi verið enn ein gæfan sem ég hef orðið fyrir í lífinu.

Þegar mamma og systir hennar voru litlar hlustuðu amma mín og afi alltaf á kvöldfréttirnar í útvarpinu við kvöldmatarborðið, á meðan áttu stelpurnar að hafa hljótt til að trufla þau ekki á meðan fréttunum stóð. Þarna við kvöldmatarborðið voru þær bara litlar stelpur sem langaði að tala saman en vissu að með því að nota röddina og raddmálið sitt væru þær að trufla foreldra sína svo þær urðu að finna aðra lausn. Þær voru það frumlegar og úrræðagóðar að þær duttu niður á leið til að tala saman án þess að trufla neinn. Þær hreyfðu varirnar og mynduðu orð og setningar án þess að gefa frá sér hljóð, og með varamáli og varalestri skildu þær hvora aðra, þvílikir snillingar!

Nú veit ég ekki nákvæm smáatriði sögunnar né hvernig nákvæmlega þetta átti sér stað milli þeirra systra né veit ég hvernig þeirra hæfileiki í að lesa af vörum þróaðist svo, kannski uppgötvuðu þær þarna yfir kvöldmatnum eitt kvöldið að þær kynnu þetta bara. En það allt skiptir kannski ekki öllu máli þegar upp er staðið. Það sem skiptir máli með þessa sögu er að þetta varð til þess að mamma ákvað að prófa á mér pínulitilli hvort ég myndi skilja hana ef hún talaði varamál við mig án þess að nota röddina, og svo reyndist vera, þannig varð þessi litli varalestrarleikur okkar mömmu til þess að löngu áður en ég veiktist af heilahimnubólgu og heyrnin fór, kunni ég að lesa af vörum akkúrat á því augnabliki sem ég þurfti mest á því að halda. Án varalestrarkunnáttunar þarna í byrjun hefði mér nefnilega ekki verið kleift að halda svo auðveldlega í mitt fyrsta mál, íslenska raddmálið.

Nú vil ég ekki að allir haldi að það sé bara skítlétt að lesa af vörum eða að allir kunni það og geti sem heyra ekki, það er ekki svo einfalt né jafn auðvelt og fólk heldur þó það hafi kannski verið þannig fyrir okkar fjölskyldu. Varalestur er álíka erfiður og að vinna gull á ólympíuleikunum, sumir fá fleiri gull en aðrir. Alls ekki allir ná ólympíulágmarkinu, flestir sem fara þangað tapa og komast aldrei á verðlaunapall. Varalesturinn mun aldrei koma í staðinn fyrir ritaða íslensku né táknmál og ég mun aldrei hafa varalestur sem fyrsta valkost þegar ég vil eiga samskipti við aðra. Það vill bara svo til ég naut þeirrar gæfu að geta haldið íslenskunni þannig við eða þangað til ég var búin að læra að lesa og skrifa aðeins eldri. Varalestur er hrikalega erfiður og orkufrekur ásamt því að maður er misvel upplagður í hann, segja má að tapleikirnir með þessari leið séu mun fleiri en ef maður nýtir frekar aðra valkosti eins og t.d. táknmál. Táknmálið ólíkt varalestri nefnilega gefur mér þá tilfinningu að ég sé jöfn öðrum, án táknmálsins hefði ég ekki þá samsemd (e. Identity) sem ég hef í dag.

Svo ég snúi mér að heilahimnubólgunni og svari þeim sem ekki skildu röksemdina á bak við þá hugsun hjá mér að kalla það mína mestu og bestu gæfu. Í stuttu máli þá tel ég mig ekki hafa misst neitt þegar heyrnin fór, ég varð nefnilega döff, ef ég hefði ekki orðið döff þá hefði ég ekki eignast hitt móðurmálið mitt, íslenska táknmálið. Ég á tvö móðurmál og er tvítyngd, tungumálin láta mig finnast ég tilheyra tveimur menningarheimum og samfélögum sem hvort um sig fáir tilheyra og á með því eitthvað sjaldgæft, einstakt og ómetanlegt.

Ég er nefnilega bæði Íslendingur og döff. Í mínum huga yrði það að verða heyrandi aftur eins og að afsala mér þjóðerni mínu og ríkisborgararéttindum. Einhverjir geta kannski hugsað sér það, ekki ég, einhverjum er kannski alveg sama þó íslenskan deyi út, við séum hvort eð er svo fá sem kunna hana, ekki mér.

Ég væri þó til í eina gæfu í viðbót. Þeirrar að allir sem lesa þennann pistil sjái á sama hátt og ég að það döff fólk sem fyrst allra hér á landi fóru að tala íslenskt táknmál sín á milli eru engu minni snillingar heldur en mamma mín og systir voru þarna þessar hljóðlátu kvöldstundir heima hjá ömmu minni og afa.

Kannski er einhversstaðar önnur fjölskylda þarna úti þar sem foreldrarnir hlusta á kvöldfréttir við kvöldmatarborðið og börnin þegja á meðan eða jafnvel það sem er enn betra, börn sem tala saman á táknmáli, já lífið er fullt af alls konar gæfu.

Greinin birtist í Kvennablaðinu 23. september 2016