-
Laila Margrét Arnþórsdóttir, atvinnuráðgjafi Félags heyrnarlausra
Atvinnumál döff
Höfundur: Laila Margrét Arnþórsdóttir og Heiðdís Dögg Eiríksdóttir
Árið 1999 var ráðinn var atvinnufulltrúi til Félags heyrnarlausra. Samþykkt hafði verið að félagið fengi stuðning við að bjóða upp á aðstoð við atvinnuleit fyrir heyrnarlausa. Hátt hlutfall atvinnuleysis og úrræðaleysi var ástæða þess að það þurfti að ganga í að veita slíka aðstoð og stuðning. Fyrir þann tíma hafði ekki verið í boði markviss þjónusta og aðstoð fyrir döff sem leituðu að starfi. Því miður liggja ekki fyrir gögn um hversu hátt hlutfall þeirra var án atvinnu á þessum tíma.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og stórt skref var tekið árið 2000 þegar döff fengu aðgengi að vinnusamningum. Fyrirtæki og stofnanir voru með því viljugri að gefa döff tækifæri til að sanna sig. Auk þess voru dæmi þess að iðnnemar kæmust á samning sem áður hafði verið illmögulegt. Í kjölfarið fóru vinnustaðir að taka inn fleiri en einn döff í vinnu og urðu þá til fjölbreyttari vinnustaðir þar sem nokkrir döff unnu saman. Þetta hefur skapað betra starfsumhverfi og kemur í veg fyrir einangrun sem oft er vandamál þar sem einn döff starfsmaður er á vinnustað.
Starf atvinnufulltrúa hefur verið að mótast í þau ár sem boðið hefur verið upp á þjónustuna. Í dag er t.d. boðið upp á vinnustaðainnlit einu sinni í viku og er þetta þjónusta sem margir óska eftir. Það sem mikilvægt er að efla til muna er túlkaþjónusta í atvinnulífi, að tryggja að döff fái túlk á vinnustað svo þeir hafi aðgengi að upplýsingum, fræðslu og samskiptum jafnt á við annað starfsfólk. Það er líka nauðsynlegt að vinnustaðir fái góðar upplýsingar og fræðslu, m.a. um samskiptareglur við döff. Með því er auðveldara að koma í veg fyrir misskilning og erfiðar aðstæður í samskiptum. Mikilvægt er að upplýsa strax um menningu og hvaða samskiptaleiðir virka best en það getur skipt sköpum varðandi framhaldið og hvernig döff líður á vinnustað. Vandamálið er að of fáir heyrandi búa yfir þekkingu í íslensku táknmáli, en það er lykillinn að virkum og nærandi samskiptum fyrir döff.
Árið 2008 og tíminn eftir hrunið var erfiður á vinnumarkaði og þá sannaði það sig vel að vinnustaðasamningar hjálpuðu til við að döff fengju atvinnutækifæri sem annars hefðu ekki staðið til boða við þær aðstæður sem þá voru í samfélaginu. Með aukinni menntun hefur atvinnutækifærum fjölgað þó enn örli á því að það taki tíma að finna starf við hæfi jafnvel þó svo döff hafi lokið háskólanámi. Þess ber þó að geta að sama er upp á teningnum hjá háskólamenntuðu fólki almennt. Iðngreinarnar hafa þá sérstöðu að þar fær fólk undantekningalaust strax starf við hæfi, enda hafa döff alltaf verið eftirsóttir handverksmenn.
Atvinnufulltrúi félagsins er tengiliður við Vinnumálstofnun bæði varðandi vinnusamninga og samvinnu varðandi atvinnuleit. Framundan er vinna við að efla verulega vinnustaðatúlkun og kynna þá þjónustu bæði fyrir atvinnurekendum og döff þjónustuþegum þannig að báðir aðilar fái upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði. Kynna þarf kosti og ávinning þess að tryggja sem best samskipti, það eykur starfsánægju og afköst þannig að það er beggja hagur.
Í Noregi er tryggt í lögum að döff fá 30 tímar á mánuði í vinnustaðatúlkun. Heyrnarlaus starfsmaður getur valið sjálfur hvernig og hvort hann kýs að nota túlkaþjónustu við vinnu sína.
Sambærileg lög er því miður ekki að finna hérlendis. Það er mjög misjafnt í dag hversu mikið og hve oft döff eru að nota túlka í tengslum við vinnu. Þá er átt við túlkun í tengslum við vinnu og vinnutengda atburði. Það er því mikilvægt að farið verði í sameiginlegt átak til að tryggja döff sambærilega þjónustu með atvinnutúlkun eins og t.d. í Noregi og fleiri nágrannalöndum.
Með öflugri atvinnutengdri túlkaþjónustu er tryggt jafnræði í atvinnumöguleikum döff og heyrandi. Túlkaþjónusta í atvinnulífinu er framtíðin.
Þessi grein birtist í Döffblaðinu 9. febrúar 2018