• Heiðdís Dögg Eiríksdóttir
    Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður Félags heyrnarlausra

Er erfitt að vera döff?

Höfundur: Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

22. nóv. 2016

Ástæðurnar fyrir því að fólk spyr að þessu eru í lang flestum tilfellum tvær.

  1. Viðkomandi er bara fróðleiksfús og forvitinn og vill vita ef mér finnst erfitt að vera döff, og hlustar á mig þegar ég svara.
  2. Viðkomandi er búinn að ákveða hvernig mér á og eigi að líða sem döff persónu. Gerir lítið úr svörum mínum, mótmælir, hristir höfuðið og reynir að sannfæra mig um annað.

Í raun er ekki og ætti ekki að vera erfitt að svara svona einfaldri spurningu, það væri alltaf auðvelt ef ástæðan væri eingöngu fróðleiksfýsni og áhugi. Síðari ástæða þess að fólk spyr á þó við mun oftar en við vildum.

Munurinn á milli þess að svara 1 og 2 er nánast svartur og hvítur. Það verður erfitt um leið og spyrjandinn ákveður að vera ekki með opinn huga, tekur ekki mark á né hlustar á mann, segist svo vita betur og jafnvel með hneykslunarsvip gefur í skyn að ég hljóti að vera með óráði.

Hvernig dettur fólki í hug að véfengja það þegar og ég segi að mér finnst ekkert erfitt að vera döff og að ég sé ánægð eins og ég er í dag og gerir lítið úr upplifun minni. Sumir ganga svo langt í sannfæringu sinni að slengja þeirri fullyrðingu beint í opið geðið á mér. “Það er alveg ferlegt, hræðilega erfitt og jafnvel ómögulegt að vera döff.” Ekki bara það heldur eru sumir handvissir um að lífsgæðin mín væru betri ef ég hefði þetta auka skilningarvit. Þeir gera þá allt til að sannfæra mig “Þetta er ekki rétt hjá þér, þér líður ekkert vel með að vera döff, ert bara örugglega að misskilja þessar tilfinningar þínar. Þú ert virkilega óhamingjusöm “svona”!”.

Þetta gerir það því að verkum að um leið og spurningu er skellt fram þá verð ég vör um mig og íhuga hvaða valkosti ég hef. Einstaka sinnum svamla ég strax í hafsjó tilfinninga sem spanna allan skalann, allt frá því að vera lúmskt skemmt og reyna að halda inni í mér hlátrinum, eða verða svo sár og móðguð að finna tárin renna hratt inn augnkrókanna og yfir í svo sjúklega löngun til að strunsa í burtu og skella á eftir hurðinni brjáluð af reiði.

Það er því misjafnt þá og þá stundina hvort ég er í stuði til að standa frammi fyrir þeirri gríðalegu áskorun að ræða þetta eitthvað frekar að svo komnu máli.  Einstaka sinnum velti ég því fyrir mér og reyni að meta hversu líklegt það sé að ná að skýra mál mitt þannig að það beri árangur án þess að ég verði berskjölduð eða niðurlægð. Stundum met ég það út frá því hvort börnin mín eru með í för eða ekki.

Nú er ég alls engin bómullarmamma, heldur frekar hið gagnstæða. Þau fá því að kynnast og upplifa bæði góðum og slæmum hlutum, sem skora á þau á félagslega, líkamlega og á andlega á margvíslegan hátt. Þegar ég met það svo að í þetta sinn sé ekki hægt að svara viðkomandi eða eiga frekari samskipti án þess að það bitni á börnunum mínum þá get ég valið um að ýmist leiða spurninguna hjá mér og snúa talinu að öðru eða fara og þannig gulltryggja að eftirfarandi eigi sér ekki stað, því orðræðan í svona fullyrðingum getur haft ýmis neikvæð áhrif.

  1. Fólkið, sáir efasemdarfræjum í huga barnanna minna um að lífsgæði bæði hjá eigin fjölskyldu og döff séu góð.
  2. Gert er lítið úr reynslu allrar fjölskyldunnar. Börnin eru það ung ennþá að þau eru ekki farin að gera greinarmun á því hvort viðkomandi þekki nægilega til döffernis eða táknmáls til að vera fær um að meta það hvor viðkomandi hafi rétt fyrir sér og lítur á það sem skelfileg örlög að vera döff.
  3. Börnin eru svipt þeim mikilvæga rétti að fá ekki að ráða því sjálf hvernig þau upplifa þá hluti að eiga döff foreldra eða lifa og hrærast í döff veröld dags daglega.
  4. Það sem þó er sárast og stingur hvað mest eru þau lúmsku skilaboð sem orðræðan sendir þeim. Viðkomandi er í raun að mínu mati að segja börnunum með sínum fáránlegu fullyrðingum að dómgreind okkar foreldranna og upplifun sem við metum út frá þeirri lífsreynslu af að vera döff sé ekki treystandi.

Ég er að eðlisfari mjög jákvæð, bjartsýn og úrræðagóð ásamt því að vera seinþreytt til vandræða enda mjög þolinmóð. Stundum vel ég bara svara ekki. Ég á nefnilega vondan dag stundum svo ekki verða hissa þó ég fussi og frussi í stað þess að mynda svar sem þú skilur. Dagurinn þyrfti þó að vera ótrúlega slæmur. Verulega vondur dagur væri þá til dæmis að ég sé þreytt, pirruð og ergileg eftir langa erfiða viku, stödd í miðri búðarferð, á hraðferð að multitaska í huganum öll verkefnin sem biða mín næstu daga, ásamt því í ofanálag vera að reyna að klára innkaup á methraða með þrjú ergileg börn í eftirdragi. Þá má ég og á fullan rétt á að vera ekki skælbrosandi, alveg æst af spenningi að svara misgáfulegum spurningum.

Hamingja og lífsgæði nefnilega fara ekki eftir því hversu mörg virk skilningarvit, flottan kropp, nýjan bíl eða fullkomna heyrn við höfum. Að því sögðu þá ætla ég að nefna það eina ferðina enn hversu vænt mér þykir um íslenska táknmálið, og íslenskuna. Ég upplifi mig og börnin mjög lukkuleg að geta sagst vera tvítyngd því það er eins og að hafa risa stórt tromp í erminni á öllum sviðum lífsins. Þannig að svarið er nei, það er ekki erfitt að vera með hjartatromp til að spila út hvar og hvenær sem er.

Þessi grein birtist í Kvennablaðinu 22. nóvember 2016