Maí 2015 - Riga, Lettlandi

15. - 17. maí 2015

Evrópubandalag heyrnarlausra héldu málþing og ráðstefnu í Riga í Lettlandi dagana 15. - 17. maí 2015. Heiðdís Dögg Eiríksdóttir formaður og Guðmundur Ingason varaformaður fóru fyrir hönd félagsins.

Málþing 15.maí 2015
Heyrnarlausir á atvinnumarkaði í Evrópu – Reynsla og innsýn nokkurra um stöðu heyrnarlausra á atvinnumarkaði í Evrópu.

Mr.Edgar Vorslovs, formaður LNS (landsamtaka heyrnarlausra í Lettlandi), opnaði málþingið og sagði að mikilvægt væri að efla að jafnrétti fyrir alla í atvinnulífi í Evrópu.
Mr. Adam Kósá og Ms. Helga Stevens, þingmenn í Evrópuþinginu, kynntu sín störf innan þingsins. Þau minntu okkur á að aðgengi okkar er í sumum tilvikum ólíkt aðgengismálum hreyfihamlaðra og flestra samtaka fólks með fötlun því í þeirra tilviki er hindruninni ýtt frá með einhverri varanlegri breytingu á húsnæði, tækni, byggingum, lýsingu, hljóði og fleiru en fyrir döff er táknmálstúlkun ekki varanleg breyting sem sett er inn í eitt skipti fyrir öll. Táknmálstúlkun er lykill að aðgengi fyrir bæði döff og þá sem eiga samskipti við döff og tala ekki táknmál. Það þarf alltaf að vinna í því aðgengi. Viðhorf er líka hindrun í okkar samfélagi. Það dugar ekki að gera breytingar í aðgengismálum heldur þarf líka að vinna með viðhorfið.

Ms. Aija Barca, formaður atvinnu- og félagsmálanefndar í Saeima (Alþingi), talaði um að menntun væri grundvöllur fyrir lífið sjálft. Döff í Lettlandi sem eru með menntun eru margir á lágmarkslaunum sem ýtir ekki undir jafnrétti á vinnumarkaði fyrir alla í Lettlandi. Hluti af viðhorfsbreytingu er að fræða og sýna fólki að döff sé ekki að fá sérþjónustu á meðan táknmálstúlkur er til handar við túlkun í atvinnulífi. Döff hafa tækifæri í dag til að mennta sig. Mikilvægt fyrir alla og þar á meðal döff að vinna sjálfir að þeirra grunni til að fá atvinnu við hæfi og undirbúa sig með ferilskrá, atvinnuviðtölum og þess háttar eins og aðrir þegnar í þjóðfélaginu.

Ms. Tania Tsiora, starfsmaður hjá Evrópuráðinu, fjallaði um atvinnulíf fólks með fötlun og sagði sáttmála SÞ mikilvægt vopn í baráttu fólks með fötlun fyrir jafnrétti í atvinnulífi. Sum lönd eru núna að fara á fund í Genf í Sviss vegna hliðarskýrslu SRFF. 27. gr SRFF er gott verkfæri í baráttu í atvinnulífinu. Það þarf að tryggja að atvinnurekandi beri ekki kostnað af því að ráða fólk með fötlun í vinnu, stjórnvöld þurfa að taka þá ábyrgð.

Mr. Colin Allen, formaður WFD (alheimssamtaka döff), fór yfir þróun og vinnu með SFRR. WFD hefur unnið stórt og mikið starf. Eingöngu fjögur Evrópulönd eiga eftir að fullgilda samninginn: Ísland, Finnland, Írland og Holland. Mikilvægt er að þegar búið er að fullgilda samninginn verði unnið náið með regnhlífarsamtökum við vinnslu á skuggaskýrslum. Stjórnvöld skrifa sína skuggaskýrslu sem send verður til Genf og mikilvægt er að við vinnum okkar vel þegar að því kemur.

Mr. Kasper Bergmann ræddi um sína reynslu við vinnslu á skuggaskýrslu fyrir DDL og regnhlífarsamtök í Danmörku. Hann nefndi mikilvægi þess að velja eitt sem væri áríðandi hverju sinni. Það væri auðvelt að detta niður í að skrifa langa skýrslu en til að marktækur árangur náist í Genf sé mikilvægt að takmarka valið. T.d í Danmörku var í stuttu málið valið að fjalla um að börn sem fæðast með heyrnarskerðingu eiga rétt á táknmáli óháð hvort þau nýti sér heyrnartæki eða kuðungsígræðslu eða hvorugt. Eftir 4 ár verður áherslan á eitthvað annað. Ms. Solveiga Kabaka er framkvæmdastjóri vinnumálastofnunar fyrir fólk með fötlun. Það er stofnun sem var sett á laggirnar fyrir tilstuðlan EU með styrk til að starfrækja slíka stofnun í vissan tíma. Hún talaði um vinnusamninga sem væru mikilvægir til að gefa fólki með fötlun tækifæri til að sanna sig og að atvinnurekendur gætu séð að ekkert er að óttast. Mikilvægt væri að efla virkni þeirra sem eru óvirkir og háðir bótakerfinu.

Ms. Gunta Anca, varaformaður EDF (European Disability Forum), ræddi um að mikilvægt væri að gæta varúðar þegar lesið er í tölur í tölfræði í tengslum við fólk með fötlun. Túlkunin á bakvið fötlun er breið og loðin. Þegar sagt er að fólk sem nýtir sér heyrnartæki vel sé fatlað en aðrir ekki hefur það áhrif á tölfræðina. Mörg Evrópulönd glíma við vandamál sem tengist bótum. Ef bætur eru meiri en lágmarkslaun og einstaklingur með fötlun á ekki möguleika á að fá atvinnu með hærri laun en lágmarkslaun þá fer hann síður á atvinnumarkaðinn. Hins vegar er ljóst að margir einstaklingar með fötlun hafa áhuga og vilja á að komast á atvinnumarkaðinn.

Ms. Ivars Kalnins, meðstjórnandi í LNS, kynnti fyrir okkur niðurstöður könnunnar á félagslegri stöðu döff og atvinnuleit döff ungmenna 18-30 ára í Lettlandi. Mikið er um að ungmenni leiti út fyrir Lettland að atvinnu. Á næstunni verður könnunin kynnt fyrir vinnumálastofnun í Lettlandi. Mr. Mark Weatley og Ms. Petra Söderqvist kynntu nýja bók sem EUD er að gefa út, Implementation of the UN convention on the Right of person with disabiities and employment. Bókin er til í Félagi heyrnarlausra og verður að auki í rafrænu formi á heimasíðu EUD www.eud.eu.

Aðalfundur EUD 16. - 17.maí 2015 í Riga
Markuu Jokkinen formaður EUD setti fundinn og fundarstjórinn Johan Wewmann tók við. Farið var yfir fundargerð síðasta EUD fundar í Aþenu án athugasemda. Skýrsla EUD var kynnt fyrir fulltrúum en hægt er að sjá hana inn á www.eud.eu undir Impact Report 2014 og þar eru líka góð myndbönd sem hægt er að sjá.

Framkvæmdastjóri EUD Mark Weatley kynnti fyrir okkur endurskoðaðan ársreikning 2014. Enn er beðið eftir peningum frá EU og eru EDF og fleiri samtök að bíða eftir þeim en lokaskiladagur EU er í júní. Áætlaðir ársreikningar fyrir 2015 voru kynntir án athugasemda.

Petra Söderqvist, starfsmaður hjá EUD, kynnti fyrir fulltrúum EUD undirbúningsvinnu sína við næstu bók sem stefnt er á að gefa út á næsta ári. Þar verður unnið með grein nr. 33 í SRFF.

Louise Danielsson, meðstjórnandi EUD, kynnti fjögur verkefni sem EUD vinnur að. Nexes verkefni (2015-2018), er verkefni þar sem unnið er að 112 í Evrópulöndum EU. SignTeach verkefni (2014-2015), lýkur við árslok á þessu ári. Þar er verið að vinna með táknmálskennslu í hverju landi en tekið skýrt fram að EUD leiðir ekki þetta verkefni heldur er eingöngu þátttakandi ásamt fleiri löndum.

Adam Kósa og Helga Stevens buðu öllum formönnum aðildarsamtaka í EUD á ráðstefnu í Brussel 11. nóvember 2015. Rætt verður um ósýnilega fötlun og hindranir vegna hennar oghvernig má auka vitundarvakningu varðandi Döff. Nokkur önnur mál komu upp á borð.

Nánari samantekt má líka sjá inn á www.eud.eu.