Fundargerð stjórnar

Stjórnarfundur 7. nóvember 2022, kl. 16:00

Mættir: Heiðdís, Hjördís, Þórður, Eyrún og Uldis. Ritari Daði.

1. Skýrsla formanns (ÖBÍ aðalfundur, DNR fundur, 11.febrúar, túlkaþjónusta)

  1. Skýrsla framkvæmdastjóra
  2. Styrktarumsókn frá O.N vegna leiksýningar EYJA (Daði, getur þú prentað það út)
  3. Staða og stefna Fh vegna flóttamanna. Sjá heimasíða Svíþjóð og Finnland (upplýsingapakki), Finnland með vinnu/starfshóp vegna flóttamanna.
  4. WFD Suður Kórea (kandídat til stjórnar, WFD GA og Congress)
  5. 11. febrúar?
  6. Önnur mál

1. Formaður kynnti helstu niðurstöður aðalfundar ÖBÍ sem hún og framkvæmdastjóri sátu.

DNR og DNUR fundur var haldin 4-6 nóvember í Kaupmannahöfn. Fundinum var stýrt í fyrsta sinn af hálfu Íslands og formanni félagsins. Á undan fór fram fundur NDN(nordisk döves netværk) þing. Heiðdís formaður setti á laggirnar 3x4 manna vinnuhópa sem eiga að vinna að stefnumótun DNR til næstu ára en síðustu vinnuplögg höfðu ekki verið uppfærð til margra ára og síendurtekin. Vinnuhóparnir munu síðan skila vinnu sinni sem unnið verður úr í framhaldi og næstu fundum.

Málefni döff úkraínskra flóttamanna á Norðurlöndum voru rædd og komu fram ótrúlegar tölur um mikinn fjölda döff sem komin eru til Íslands m.v. önnur Norðurlönd og lýstu fulltrúar á fundinum sem um neyðarástand væri að ræða. Á meðan hlutfall flóttamanna til annarra Norðurlanda er um 0,1% m.v. hlutfall döff í hverju landi er hlutfallið að fara vel yfir 30% á Íslandi sem vekja upp margar spurningar.

FH boðaði til umræðufundar um stöðu túlkamála í FH. Vel mætt af túlkum og túlkanemum en formaður hefði viljað sjá fleiri döff mæta á fundinn. Helstu málefni sem tekin fyrir voru 24/7 túlkaþjónusta, opinn félagssjóð fyrir allar túlkaþjónustur og gæðamál og endurmenntun fyrir túlka. Ljóst er að framhald þarf að hafa á þessum fundum til að ná betur utan um svo stórt málefni.

Félagið vann kærumál gagnvart TR en um mat á örorku og stöðlum þeim sem TR gerði kröfu á um endurmats vegna örorkugreiðslna.

Formaður kynnti Nordplus verkefnið sem var haldið á vegum FH og Siggu Völu um stöðu döff grunnskólabarna á Norðurlöndunum. Helstu umræður fjölluðu um kerfin í löndunum, samstarf foreldra og þær hindranir sem döff og foreldrar verða í námi fyrir döff.

ÍTM appið sem FH gaf út í tilefni af 60 ára afmælinu er loks komið út á playstore líka. Samþykkt var að framkvæmdastjóri gerði tillögur að því hvernig appið verði best kynnt út í samfélagið og gert verði úr þessu verkefni jákvæð ímynd í garð táknmálsins.

2. Skýrsla framkvæmdastjóra

Tillaga stjórnar að súpueldhúsið mánaðarlega verði haldið áfram til áramóta og lokið.

Gera þarf kynningarmyndband fyrir úkraínufólkið svipað því sem Heiðdís sá hjá finnsku döffsamtökunum. Uldis tilbúinn að túlka á úkraínsku.

Allar beiðnir um úthringingar fyrir döff fari í gegnum myndsímatúlkun SHH en ekki ráðgjafa FH sem á að mestu að sinna atvinnumálum félagsmanna.

Halda fast um tímasetningu opinna tíma og ekki fara yfir. Skrá fólk á biðlista fyrir næsta lausa tíma.

Framkvæmdastjóri fylgist með þróun ásóknar í FH og upplýsi stjórn.

3. Umsókn kom frá O.N leiklistahóp um fjárstyrk vegna leiksýningarinnar Eyju. Umsókn liggur fyrir neðst í fundargerð. Uldis og Hjördís sem eiga þátt í sýningunni viku af fundinum meðan umsóknin var tekin fyrir. Samþykkt var, í ljósi þess að enginn réttindi til atvinnutúlkunar eru til staðar á Íslandi, að styrkja verkefnið um 250.000 krónur. Mun framkvæmdastjóri senda orðalag með tilkynningunni um styrkinn sem fyrr segir.

4. Umræður í lið 2. og 4. Runnu saman og sameinast undir lið 2.

5. Formaður kynnti framboð til stjórnar WFD sem fara fram í kringum áramót og hvaða framboð eru þegar komin fram. Jafnframt var tilkynnt að Hjördís hefði áhuga á að bjóða sig áfram fram en óskaði samþykkis stjórnar til endurkjörs. Hún steig frá fundi á meðan málið var rætt og síðast samþykkt einróma.

6. Formaður fundaði með fulltrúa SHH og ÍTM varðandi dagskrá og verkefni í kringum afmæli og dag ÍTM 11. febrúar 2023. Formaður óskar hugmynda og tillagna frá stjórnarmönnum til að gera daginn ánægjulegan og skemmtilegan. Hlutverk skiptast ólíkt milli félaga, FH mun einblína á afmælisdagskrá, Málnefndin og SHH tengd táknmálinu og þeim verkefnum sem fylgja. Skoða youtub og fá hugmyndir.

7. Önnur mál

- Eyrún lagði fram bækling frá WFD skv beiðni Magnúsar og Sigurlínar og er það bókað að móttaka bæklinganna hafi átt sér stað.

- Eyrún segir útsendingatíma Frétta á RUV2 hafa versnað til muna vegna beinna útsendinga á stöðinni. Formaður segir að almenn kvörtun hafi verið send á RÚV en telur að best sé að kalla á fund með útvarpsstjóra sem og aðgengisnefnd. Formaður mun skoða það.

- Uldis bauðst til að útbúa könnun um fréttir á RUV2 meðal félagsmanna og var það samþykkt. Uldis mun útbúa spurningalista og senda til skoðunar meðal stjórnarmanna áður en hann verður birtur.

- Athugasemdir gerðar með loftljós og kastara í salnum. Framkvæmdastjóri mun kalla rafvirkja til að sjá hvað hægt er að gera til að minnka titring í loftljósum.

- Hjördís gerir athugasemd við að stjórnarmenn hafi ekki verið upplýstir um styrktarsöfnun sem farið var í vegna þýðinga barnabókaefnis á táknmáli. Framkvæmdastjóri tekur á sig þessa ábyrgð en tímaskortur olli því að farið var fyrr af stað og biðst afsökunar.

-

Skýrsla framkvæmdastjóra

7. nóvember 2022

1. Úkraínumál. Stjórn þarf að móta stefnu og hlutverk Félags heyrnarlausra í málefnum úkraínskra flóttamanna sem eru víst að nálgast 50 talsins. Skrifstofan hefur afmarkað opin tíma þar sem fólk getur komið og fengið upplýsingar en aðstoð sem slíka í málefnum atvinnuleitenda, húsnæðismála eru í höndum Fjölmenningaseturs þar sem við höfum vísað fólkinu. Er stjórnin með aðrar skoðanir á þessu og hvernig er þessum málum háttað t.d. á Norðurlöndunum. Ljóst er að afköst á skrifstofu FH er í hámarki núna.

2. Umsóknir sem FH hefur sent árlega til Velferðarsviðs Reykjavíkur og Félagsmálaráðuneytisins hafa verið sendar inn eins og ávallt um þennan árstíma þegar auglýstir eru styrkir til umsóknar. Má búast við töluverðum niðurskurði í veitingum styrkja frá Velferðarsviði þar sem mikill hallarekstur hefur verið á borgarsjóði. Styrkur síðasta árs var 4. milljónir króna.

3. Happdrættissala gengur vel og er áætlað að salan í haust verði á áætlun eða um 14 þúsund miðar. Dregið verður 12 desember.

4. Fótbolti hófst í íþróttahúsi Fellaskóla og var vel mætt í fyrsta tíma. Enn á eftir að samþykkja að kosta þessa starfsemi.

5. Í samtali við stjórn Bjargarsjóðs og Menntunarsjóðs er tillaga til stjórnar að endurskoða og hækka úthlutun sjóðanna. Bjargarsjóður er háður því að höfuðstóll megi ekki lækka niður fyrir 9 milljónir en Menntunarsjóð má uppfæra. Framkvæmdastjóri óskar samþykkis stjórnar að skoða þau mál.

6. Í haustauglýsingum Bjargarsjóðs og menntunarsjóðs komu ein umsókn í hvorn sjóðinn og var úthlutað til beggja aðila. Engin umsókn barst í Döff sjóðinn.

7. Kallað er á aukin útgjöld vegna mikillar fjölgunar gesta í FH. Kalla eftir ákvörðun stjórnar um slík útgjöld. Er mikil aukning á matarkostnaði vegna súpueldhúss og reksturs kaffistofu. Aukning í þjónustu t.d. leigu íþróttasalar auk annarra útgjalda. Vangaveltur til framtíðar hvort félagsmenn eru tilbúnir að hækka félagsgjöld eða eyrnarmerkja fjármagn í þennan lið?


Umsókn O.N leiklistahóps – fylgiskjal vegna liðs # 3

Komið þið sæl,

Við í O.N. sviðslistahópi erum, eins og þið væntanlega vitið, byrjuð að æfa Eyju í Þjóðleikhúsinu. Sýningin og allt ferlið er án efa mjög mikilvæg fyrir réttindabaráttu Döff og aðgengi Döff að leikhúsinu - ekki bara sem áhorfenda heldur einnig sem listamanna innan leiklistarheimsins.

Þar að auki eykur þessi vinna okkar mjög sýnileika táknmálsins, bæði hér innan veggja Þjóðleikhússins og útávið, þar sem sýningin verður til jafns fyrir bæði heyrandi og heyrnarlausa áhorfendur.

Í ljósi þeirrar umræðu sem nú er að skapast í kringum sýninguna Sem á himni í Þjóðleikhúsinu og því t.d. að þar leikur ófatlaður maður fatlaðan mann, er vera okkar í Þjóðleikhúsinu og sýnileiki okkar í listasamfélaginu enn mikilvægari, hún er beitt og á hárréttum tíma. Einn hængur er á öllu þessu. Sýningin okkar er dýr í framleiðslu, túlkakostnaður vegur þungt og við höfum þurft að bæta við okkur starfsfólki í hópinn, til að geta framleitt sýninguna á sem bestan og áhrifaríkastan hátt. Þeir styrkir sem við höfum fengið nú þegar, duga ekki fyrir þeim kostnaði sem þarf að standa straum af.Því langar okkur að athuga hvort það sé möguleiki að fá Félag heyrnarlausra enn frekar til liðs við okkur og aðstoða okkur fjárhagslega. Það er klárlega hagur Döff á allan máta að sýningin verði sem allra best, sýnilegust og skapi sem mesta umræðu. Til þess þurfum við ykkar aðstoð.Ef þess er óskað er velkomið að senda ykkur kostnaðaráætlun og nánari upplýsingar um verkið, markmið og aðferðafræði.

Bestu kveðjur, Adda Rut sviðslistakona og táknmálstúlkur