Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013
Táknmálsþulur: Hjördís Anna Haraldsdóttir
Skýrsla málnefndar um íslenskt táknmál
Inngangur
Hinn 7. júní 2011 voru lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls (nr. 61/2011) staðfest á Alþingi. Með lögunum fékk íslenskt táknmál formlega stöðu fyrsta máls þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Íslenskt táknmál er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota. Sjöunda grein laganna fjallar um Málnefnd um íslenskt táknmál. Hlutverk nefndarinnar er að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi. Í málnefndinni sitja fimm menn skipaðir af mennta- og menningarmálaráðherra. Nefndin tók til starfa í nóvember 2011.
Í þessari skýrslu verður gerð grein fyrir stöðu íslensks táknmáls eins og hún er að mati Málnefndar um íslenskt táknmál 7. júní 2013, réttum tveimur árum eftir gildistöku laganna.
Skýrslan hefst á ályktun þar niðurstaða nefndarinnar um stöðu íslensks táknmáls er dregin saman.
Að öðru leyti er umfjöllun skýrslunnar skipt í fimm hluta. Rætt er um i) stöðu íslensks táknmáls á opinberum vettvangi, ii) túlkun, rétt til túlkunar og túlkun á opinberu efni, iii) aðgang að máli, iv) málumhverfi og kennslu heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og barna heyrnarlausra foreldra og v) rannsóknir. Skýrslan endar á lokaorðum.
Ályktun Málnefndar um íslenskt táknmál
Málnefnd um íslenskt táknmál ályktar að auka þurfi stuðning hins opinbera á ýmsum sviðum til að framfylgja lögum nr. 61/2011 þannig að íslenskt táknmál og íslenska geti talist jafnrétthá tungumál til samskipta manna í milli. Samkvæmt lögunum er íslenskt táknmál fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Er það mat Málnefndar um íslenskt táknmál að táknmálið sé ekki nægilega aðgengilegt og viðurkennt á þeim stöðum sem nauðsynlegt er svo að hægt sé að framfylgja lögunum. Mikið vantar upp á að börnum sé tryggður sá aðgangur að frjóu og jákvæðu málsamfélagi sem þarf til eðlilegrar máltöku og málþroska á því skeiði í bernsku sem mestu skiptir. Til að breyta þessu þarf aðra kennsluhætti í leikskólum og grunnskólum. Auka þarf sýnileika íslensks táknmáls opinberlega og stuðning við fjölskyldur og skóla svo að táknmálið verði eðlilegur hluti af daglegu lífi í samfélagi okkar. Eins og staðan er núna líta margir á íslenskt táknmál sem eins konar byrði eða viðbótarálag fremur en þann sjálfsagða þátt í samfélaginu sem það á að vera. Til þess að döff einstaklingar geti verið fullgildir þátttakendur í samfélagi okkar á öllum sviðum og á öllum aldri þarf að tryggja betur túlkaþjónustu, styrkja framboð á menntun og efla sérfræðiþjónustu við stofnanir samfélagsins sem táknmálstalandi fólk sækir til. Þá þarf einnig að auka rannsóknir á öllum sviðum. Mikilvægast er að huga að börnunum. Tryggja þarf að þau fái gott máluppeldi og að mál þeirra sé viðurkennt og því sé sýnd virðing hvar sem er í samfélaginu. Aðeins þannig öðlast börnin sjálf jákvæð viðhorf til til síns fyrsta máls – íslensks táknmáls – og til döff menningarheims.
i) Íslenskt táknmál á opinberum vettvangi
Málsamfélag íslensks táknmáls er myndað af hópi heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks sem kallar sig döff. Döff fólk notar íslenskt táknmál til daglegra samskipta, notar sömu reglur við beitingu málsins og sjálfsmynd þeirra hverfist um málið. Íslenskt táknmál hefur lengst af verið einangrað við táknmálssamfélagið og frá fjórða áratug síðustu aldar og fram á þann níunda var það ekki notað í kennslu heyrnarlausra barna á Íslandi og foreldrum var ráðið frá því að nota táknmál í samskiptum við börnin sín. Víða um heim voru táknmál bönnuð. Enn þann dag í dag sést málið sjaldan á opinberum vettvangi.
Á RÚV er táknmálsfréttum sjónvarpað í um 10 mínútur á hverjum degi og daginn fyrir kosningar eru umræður frambjóðenda túlkaðar á íslenskt táknmál. Í málstefnu Stjórnarráðs Íslands kemur fram að grunnupplýsingar um starfsemi ráðuneytanna eigi að vera aðgengilegar á íslensku táknmáli og leitast sé við að fréttir, fræðsluefni, kynningarefni og annað efni stjórnarráðsins ætlað íslenskum borgurum sé aðgengilegt á íslensku táknmáli ef þörf krefur.1 Á vef nokkurra ráðuneyta má nálgast grunnupplýsingar á táknmálsviðmóti en þó vantar enn á að öll ráðuneyti og helstu opinberar stofnanir hafi þýtt upplýsingar á íslenskt táknmál.
Vitundarvakning er mikilvægur liður í styrkingu á stöðu íslensks táknmáls hér á Íslandi. Efla þarf fræðslu um íslenskt táknmál í samfélaginu og gera það sýnilegt á sem flestum sviðum. Þar er sjónvarpið mikilvægur miðill og mætti RÚV taka ríkissjónvarpsstöðvar annars staðar á Norðurlöndum sér til fyrirmyndar á því sviði. En þar eru, svo að dæmi sé tekið, þættir sem fjalla eingöngu um fólkið sem myndar táknmálssamfélagið í viðkomandi landi, viðtalsþættir við döff fólk, fréttir á táknmáli eru raddsettar beint af táknmálstúlki, teknar upp með tveimur vélum og með fréttamyndum, unglingaþættir eru að minnsta kosti einu sinni í viku og barnaefni einnig. Að sögn formanns Félags heyrnarlausra hefur fréttauppsetningin á RÚV verið eins frá upphafi og nýverið hefur verið farið fram á það við félagið að leggja niður táknmálsfréttir þar sem aukning hefur orðið á fréttatengdu efni á læsilegu formi á vefmiðlum. Félagið er alfarið á móti því að leggja niður táknmálsfréttir þar sem táknmálsfréttir í sjónvarpi er mikilvæg opinber birting á málinu fyrir íslenska þjóðfélagsþegna auk þess sem íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra á Íslandi. Íslenska ritmálið er annað mál þeirra og þeim ekki eins aðgengilegt. Það er mat Málnefndar um íslenskt táknmál að frekar þurfi að efla dagskrárgerð á íslensku táknmáli, s.s. með barnaefni, umræðuþáttum, leiknu efni og fræðsluefni, bæði til að auka opinbera birtingu málsins en ekki síst til að stuðla að málörvun heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og barna heyrnarlausra foreldra.
Aukning hefur orðið á túlkun á íslenskt táknmál við opinbera viðburði, sem þakka má vitundarvakningu og góðu samstarfi við skipuleggjendur viðburða, en það er álit formanns Félags heyrnarlausra að stöðugt þurfi að halda áfram að fræða landsmenn um að fólk sem talar íslenskt táknmál vilji vera þátttakendur í samfélaginu og um mikilvægi þess að koma til móts við það. Jólatónleikar í Langholtskirkju, þar sem hægt er að njóta söngs á íslensku táknmáli og íslensku, eru árviss viðburður. Menningarnótt Reykjavíkurborgar hefur ýmsa viðburði á íslensku táknmáli, túlkað er á þjóðhátíðardeginum og listahátíðum svo að dæmi séu tekin.
1 Málstefna Stjórnarráðs Íslands. 2012. Stjórnarráð Íslands, Reykjavík. [Stefnan er aðgengileg á vefsíðu Stjórnarráðsins: http://www.stjornarrad.is/raduneyti/stefnur/nr/495 ]. Hér kafli 2.2.
ii) Túlkun, réttur til túlkunar og túlkun á opinberu efni
Túlkaþjónusta varð aðgengileg fyrir döff fólk þegar Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra var stofnuð 31. desember 1990. Hefur aðgangur að þjónustu aukist með hverju ári síðan, ekki síst eftir að Háskóli Íslands brautskráði fyrstu táknmálstúlkana árið 1997 en nú hafa verið brautskráðir yfir 40 túlkar frá skólanum. Réttur til túlkaþjónustu fyrir döff einstaklinga hefur smám saman aukist á þessum árum, að mestu vegna baráttu Félags heyrnarlausra sem ítrekað hefur látið reyna á rétt til þjónustunnar hjá stjórnvöldum og fyrir dómstólum.2 Lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga fela í sér að sá sem notar táknmál hefur rétt til túlkaþjónstu í samskiptum við heilbrigðisstarfsmenn, sbr 4. mgr. 5. gr. laganna. Hefur þó ekki reynt á hvert inntak þessa réttar er. Að mati deildarstjóra túlkaþjónustu Samskiptamiðstöðvar hafa lög nr. 61/2011 ítrekað rétt til túlkunar án þess að skýra réttinn frekar heldur virðast lögin hafa haft þau áhrif að opinberir aðilar eru tilbúnari til þess að greiða fyrir þjónustuna. Enn eru þó að mati deildarstjórans nokkur svið þar sem óljóst er um rétt döff fólks til túlkunar, t.a.m. í atvinnulífi, í einkaskólum og í ferðum erlendis. Því er mikilvægt að skýrar sé kveðið á í lögum um rétt til túlkaþjónustu og hverjum beri að standa straum af kostnaði við hana.
Á málþingi um atvinnulíf heyrnarlausra á Norðurlöndum, sem haldið var á vormisseri 2013, kom fram að hér á Íslandi eigum við enn langt í land til að tryggja túlkun í atvinnulífi. Fólk, sem reiðir sig á táknmál til daglegra samskipta, getur stundað nám með táknmálstúlki en eftir námslok er því ekki tryggð túlkun í atvinnulífinu. Atvinnurekendur hafa sagt að þeir komist ekki hjá því að taka með í reikninginn kostnað vegna túlkaþjónustu fyrir starfsmann sem þarf að reiða sig á túlk til samskipta. Það hindrar því aðgang döff fólks að vinnumarkaði ef stjórnvöld tryggja ekki túlkaþjónustu í atvinnulífi.
Einnig er mikilvægt að tryggja fé til fjarskiptatúlkunar sem gæti aukið verulega möguleika táknmálstalandi fólks til þátttöku og sparað fé á ýmsum sviðum þar sem hægt er að hringja í túlkaþjónustu en ekki þarf að kalla túlk á vettvang.
Döff fólk fær nú túlkaþjónustu sér að kostnaðarlausu vegna samskipta á íslensku táknmáli við flestar aðstæður daglegs lífs. En réttur til þjónustu táknmálstúlks er samt sem áður ekki tryggður í lögum vegna þátttöku í daglegu lífi og atvinnulífi. Þar gæti fjarskiptatúlkun nýst að verulegu leyti. Sömuleiðis eiga táknmálstalandi einstaklingar ekki rétt á túlkun vegna þátttöku erlendis.
2 Sjá H.151/1999 og dóm Héraðdóms Reykjavíkur í máli E-4873/2005.
iii) Aðgangur að máli
Í 3. gr. laga nr. 61/2011 segir að íslenskt táknmál sé fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Margt bendir til þess, að mati Málnefndar um íslenskt táknmál, að börn, sem þurfa að reiða sig á íslenskt táknmál til samskipta, hafi ekki nægjanlega góðan aðgang að málsamfélagi á táknmáli til þess að ná að þroska og þróa íslenskt táknmál sem fyrsta mál. Þá hefur lítið verið hugað að stöðu og réttindum barna sem eru heyrandi og alast upp við táknmál sem sitt fyrsta mál. Ljóst er að gera þarf frekari athugun á stöðu barnanna í íslensku táknmáli, viðurkenningu á íslensku táknmáli í umhverfi þeirra og aðgang að málinu. Nánar verður fjallað um stöðu íslensks táknmáls í lífi barna í næsta kafla.
Þótt aðgangur að túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku hafi aukist stöðugt á undanförnum áratugum kemur fram í skýrslu nefndar á vegum forsætisráðuneytistins um starfsemi Heyrnleysingjaskólans að heyrnarlaust fólk hefur ekki fullnægjandi aðgang að félags- og geðheilbrigðisþjónustu, kennsluráðgjöf og öldrunarþjónustu á íslensku táknmáli.3 Ástæða þess er að fagfólk hefur litla sem enga þekkingu á íslensku táknmáli og málefnum heyrnarlausra. Til þess að breyta þessari stöðu er nauðsynlegt að gera átak í menntun starfsfólks, bæði döff og heyrandi, sem vinnur að þjónustu við táknmálssamfélagið, svo sem almennra kennara, táknmálskennara og starfsfólks í félags- og heilbrigðisþjónustu. Stórauka þarf fjárframlög til uppbyggingar námsins og til að styrkja hæfa döff nemendur til menntunar og starfa á þessu sviði. Þá þarf að stórauka fjárframlög til uppbyggingar náms í íslensku táknmáli fyrir aðstandendur döff barna og stuðning við þá vegna vinnutaps sem tengist náminu. Í því samhengi mætti líta til nágrannalandanna en í Noregi er t.a.m. boðið upp á ókeypis kennslu í táknmáli. Öllum foreldrum heyrnarlausra eða alvarlega heyrnarskertra barna er boðið á 40 vikna táknmálsnámskeið yfir 16 ára tímabil.4 Samkvæmt lögum þar í landi standa opinberir aðilar straum af öllum kostnaði í tengslum við námskeiðshaldið, þ.e. ferðir, uppihald og kennslu auk þess sem vinnutap foreldranna er bætt og þeir fá greidda dagpeninga samsvarandi sjúkradagpeningum á meðan á námi stendur.5
Samkvæmt lögunum nr. 61/2011 er það hlutverk stjórnvalda að hlúa að íslensku táknmáli og styðja að öðru leyti við menningu döff fólks. Íslenskt táknmál lifir í málsamfélagi og nærist á því að vera notað af hópi fólks sem talar málið, deilir sömu menningu og mótar sjálfsmynd sína í málsamfélaginu. Til þess að hver sem hefur þörf fyrir táknmál eigi þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, þarf sá hinn sami að komast í tengsl við málsamfélagið sem málið lifir í. Ríki og sveitarfélög þurfa því að sjá til þess að þeir sem hafa þörf fyrir íslenskt táknmál hafi aðgang að táknmálssamfélagi til þess að eiga dagleg samskipti á málinu.
Ljóst er að mikið vantar á að sveitarfélög um allt land stuðli að kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji við menningu, menntun og fræðslu táknmálstalandi fólks. Nú er íslenskt táknmál kennt í mismunandi miklum mæli í sjö grunnskólum á landinu. Íslenskt táknmál þarf að vera aðgengilegt þeim sem reiða sig á það og viðurkennt af þeim sem skipuleggja menntun og þjónustu.
3 Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Áfangaskýrsla nr. 1. Könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans 1947-1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965-1984 og skólaheimilisins Bjargs 1965-1967. 2009. Forsætisráðuneytið, Reykjavík. [Skýrslan er aðgengileg á vef forsætisráðuneytisins: http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/2009-09-afangaskyrsla1-konnun-barnaheimila.pdf ]. Hér bls. 387-388.
4 Statped. Stadlig spesialpedagogisk tjeneste. 2011. Se mitt språk - tegnspråkopplæring for foresatte. Sótt 4. júní 2013 af http://www.statped.no/Tema/Horsel/Tjenester/Tegnsprakopplaring-for-foresatte/ .
5 i) Lov om Folketrygd nr. 19/1997.
ii) Arbeidsmiljølovens nr. 67/1996
iv) Málumhverfi og kennsla heyrnarlausra og heyrnarskertra barna og barna heyrnarlausra foreldra
Margir fræðimenn hafa bent á að stærsta vandamál barna með skerta heyrn sé að ráða ekki við samskipti í hóp.6 Þau ná ekki að fylgja samskiptunum í hópnum, missa af óformlegum upplýsingum sem skapa þekkingu á félagslegum venjum og félagslegri þátttöku og þetta leiðir til félagslegrar einangrunar þeirra. Börnin ná því ekki þeirri félagslegu og menningarlegu þekkingu sem heyrandi börn og fullorðnir fá án afláts úr umhverfi sínu. Heyrnarlaus og heyrnarskert börn hafa í allflestum tilvikum fengið seina máltöku sem hefur áhrif á allan þroska þeirra síðar í lífinu. Sérstaklega hefur þessi staða, að mati Claire Ramsey (2001), neikvæð áhrif á námsgengi og skólagöngu. Flestir döff nemendur koma inn í skóla með miklu verri samskiptafærni en heyrandi nemendur og eru ekki jafn tilbúnir til þess að takast á við verkefni skólans. Ramsey bendir á að ekki sé hægt að veita grunnskólamenntun í gegnum túlk. Hægt sé að túlka fyrirlestra en alls ekki samtalið með spurningum og svörum, í lægri bekkjum grunnskólans, sem á sér stað milli nemenda innbyrðis og milli nemenda og kennara. Í gegnum þessi samskipti fá börnin færni í samskiptum og máli. Túlkur gerir hér og nú-samskipti möguleg á milli döff og þeirra sem kunna ekki táknmál en túlkar ráða ekki við að túlka allar samræður, til dæmis það sem ekki er sagt eða hvernig eitthvað er sagt, óskrifaðar samskiptareglur og að miðla menningarfærni. Aðrir fræðimenn hafa bent á að í kennslu barna sem alast upp við tvítyngi sé mikilvægt að móðurmálið eða fyrsta mál nemanda sé kennslumál þar sem kennsla á meirihlutamálinu standi í vegi fyrir námi.7 Skólar fyrir börn sem tilheyra málminnihlutahópum og nota mál meirihlutans sem aðalkennslumál ná ekki markmiðum um mannréttindi fyrir minnihlutanemendurna og þannig rétti þeirra til menntunar. Í ljósi rannsókna á börnum úr málminnihlutahópum ætti einnig að skoða gengi barna heyrnarlausra foreldra í skóla og hvort huga þurfi að rétti þeirra til þess að sækja kennslustundir sem kenndar eru á íslensku táknmáli.
Á árunum 2006-2009 var gerð rannsókn á færni 31 heyrandi barns döff foreldra í íslensku táknmáli.8 Fram kom að 7 börn kunnu ekki táknmál, þrjú börn kunnu stök tákn og 21 barn gat gert sig skiljanlegt á málinu en ekkert barn hafði aldurssvarandi færni í málinu. Niðurstöður rannsóknar Agnesar Steinu Óskarsdóttur sýna að úr hópi 13 heyrandi barna döff foreldra hafði aðeins eitt þeirra aldurssvarandi færni í íslensku táknmáli.9
Í MA-ritgerð Guðbjargar Ragnarsdóttur um táknmálssvið Hlíðaskóla kemur fram að staða táknmálsins hafi veikst eftir að Vesturhlíðarskóli var lagður niður. Í Hlíðaskóla sé áhersla á læknisfræðilega nálgun en hún stefnir að því að bæta upp heyrnarleysið og að markmiðið sé fyrst og fremst að börnin nái færni í íslensku.10
Málnefnd um íslenskt táknmál hefur hafið athugun á mállegri stöðu barna sem þurfa að reiða sig á táknmál til samskipta. Þann 15. júní 2012 sendi nefndin leikskólanum Sólborg fyrirspurn þar sem óskað var eftir upplýsingum um stefnu leikskólans í máluppeldi og tvítyngi barna með heyrnarskerðingu í ljósi laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Í svarbréfi leikskólans frá 28. júní 2012 kemur fram að erindinu hafi verið vísað til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og þess farið á leit við sviðið að kallað verði til fundar með hlutaðeigandi aðilum svo að hægt væri að fara yfir þær skyldur sem lögin leggja sveitarfélögum á herðar. Skóla- og frístundasvið hefur enn ekki boðað til umrædds fundar en Málnefnd um íslenskt táknmál barst svarbréf 5. febrúar 2013. Þar er vísað til úttektar á starfi leikskólans Sólborgar í Reykjavík sem unnin var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2010, ári áður en lög nr. 61/2011 voru samþykkt. Í úttektinni segir að „leikskólinn Sólborg [starfi] samkvæmt kenningum og aðferðum heildtækrar skólastefnu og [leggi] áherslu á jafnrétti og virðingu og að öll börn fái nám við hæfi; nám án aðgreiningar“ (bls. 16).11 Í svarbréfi Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir að í þessari úttekt hafi verið lagt mat á menntun fatlaðra barna, notkun íslensku og íslensks táknmáls, ásamt ráðgjöf til leikskóla vegna heyrnarskertra og heyrnarlausra barna. Þá er í svarbréfinu einnig vísað til þess að stefna leikskólans Sólborgar sé að stuðla að sameiginlegu námi heyrnarlausra/heyrnarskertra og heyrandi barna. Þessi stefna er í samræmi við stefnu Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar sem fylgt er í grunnskólum. Í bréfinu segir enn fremur að með tilkomu Skóla- og frístundasviðs sé „verið að skoða hvort endurskoða þurfi stefnu um máluppeldi tvítyngdra barna með heyrnarskerðingu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum“.
Málnefnd um íslenskt táknmál sendi Skóla- og frístundasviði bréf 22. maí 2013 þar sem þess er farið á leit við sviðið að haft verði samráð við sérfræðinga hjá Félagi heyrnarlausra og á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra ef til endurskoðunar á stefnu um máluppeldi tvítyngdra barna með heyrnarskerðingu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum kemur.
Samkvæmt þessu er ljóst að ekki hafa orðið breytingar á stefnu eða starfi leikskólans Sólborgar í kjölfar laga nr. 61/2011 enda ekki ljóst, eins og segir í svarbréfi leikskólans við erindi Málnefndar um íslenskt táknmál, hvaða skyldur lögin leggja á herðar sveitafélögunum. Þó er ljóst að ef marka má fyrrgreinda úttekt líta Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og leikskólinn Sólborg svo á að börn við leikskólann njóti jafnra réttinda til náms þrátt fyrir að heyrnarskertu og heyrnarlausu börnin hafi ekki fullan aðgang að málsamfélagi leikskólans. Með þessu er hér átt við að málsamfélag leikskólans virðist fyrst og fremst vera íslenskt en blandað íslensku táknmáli.
Rétt er í því sambandi að benda á að samkvæmt 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eiga döff börn rétt á að sérstök menningarleg samsemd heyrnarlausra og samsemd með tilliti til táknmáls sé viðurkennd og njóti stuðnings.12
Í stefnu Skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, nú Skóla- og frístundasviðs, um skóla án aðgreiningar frá 2012 kemur fram að skólasamfélag megi ekki vera sniðið að þörfum ákveðinna samfélagshópa eða jaðarhópa og einkennast af þeim viðhorfum sem ríkja meðal þeirra.13 Jafnframt stendur þar að við Hlíðaskóla sé táknmálssvið fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta nemendur og stefnt sé að því að nemendur verði tvítyngdir við lok grunnskóla. Allir nemendur á táknmálssviði eru einnig nemendur í almennum bekkjum þar sem nám þeirra er skipulagt af kennurum táknmálssviðs og kennurum viðkomandi bekkja í samráði við foreldra.14
Stefna Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um skóla án aðgreiningar (bls. 14) gæti gengið þvert á rétt barna sem þurfa að reiða sig á íslenskt táknmál og ná menningarfærni og samsemd innan döff menningar.15 Með stefnu skóla án aðgreiningar gætu í tilviki döff barna orðið til aðgreinandi hindranir að íslensku táknmáli, þroska og menntun. Í skólastefnunni er ekki talað um að skapa táknmálssamfélag innan skólans. Til þess að eignast sterkt mál þurfa börnin á íslensku táknmálssamfélagi að halda. Ef skólastefna tryggir börnunum ekki aðgang að sérstöku málsamfélagi til að ná máltöku og kennslu á málinu sem barnið þarf að reiða sig á er hætta á að með því sé barninu synjað um aðgang að menntun. Í skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna um börn sem tilheyra minnihlutahópum kemur fram að ef kennslumál er barninu framandi og kennarinn hefur ekki rétta menntun til þess að gera efnið aðgengilegt hefur barn ekki aðgang að menntun.16 Þegar kennsla er skipulögð fyrir börn sem hafa kennslumálið að móðurmáli en ekki samkvæmt þörfum barns sem tilheyrir minnihlutamáli, hefur barnið ekki aðgang að menntun. Við slíkar aðstæður segir Katarina Tomaševski (2004) að til verði samþættar mállegar, kennslufræðilegar og sálrænar hindranir að menntun. 17 Kenneth Hyltenstam, prófessor í tvítyngi við háskólann í Stokkhólmi, leggur áherslu á að mikilvægt sé fyrir samfélög að fjárfesta í táknmáli (Hyltenstam 1994). Það sé leið að þeirri auðlind sem felst í döff fólki. Ef ekki er fjárfest verulega í málinu muni einstaklingar, sem tala táknmál, verða háðir samfélaginu í stað þess að skila verðmætum til þess.18 Aðrir helstu sérfræðingar heims um tvítyngi og málréttindi leggja ríka áherslu á mikilvægi skólans í þróun málsins í tilviki barna með tvítyngi táknmáls og raddmáls.19
Málvísindastofnun Háskóla Íslands bauð nýverið Diane Lillo-Martin, prófessor í málvísindum við Háskólann í Connecticut, hingað til lands. Hún hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á máltöku og málþroska heyrnarlausra barna í Bandaríkjunum. Hún telur mikilvægt fyrir máltöku íslenskra heyrnarlausra og heyrnarskertra barna að þau myndi saman málumhverfi, óháð aldri, þar sem þau geta þroskað mál sitt og félagshæfni. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, tók í sama streng í fyrirlestri sínum um áhrif málumhverfis á málþroska barna á degi íslenska táknmálsins, 11. febrúar 2013. Þar sagði hún að heyrnarlaus börn þyrftu á öflugu táknmálsumhverfi að halda frá fyrstu tíð til þess að málþroski þeirra yrði eðlilegur og að tryggja þyrfti að heyrnarlaus börn fengju þá málörvun og þær málfyrirmyndir sem væru þeim nauðsynlegar til að tileinka sér málið sitt, íslenskt táknmál.
Málnefnd um íslenskt táknmál telur áhersluna á samkennslu heyrandi og heyrnarlausra barna í leik- og grunnskóla geta haft neikvæð áhrif á máltöku heyrnarlausra og heyrnarskertra barna. Í slíku blönduðu málumhverfi er hætta á að börnin hafi ekki greiðan aðgang að félagslegum samskiptum og það getur leitt til þess að þau nái ekki fullkomnum tökum á máli. Málnefndin telur táknmálsumhverfi langfarsælustu leiðina til að börnin þroskist á sviði vitsmuna, tilfinninga og samskipta. Þannig þarf leikskólinn og grunnskólinn að mynda lítið málsamfélag allra þeirra barna sem þurfa að reiða sig á táknmál til samskipta og barna heyrnarlausra foreldra.
Lítið er til af gögnum sem segja til um hver raunveruleg staða á málumhverfi, máluppeldi og kennslu heyrnarskerta og heyrnarlausra barna er. Þá liggur ekki fyrir úttekt á því hvort hlutaðeigandi stofnanir sinni skyldu sinni samkvæmt 3. gr. laga nr.61/2011 en þar segir m.a. að „íslenskt táknmál [sé] fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“ Málnefnd um íslenskt táknmál hefur þó rökstuddan grun um að víða sé pottur brotinn í stefnumótun um málumhverfi og máluppeldi bæði heyrnarskerta/heyrnarlausra barna og barna heyrnarlausra foreldra hér á landi.
Málnefndin hefur því hafist handa við að safna gögnum hvað þetta varðar og mun beita sér fyrir úttekt á málumhverfi þessara barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimildum og gera tillögur um úrbætur.
Afla þarf upplýsinga um stöðu þessara barna í skóla- og námssamfélaginu á grundvelli táknmáls. Athuga þarf hvernig táknmálsumhverfi er í skólum landsins, þar sem heyrnarlaus/heyrnarskert börn og börn heyrnarlausra foreldra stunda nám. Kanna þarf mállegar aðstæður barna sem þurfa að reiða sig á táknmál til samskipta og hvernig þær þurfa að vera til þess að íslenskt táknmál geti verið fyrsta mál þeirra. Kanna má menntunarstöðu kennara sem kenna námsgreinar á táknmáli og hver kunnátta þeirra í íslensku táknmáli er. Þá þarf einnig að kanna kennsluhætti, hvert kennslumálið er í öllum námsgreinum, hvernig kennslu í fyrsta máli er háttað og hvaða aðstæður táknmálssamfélagi eru skapaðar. Á grunnskólastigi þarf einnig að athuga hvaða áhrif skóli án aðgreiningar hefur á táknmálsumhverfi fyrir þessa nemendur og hvaða stuðning skólinn fær til þess að mæta þörfum barnanna. Eftir að fyrirhuguð úttekt liggur fyrir verður stjórnvöldum gefinn tími til að bregðast við henni og mun málnefndin síðan skila af sér skýrslu 7. júní 2014 þar sem gerð verður grein fyrir viðbrögðum stjórnvalda við úttekt málnefndarinnar.
6 i) Gregory, Susan, Juliet Bishop og Lesley Sheldon. 1995. Deaf Young People and their Families: Developing Understanding. Cambridge University Press, Cambridge.
ii) Foster, Susan, Gary Long og Karen Snell. 1999. Inclusive Instruction and Learning for Deaf Students in Postsecondary Education. Journal of Deaf Studies and Deaf Education 4,3:225-235.
iii) Ramsey, Claire. 2001. Beneath the Surface: Theoretical Frameworks Shed Light on Educational Interpreting. Odyssey 2,2:19–24.
iv) Valgerður Stefánsdóttir. 2005. Málsamfélag heyrnarlausra: Um samskipti á milli táknmálstalandi og íslenskutalandi fólks. MA-ritgerð í uppeldis- og menntunarfræði. Háskóli Íslands, Reykjavík.
7 i) Skutnabb-Kangas, Tove. 1994. Linguistic Human Rights: A Prerequisite for Bilingualism. Í I. Ahlgren og K. Hyltenstam (ritstj.). Bilingualism in Deaf Education. International Studies on Sign Language and Communication of the Deaf, vol. 27, bls. 139-159. Signum-Verlag, Hamburg.
ii) Thomas, Wayne P. og Virgina P. Collier. 2002. A National Study of School Effectiveness for Language Minority Students. Long Term Academic Achievement. George Mason University, CREDE (Center for Research on Education, Diversity & Excellence), VA. Sótt þann 4. júní 2013 á http://escholarship.ucop.edu/uc/item/65j213pt#page-1 .
iii) Tomaševski, Katarina. 2004. Economic, social and and cultural rights. The right to education. Skýrsla flutt af Katarina Tomaševski. Mannréttindanefnd Efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna, 60. fundur, mál 10 á bráðabirgðadagskrá, 17. febrúar Report submitted by the Special Rapporteur Katarina Tomaševski. United Nations, Economic and Social Council, Commission on Human Rights, Sixtieth session Item 10 on the provisional agenda, 17 February. Sótt 4. júní 2013 á http://webcache.googleusercontent.com/ .
8 Málþroski barna sem alast upp í tvítyngi táknmáls og íslensku. Lokaskýrsla. Táknmál. 2009. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík.
9 Agnes Steina Óskarsdóttir. 2012. Athugun á málþroska íslenskra CODA barna: Samanburður við tvítyngd börn af erlendum uppruna og börn með dæmigerðan málþroska. MA-ritgerð í talmeinafræði. Háskóli Íslands, Reykjavík.
10 Guðbjörg Ragnarsdóttir. 2009. Stundum er gott að hlusta: Rannsókn á hugmyndum og skoðunum heyrnarlausra um „blöndun“ heyrnarlausra í skólum. MA-ritgerð í uppeldis- og menntunarfræði. Háskóli Íslands, Reykjavík.
11 Bryndís Guðmundsdóttir og Sigurlaug Bjarnadóttir. 2010. Úttekt á starfi leikskólans Sólborgar í Reykjavík. Skýrsla unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík.
12 Samningur um réttindi fólks með fötlun. 2007. Sameinuðu þjóðirnar. Sótt 4. júní 2013 á http://www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-skjol/Samningur_fatladra.pdf .
13 Hrund Logadóttir, Steinunn Ármannsdóttir og Sara Björg Ólafsdóttir (ritstj.). 2012. Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur. Stefna skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar, Reykjavík. Hér bls. 14.
14 Sama heimild, bls. 30.
15 Sama heimild, bls. 14.
16 Magga, Ole Henrik, Ida Nicolaisen, Mililani Trask, Tove Skutnabb-Kangas og Robert Dunbar. 2005. Indigenous Children's Education and Indigenous Languages. Skýrsla unnin af sérfræðingum fyrir fastanefnd Sameinuðu þjóðanna í málefnum innfæddra [Expert paper written for the United Nations Permanent Forum on Indigenous Issues]. Sótt 4. júní 2013 á http://www.pieducators.com/files/PFII-indigenous-childrens-education.pdf
17 Tomaševski, K. (2004). Economic, social and and cultural rights. The right to education. (Skýrsla flutt af Katarina Tomaševski fyrir mannréttindanefnd Efnahags – og Félagsmálaráðsins, 60. fundur, mál nr. 10 á dagskrá ) Report submitted by the Special Rapporteur Katarina Tomaševski. Economic and Social Council, Commission on Human Rights, Sixtieth session Item 10 on the provisional agenda. E/CN.4/2004/45. 26 December 2003.
18 Hyltenstam, K (1994), Factors Influencing the Social Role and Status of Minority Languages. Í I. Ahlgren og K. Hyltenstam (Ritstjórar). Bilingualism in deaf education, International studies on Sign Language and Communication of the Deaf, 27 (bls. 297-310). Signum-Verlag, Hamburg.
19 i) Skutnabb-Kangas, Tove. 1994. Linguistic Human Rights: A Prerequisite for Bilingualism.
ii) Magga, Ole Henrik, Ida Nicolaisen, Mililani Trask, Tove Skutnabb-Kangas og Robert Dunbar. 2005. Indigenous Children's Education and Indigenous Languages.
v) Rannsóknir
Síðan Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra var stofnuð í lok árs 1990 hafa verið stundaðar rannsóknir á íslenska táknmálinu. Þær rannsóknir voru í byrjun hagnýtar og sjaldnast birtar. Í dag eru fræðilegar rannsóknir á íslensku táknmáli í örum vexti bæði innan Samskiptamiðstöðvar og við Háskóla Íslands. Rannsóknastofa í táknmálsfræðum, sem stofnuð var árið 2011, er samstarfsvettvangur Samskiptamiðstöðvar og táknmálsfræði við Háskóla Íslands. Þar er unnið ötult starf að rannsóknum á íslensku táknmáli. Rannsóknarsviðum hefur fjölgað og hafa verið unnar grunnrannsóknir á nokkrum sviðum málvísinda, sérstaklega setningafræði og orðhlutafræði. Undir formerkjum rannsóknastofunnar hefur verið sótt um ýmsa styrki til áframhaldandi rannsókna og hefur það skilað sér í auknu fjármagni til rannsókna. Í dag hafa verið skrifaðar sjö meistararitgerðir um íslenskt táknmál innan ólíkra sviða málvísinda og þrjár um túlkun, mál og málsamfélag eða tvær á sviði félagsvísinda og ein á sviði heilbrigðisvísinda. Í dag starfa sex málfræðingar að rannsóknum á íslenska táknmálinu. Yfirlitsgrein um málfræði íslenska táknmálsins birtist í 34. hefti tímaritsins Íslenskt mál og almenn málfræði, sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.20
Á Samskiptamiðstöð hefur verið unnið að þróun matstækja til þess að meta málfærni í táknmáli. Í upphafi var þýtt breskt málskilningspróf í táknmáli, gert táknaforðapróf og einnig var gerð tilraun með að nota málþroskapróf ætlað fyrir íslensku. Á árunum 2006-2009 var síðan unnið að þróun málþroskaprófs fyrir táknmál með styrk frá Rannís. Árið 2010 var byrjað að gera kerfisbundið stöðumat á færni í táknmáli. Frá stofnun Samskiptamiðstöðvar hefur verið safnað gögnum um þróun málfærni í táknmáli til þess að hægt verði smám saman að þróa málþroskamat sem miðar við eðlilegan málþroska.
Fræðimenn, sem stunda rannsóknir á íslensku táknmáli, hafa í auknum mæli gert sig gildandi á alþjóðlegum vettvangi. Þannig héldu tveir fræðimenn erindi um íslenskt táknmál og málsamfélag þess 2012, á ráðstefnu og í faghópi við erlendan háskóla. Árið 2013 verða rannsóknir á íslensku táknmáli kynntar á tveimur erlendum ráðstefnum auk þess sem vinna við tvær greinar um málfræði íslensks táknmáls, sem birtast munu í erlendum greinasöfnum, stendur yfir. Í maí 2013 var haldin alþjóðleg málvísindaráðstefna hér landi þar sem var sérstök málstofa um rannsóknir á táknmálum. Fræðimenn frá ýmsum löndum sóttu og kynntu rannsóknir sínar á fjölmörgum táknmálum. Þar á meðal var dr. Elisabeth Engberg-Pedersen sem var einn af þremur boðsfyrirlesurum ráðstefnunnar. Tveir fyrirlestrar um íslenskt táknmál voru fluttir á ráðstefnunni. Þá kom hingað til lands í boði Málvísindastofnunar Háskóla Íslands dr. Diane Lillo-Martin og kynnti rannsóknir sínar fyrir íslenskum málfræðingum auk þess að sitja málstofu með þeim sem vinna að íslensku táknmáli og kynna sér rannsóknir þeirra. Meðlimir Rannsóknastofu í táknmálsfræðum og starfsfólk Samskiptamiðstöðvar taka einnig þátt í evrópskum samstarfsverkefnum. Það má því segja að íslenskt táknmál og rannsóknir á því hafi fengið mikla útbreiðslu í alþjóðafræðasamfélaginu og hefur staða þess aldrei verið sterkari innan þess sviðs.
Mikilvægt er að rannsóknir á íslensku táknmáli skili sér inn í málsamfélagið í bættum aðgangi að máli og í aukinni vitund um mikilvægi táknmálsins sem fyrsta máls þeirra sem á því þurfa að halda. Víðtækra rannsókna er þörf, bæði á málkerfi íslensks táknmáls og á máltöku og málþroska barna sem hafa íslenskt táknmál sem fyrsta eða annað mál. Samþætting málfræðirannsókna við rannsóknir á sviði kennslu- og uppeldisfræða er einnig mikilvæg svo að skilningur og þekking á kennslu íslensks táknmáls aukist. Rannsóknir á íslensku táknmáli og málsamfélaginu skapa þekkingu sem er grunnur undir menntun og þjónustu á sviði táknmáls og táknmálssamskipta. Rannsóknir á máltöku barna og þróun máls veita til dæmis þekkingu á ferli máltökunnar og þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi. Þekkingin, sem skapast, verður síðan grunnur að snemmtækri íhlutun, námskrárgerð, menntun kennara o.s.frv. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi rannsóknir og stöðugleika á því sviði. Í dag eru rannsóknirnar og störf þeirra sem að þeim vinna að miklu leyti háð styrkjum hverju sinni sem gerir langtímaáætlanir og langtímarannsóknir erfiðar. Til að vel megi vera er nauðsynlegt að fjölga stöðugildum í rannsóknum. Einnig er mikilvægt að tryggja að skrif og erindi, sem birta niðurstöður rannsókna á íslensku táknmáli og málsamfélaginu, séu aðgengilegar döff einstaklingum með þýðingum og túlkun hverju sinni.
20 Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir. 2012. Málfræði íslenska táknmálsins. Íslensk mál og almenn málfræði 34, bls. 9-52.
Lokaorð
Ljóst er að staða íslensks táknmáls er ekki sterk á Íslandi. Mesta hættan, sem málsamfélag táknmálsins stendur frammi fyrir, varðar aðgang barna að málinu. Með lokun Vesturhlíðarskóla var málsamfélagi eytt. Til þess að íslenskt táknmál geti staðið sem fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra verður málið að vera aðgengilegt í málsamfélagi þar sem það er notað af ólíkum einstaklingum á fjölbreyttan hátt. Innan skólakerfisins þarf að vera til slíkt málsamfélag og viðurkenning á málinu sem jafnréttháu íslensku til samskipta innan skólans. Mál, sem ekki er aðgengilegt og viðurkennt, getur ekki gegnt hlutverki móðurmáls eða fyrsta máls. Eins og staðan er í dag vantar mikið upp á að börnum sé tryggður nægur aðgangur að frjóu og jákvæðu málsamfélagi sem leiði af sér eðlilega máltöku og málþroska barna á máltökuskeiði. Til þess þarf að breyta kennsluháttum í leikskólum og grunnskólum.
Auka þarf verulega stuðning við fjölskyldur og gera þeim kleift að læra íslenskt táknmál án þess að það skapi mikið álag á fjölskyldurnar. Leikskóli og grunnskóli gegna lykilhlutverki í máltöku- og þroskaferli heyrnarlausra og heyrnarskertra barna. Í tilviki táknmálsbarna stendur skólinn fyrir annað og meira en hinn almenni skóli. Því þarf að auka verulega stuðning við skólana. Breyta þarf kennsluháttum til móts við þarfir tvítyngdra barna sem hafa íslenskt táknmál sem annað mál, efla þarf menntun starfsfólks og símenntun með því að gera því kleift að stunda nám með vinnu. Íslenskt táknmál þarf að vera eðlilegur hluti af daglegu lífi í okkar samfélagi svo að ekki verði litið á það sem viðbótarbyrði eða hjálpartæki til íslenskunáms.
Til þess að döff einstaklingar geti verið fullgildir þátttakendur í samfélagi okkar á öllum sviðum þarf að tryggja betur í lögum rétt til túlkaþjónustu. Styrkja þarf framboð á menntun og efla sérfræðiþjónustu við stofnanir samfélagsins sem táknmálstalandi fólk sækir til. Þá þarf einnig að auka rannsóknir á þessu sviði.
Mikilvægast er að huga að börnunum og tryggja að þau fái gott máluppeldi, að málið þeirra sé viðurkennt og því sé sýnd virðing hvar sem er í samfélaginu. Aðeins þannig öðlast börnin sjálf jákvæð viðhorf til síns fyrsta máls, íslensks táknmáls, og til döff menningarheims.