Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2014

Táknmálsþulur: Hjördís Anna Haraldsdóttir

Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál

Ályktun

- Málnefnd um íslenskt táknmál hvetur skólayfirvöld til þess að taka sig á varðandi afstöðu sína til íslensks táknmáls. Gera þarf stórátak til þess að gefa börnum með skerta heyrn jafnan aðgang að íslensku táknmáli og íslensku eins og lög mæla fyrir um. Með þeirri afstöðu að íslenskt táknmál sé einhvers konar hjálpartæki eða þáttur í velferðarþjónustu er brotið á þeim málnotendum sem ættu að eiga óheftan aðgang að íslensku táknmáli.

- Málnefnd um íslenskt táknmál leggur áherslu á að þjónustu við málsamfélag íslenska táknmálsins þarf að styrkja og efla verulega. Sérstaklega þarf að standa tryggan vörð um að börn með skerta heyrn geti öðlast virkt tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku.

- Málnefnd um íslenskt táknmál leggur enn fremur áherslu á að þjónusta við málsamfélag íslenska táknmálsins er ekki velferðarþjónusta heldur samþætt vinna við tungumál. Mikilvægt er að halda áfram að byggja upp og styrkja rannsóknir á íslensku táknmáli, kennslu og túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku, samþætt og á sama grunni. 

Forsendur og umræða

Inngangur

Íslenskt táknmál er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.

Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi. Í lögunum er jafnframt kveðið á um að ríki og sveitarfélög skuli tryggja að allir sem þess þurfa eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli. Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á því að varðveita íslenskt táknmál, þróa það og stuðla að notkun þess. 

Uppruni táknmála

Rannsóknir á uppruna táknmála heimsins sýna að þau verða til og þróast í daglegum samskiptum þar sem hópur heyrnarlausra er samankominn. De Certeau (1984) bendir á að tungumálið og menningin verði til úr formgerðum hversdagsins sem spretti upp úr athöfnum fólksins. Því má gera ráð fyrir að úr daglegum athöfnum íslenskra ungmenna í fyrsta skóla heyrnarlausra, sem stofnaður var árið 1867, hafi orðið til nýjar formgerðir og á endanum tungumál og döff menning. Þannig hafi íslenska táknmálið orðið til og þróast. Nú er íslenska táknmálið kerfisbundið og flókið tungumál. Oft er erfitt að sjá hver uppruni einstakra tákna er því að þau hafa þróast og notkun þeirra orðið kerfisbundin.

Málið varð til í samfélagi döff fólks en féll ekki að ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins um eðlileg samskipti fólks. Viðbrögð þeirra sem réðu í menntun heyrnarlausra barna á ofanverðri 19. öld voru þau að banna táknmál. 

Táknmálsbann og raddmálsstefna

Raddmálsstefna og táknmálsbann í menntun heyrnarlausra barna miðaði að normalíseringu þeirra þannig að þau gætu átt raddmálssamskipti. Börnin áttu að læra að lesa af vörum og tala og gekk „sýndarmenntun“ þeirra öll út á þá þjálfun. Í heila öld voru heyrnarlaus börn þjálfuð í að lesa af vörum og tala og foreldrum var bannað að nota eitt einasta tákn í samskiptum við þau (Lane, 1984).

Afleiðingar táknmálsbannsins voru skelfilegar, litaðar af kúgun og ofbeldi og áhrif þess afdrifarík. Fjölmargir fræðimenn hafa fordæmt málbann raddmálsstefnunnar og jafnvel líkt því við glæp gagnvart mannkyni á borð við bann Tyrkja við því að nota kúrdnesku (Skutnabb-Kangas, 1994). Í rannsókn á lesskilningi heyrnarlausra barna og unglinga sem gengu í Heyrnleysingjaskólann á síðasta áratug 20. aldar, kom í ljós að um helmingur nemenda las ekki sér til skilnings sögur ætlaðar átta ára aldursstigi (Anh-Dao Tran, Jóhanna Á. Þorvaldsdóttir og Kristjana M. Sigurðardóttir, 1993). Sömu niðurstöðu má sjá í erlendum rannsóknum og jafnframt að eftir áralanga þjálfun í varalestri og talþjálfun var geta heyrnarlausra barna til að lesa af vörum engu betri en heyrandi jafnaldra sem aldrei höfðu farið í talkennslu (Conrad, 1977).

Döff fólk á Íslandi hefur, þrátt fyrir bann og mállega kúgun, aldrei hætt að nota íslenskt táknmál enda á það sín daglegu samskipti og birtir menningu sína einmitt á því tungumáli. Engum ætti að koma á óvart að sú varð raunin. 

Andóf gegn ríkjandi hugmyndafræði og sköpun döff menningar

Þegar táknmál heimsins voru bönnuð og döff fólk var útilokað frá menningu heyrandi fólks þróaði það sína eigin menningu. Um allan heim veitti það valdinu viðnám með sköpunarkrafti menningarinnar og hélt áfram að nota tungumál sín. Þegar reynt var að breyta döff fólki í heyrandi fólk var það lífskraftur táknmálssamfélaganna sem skipti sköpum. Því hefur döff fólk valið að berjast fyrir viðurkenningu á málum sínum og döff menningu. Það hefur valið að skoða og skilgreina hvað það er að vera döff og skýra fyrir sjálfu sér og hvað fyrir öðru tilveru sína í heiminum. Það að vera döff tengist ekki læknisfræðilegu ástandi eins og heyrnarleysi. Það er ferli sem felur í sér viðnám og baráttu sérhvers döff barns, döff fjölskyldna og fullorðinna döff til að varðveita og virða eigin skilning á tilveru sinni og að fá aðra til að virða og samþykkja þann skilning (Ladd, 2003).

Döff fólk á Íslandi er hópur fólks sem talar sama tungumál, íslenskt táknmál,notar sömu reglur við beitingu málsins í daglegum samskiptum og mótar sjálfsmynd sína um málið – döff sjálfsmynd. Döff fólk hefur ekki sjálfsmynd sem „fatlaðir einstaklingar“ heldur sem döff einstaklingar. Sjálfsmynd, sem mótast um brotakennda íslensku, verður ekki sterk. Ný dönsk rannsókn á skólabörnum með kuðungsígræðslu, sem fá ekki að alast upp í táknmálsumhverfi, sýnir að þau líta á sig sem einstaklinga með fötlun. Í rannsókninni kemur fram að dönsk börn, sem alast upp í táknmálsumhverfi, standa hins vegar sterkar að vígi þegar þau líta á sig sem döff en ekki sem fötluð (Bengtsson, Larsen og Sommer, 2014).

Döff einstaklingar sækjast eftir því að standa jafnfætis öðrum með því að fá viðurkenningu á sjálfskilningi sínum en ekki með því að þeim sé mætt sem sjúkum einstaklingum sem þurfi þjónustu sem slíkir. Döff fólk vill að öll börn, sem fæðast með skerta heyrn, fái tækifæri til þess að verða fullgildir þátttakendur í íslensku samfélagi, nái virku tvítyngi og að sjálfsmynd þeirra fái að verða sterk og mótast um bæði málin í lífi þeirra – íslenskt táknmál og íslensku.

Áhugavert er að skoða hugmyndir málsamfélags meirihlutamálsins um íslenskt táknmál á mismunandi tímum með hliðsjón af kenningum Irvine og Gal (2000) um mál og hugmyndafræði (iconization, fractal recursivity og erasure). Mat fólks á tungumálum hefur áhrif á málbreytingar, hvort mál deyja út, hvernig málfræðinni er lýst og hvernig landamæri hafa verið dregin. Eiginleikar, sem ráðandi umhverfi eignar málnotendum, eru yfirfærðir á tungumál þeirra (sbr. hugtakið iconization hjá Irvine og Gal 2000). Þegar litið er á döff fólk sem fatlað er sá eiginleiki yfirfærður á íslenskt táknmál og farið er að líta á tungumálið sem „hjálpartæki“ en ekki það sem það er: tungumál – með alla sömu eiginleika og önnur tungumál hafa: málfræði, orðaforða, setningafræðireglur o.s.frv. Þessi misskilningur leiðir svo til þess að litið er á túlkun á milli íslensks táknmáls og íslensku sem félags- eða heilbrigðisþjónustu en ekki það sem hún er í raun: túlkun á milli tveggja tungumála. Túlkunin er í raun sama eðlis og túlkun milli frönsku og íslensku, til dæmis; engum dettur í hug að það sé vegna fötlunar sem einhver þarf á túlkun milli íslensku og frönsku að halda. 

Á sjöunda áratugnum var döff fólk álitið frumstætt og mállaust og því ófært um að ráða við flókna hugsun nema það talaði íslensku (Brandur Jónsson, 1967). Á þessum tíma var íslenskt táknmál afmáð (sbr. hugtakið erasure hjá Irvine og Gal 2000). Litið var á það sem bendingar og tákn sem einungis gætu tjáð hlutbundin fyrirbæri en ekki hugmyndir. Ekki var litið á íslenskt táknmál sem það tungumál sem það vitaskuld var og er. Litið var á íslenskt táknmál sem ófullkomið tjáningartæki vegna þess að talið var að í það vantaði forsetningar og samtengingar, svo eitthvað sé nefnt. Fólk sá ekki að þessi fyrirbæri voru í raun og veru til staðar í tungumálinu. Fenginn var hingað erlendur sérfræðingur sem hjálpaði kennurum Heyrnleysingjaskólans að búa til hjálpar- og tengisagnir (copula), tíðir, forsetningar og samtengingar í íslenska táknmálið þannig að það yrði „fullkomið“. Þessi aðgerð hafði áhrif á þróun málsins sem enn má greina í málinu.

Í umræðum um þarfir barna með heyrnarskerðingu er enn í dag litið fram hjá íslensku táknmáli þegar ákvarðanir eru teknar um framtíð barnanna eða menntun. Íslenskt táknmál er álitið lítilvægt miðað við íslensku þannig að í mörgum tilvikum fá börnin ekki að njóta lagalegs réttar síns vegna viðhorfa til tungumálsins.

Afstaða skólayfirvalda til íslensks táknmáls er birtingarmynd þeirrar hugmyndafræði sem Irvine og Gal (2000) lýsa í greiningu sinni. Sú afstaða hafði mjög alvarleg áhrif á líf döff fólks á Íslandi eins og annars staðar. Það birtist í ofbeldi, útilokun frá lögbundinni menntun og þeim tækifærum sem lífið hefði átt að færa fólki (Róbert Spanó, 2009). Þannig geta hugmyndir manna um mál haft mjög alvarlegar afleiðingar á málið og fólkið sem talar það.

Með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr.61/2011, var staða íslensks táknmáls sem tungumáls staðfest á Íslandi. Setning laganna var mikill sigur fyrir táknmálssamfélagið og sjálfskilning döff fólks. Með lögunum fékk íslenskt táknmál sömu stöðu og íslenska í samskiptum manna í milli og bannað er að mismuna fólki eftir því hvort málið það notar. Túlkun á milli íslensku og íslensks táknmáls er þannig túlkun á milli tveggja viðurkenndra tungumála eins og til dæmis á milli frönsku og íslensku. 

Afstaða til íslensks táknmáls í lífi barna með skerta heyrn

Þrátt fyrir lög um rétt barna til þess að vera tvítyngd og fá aðgang að máltöku á íslensku táknmáli frá þeim tíma sem heyrnarleysi / heyrnarskerðing uppgötvast er framkvæmdin enn lituð af menningunni og þeim ferlum sem Irvine og Gal (2000) fjalla um. Íslenskt táknmál er afmáð og litið er fram hjá þörf barnanna fyrir málsamfélag íslensks táknmáls, málfyrirmyndir og tungumál. Kapp er lagt á að þau nái færni í íslensku en það getur þó aldrei orðið eins og hjá heyrandi barni og þetta gerist þar að auki á kostnað íslensks táknmáls. Íslenskt samfélag almennt á erfitt með að skilja boðskap döff fólks um að lykill að sterkri sjálfsmynd og grunnur að góðri menntun og lífsgæðum er virkt tvítyngi íslensku og íslensks táknmáls.

Íslenskt táknmál er enn álitið lítilvægt. Það birtist í framkvæmd máltökuráðgjafar og máluppeldis barna með skerta heyrn. Þar þykir nægilegt að börn sjái stök tákn eða fái aðgang að málumhverfinu á tilviljanakenndan hátt. Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, benti á það í fyrirlestri á degi íslenska táknmálsins 2013 að heyrnarlaus börn þurfa á öflugu táknmálsumhverfi að halda frá fyrstu tíð, strax í vöggu, til þess að málþroski þeirra verði eðlilegur og sterkur grunnur verði lagður að læsi þeirra. Jafnframt benti hún á að máltaka móðurmáls á máltökuskeiði virðist nauðsynleg forsenda eðlilegrar verkaskiptingar heilahvela og þess að heilinn starfi eðlilega.

Börn með alvarlega heyrnarskerðingu ná ekki samskiptum í hópi og ná ekki menningarlegum rótum í raddmálssamfélagi. Þau ná aldrei jafn góðri máltöku í raddmálssamfélagi og fullheyrandi börn eða börn í táknmálssamfélagi því að aldrei er hægt að skilja að máltöku, menningarsamfélag og félagsleg samskipti. Börn ná ekki tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku og þeim lífsgæðum sem þau eiga lagalegan rétt til ef litið fram hjá flóknu félagslegu hlutverki beggja málanna í lífi barnanna.

Hlíðaskóli er „tvítyngdur skóli“. Í tvítyngdu málumhverfi eiga málhafar að hafa möguleika á vali á milli tungumála. Í Hlíðaskóla eru íslenskt táknmál og íslenska ekki notuð jöfnum höndum í kennslu barnanna. Börnum á aldrinum 6-12 ára er boðið upp á eina kennslustund í íslensku táknmáli á viku og það er einungis valgrein fyrir börn á aldrinum 13-15 ára. Innan skólans hafa börn ekki aðgang að ÍTM samfélagi og málið er ekki kennslumál á sama hátt og íslenska. Þessi afstaða til málanna veldur því að börnin hafa ekki aðgang að virku tvítyngi. 

Til þess að börn geti náð virku tvítyngi og sjálfsmynd sem mótast um bæði málin verða þau að eiga í eðlilegum samskiptum á báðum málunum á mörgum sviðum og hafa aðgang að umhverfi þar sem bæði málin eru notuð. Það eru ekki bara skólabörn sem fá ekki aðgang að eða nota íslenskt táknmál í daglegu lífi sínu. Ríki og sveitarfélög eiga samkvæmt lögum að stuðla að varðveislu, þróun og notkun íslensks táknmáls. Til þess að slíkt megi verða þarf að spyrna við fótum og bregðast við með opinni umræðu, vakningu og aðgerðum stjórnvalda sem miða að eflingu íslenska táknmálssamfélagsins. 

Heimildir:

Anh DaoTran, Jóhanna Á. Þorvaldsdóttir & Kristjana M. Sigurðardóttir (1993). Rannsókn á lesskilningi heyrnarlausra barna og unglinga á Íslandi. Ný menntamál 11, 2, 32-35. 

Bengtsson, S., Larsen, L.B.& Sommer, M. L. (2014). Døvfødte børn og deres livsbetingelser. København: Det nationale forskningscenter for velfærd.

Brandur Jónsson, (1967). Heyrnardauf börn. Menntamál. Ný menntamál, 40: 115-144.

Certieau, M. de. (1984). The Practise of Everyday Live. London: University of California Press. 

Conrad, R. (1977). Lipreading by deaf and hearing children. British Journal of Educational Psychology, 47, 60-65.

Irvine, J., & Gal, S. (2000). Language Ideology and Linguistic Differentiation. Í P.V. Kroskrity, Regimes of Language (bls. 35-83). Santa Fe: School of American Research Press.

Ladd, P. (2003). Understanding Deaf Culture: In Search of Deafhood. Clevedon: Multilingual Matters Ltd.

Lane, H. (1999). The Mask of Benevolence. San Diego: DawnSignPress.

Róbert Spanó,. ( 2009). Skýrsla nefndar samkvæmt lögum Nr. 26/2007. Reykjavík: Forsætisráðuneytið.

Skutnabb-Kangas, T. (2004). Education of ethnic minorities. Í Dias (Ritstj.). Bilingual Education and Bi-literacy: its Meaning and Practicability. Series Multilingualism, Subalternity and Hegemony of English, Volume 2. Frankfurt am Main og New Delhi: Multilingualism Network/Books for Change.